5. október 2006
Kosningar eru framundan og stjórnmálamenn hafa byrjað undirbúninginn. Forsíður Morgunblaðsins og Fréttablaðsins í gær endurspegluðu þennan raunveruleika. Morgunblaðið sagði stjórnvöld hætt við frestun framkvæmda og Fréttablaðið að matarverð verði lækkað. Þetta hljómar vel, en förum að ráðum landbúnaðarráðherrans og segjum; obbobobb, hinkrum aðeins við. Er ekki einsog þær framkvæmdir sem lofað er að ráðast í hafi áður verið á dagskrá og er ekki rétt munað að þær hafi áður verið settar í bið? Jú, mikil ósköp.Stjórnarflokkarnir hafa völdin og þeir geta lofað einu og öðru þar sem valdið er þeirra. Þeir geta meira að segja lofað aftur því sama og þeir hafa áður gert, einungis sagst ætla að taka til baka það sem þeir áður sögðust ekki ætla að efna af eldri loforðum. Við þetta er erfitt fyrir stjórnandstöðuna að keppa. Það sem hún hefur helst lagt fram er að stefnt skuli að því að allir verði vinir og gangi samstíga til þings og komandi kosningavetrar. Þeir sem mestan áhuga hafa á stjórnmálum segjast heyra að hugur fylgi ekki máli og þvermóðska, pirringur og ósætti hafi þegar tekið yfir fínustu orð um vináttuna.Flestir fjölmiðlar hafa borið að okkur fullfermi af stórum orðum og miklum væntingum stjórnvalda. Þannig verður það á næstu mánuðum og fréttir af þingstörfum í vetur verða þessu marki brenndar. Fjöldi þingmanna tekur þátt í prófkjörum þar sem þeir freista þess að framlengja starf sitt á þingi og þeir þingmenn munu flestir nota sér þau tækifæri sem gefast til að koma sér á framfæri. Vitandi að hægt er að lofa nánast hverju sem er munu þingmennirnir ekki hika við að segja mikið. Hver man til að mynda loforð flokkanna í byggðakosningunum í vor? Fáir.Í trausti þess að kjósendur leggi ekki orð stjórnmálamanna á minnið munu frambjóðendurnir hvergi hika við að segja mikið og lofa miklu. Dæmi um hvernig þetta gengur fyrir sig eru orð forsætisráðherra um að hætt hafi verið við að hætta við áður boðaðar framkvæmdir. Vonandi er að nú verði af endurbótum á vegum, sérstaklega í nágrenni Reykjavíkur þar sem álagið er gríðarlegt, slysin mörg og sá langi tími sem það tekur að ferðast stuttar vegalengdir hlýtur að vera þjóðfélaginu dýr. Sporin hræða og þess vegna ber ekki að fagna strax og ótímabært er að halda að við stóru orðin verði staðið nú, ekkert frekar en síðast og jafnvel þar áður. Varðandi vilyrði um lækkun matarverðs þá vekur það fögnuð. Stjórnarflokkarnir geta ekki beðið með framkvæmdir á því fram yfir kosningar. Þeir eiga þess ekki kost, þjóðin sættir sig ekki við óbreytta stöðu. Það þarf ekki að senda þær fyrirætlanir í umhverfismat, það þarf ekki að hanna þær af verkfræðingum, það þarf ekki að kaupa upp lönd og það þarf ekki að bjóða út framkvæmdirnar. Til að lækka matarverð þarf helst tvennt að koma til, vilji og kjarkur.