10. október 2006
Ríkisstjórnin flutti okkur þegnunum góðar fréttir í gær og við treystum á að staðið verði við fyrirheit um breytingar á matarverði. Þau okkar sem munar hvað mest um hversu mikið matur hefur kostað hér á landi sjá fram á allt annan hag en hingað til. Lækkun matarverðs er stórkostleg kjarabót og sennilega hefði ríkisstjórnin ekki getað gert betur í aðdraganda kosninga. Næst verður þjóðin að andmæla vaxtaokrinu af krafti. Árangur hefur náðst í lækkun matarverðs og það eru ekki endalok baráttunnar um að við fáum að lifa við sambærileg kjör og þær þjóðir sem við viljum vera borin saman við.Mikill léttir er að vita að matarverðið verði leiðrétt. Fátt kemur efnalitlu fólki betur en að verð á helstu nauðsynjum sé sanngjarnt. Sú ákvörðun að breytingarnar taki gildi 1. mars á næsta ári, skömmu fyrir kosningar, kveikir grun um að sú dagsetning hafi verið valin einmitt til að kjósendur verði sem glaðastir þegar þeir ganga að kjörborðinu. Það er aukaatriði, aðalatriðið er að matarverðið verður leiðrétt. Það hversu skammt verður til kosninga þegar verðið á að lækka kemur nánast í veg fyrir að ríkisstjórnin gangi á bak orða sinna.Hliðarverkanir verða eflaust miklar af leiðréttu matarverði, vísitalan mun lækka og ef annað gengur vel þá hefur það áhrif á lánin okkar. Ávinningur almennings verður mikill. Forsætisráðherra sagði fyrir ekki svo löngu að ekki væri unnt að lækka álögur á matvæli þar sem kaupmenn myndu hirða allan ávinninginn. Orðum hans var mótmælt víða og hann hefur greinilega séð að sér, er hættur að gefa sér illan hug fólks sem hefur ekki til þess unnið að um það sé talað einsog ráðherrann gerði. Ómögulegt er að ætla nokkrum það að ekki sé unnt að leiðrétta matarverð vegna þess að lækkunin næði ekki til almennings sökum græðgi fárra. Kannski er ástæðulaust að staldra við fallin orð ráðherrans, heldur horfa til betri tíma, en neytendur mega samt ekki sofna á verðinum. Þeir eru besta eftirlitið með því að boðaðar aðgerðir skili sér til okkar að fullu.Næsta stóra verkefni eru vextirnir. Heyrði til talsmanns KB banka sem skýrði vaxtamun íslenskra viðskiptavina bankans og sænskra með þeim hætti að svona sé þetta bara og verði. Stýrivextir hér á landi eru himinháir, íslenska krónan er örmynt og fleira leggst á eitt. Fjármagn hér dýrara en annars staðar og einstaka bankar segjast ekkert geta gert til að breyta því. Vegna þess hversu íslenska krónan er óstöðug er ekki þorandi fyrir venjulega Íslendinga að taka lán í erlendum gjaldmiðlum. Við þetta búum við og þeir sem mestu ráða segja ekkert hægt að gera til að lækka fjármagnskostnað okkar Íslendinga.Forsætisráðherra sagði fyrir ekki svo löngu að ekki væri unnt að lækka matarskattinn. Hann hefur verið lækkaður og þó sagt sé nú að vaxtamunurinn hjá okkur og öðrum þjóðum sé óbrúanlegur megum við ekki gefast upp. Það er okkar að breyta honum.