12. október 2006
Björn Bjarnason rær lífróður fyrir áframhaldi í pólitík. Staða hans er erfið, jafnvel afleit. Ráðherrann hefur gert stöðu sína erfiða og eflaust þykir mörgum komið nóg af Birni Bjarnasyni.Það eru ekki nema fimm ár síðan Björn var kallaður fram sem borgarstjóraefni en galt afhroð. Hann hefur lengstum verið í skjóli Davíðs Oddssonar, skjóli sem ekki nýtur lengur við.Björn Bjarnason hefur tekið að sér að vera málsvari persónunjósna og varðveislu hins opinbera á gögnum um skoðanir og orð fólks sem ekkert athugavert fannst við. Björn tekur til varna sem málsvari kuldalegs kerfis og honum rennur blóðið til skyldunnar. Honum finnst hann verða að verja minningu látins föður síns, en hann gegndi embætti dómsmálaráðherra á þeim tíma sem njósnir hins opinbera risu hvað hæst. Það er fallegt af Birni að verja minningu föður síns, en um leið bendir margt til að sú vörn kosti Björn mikið í þeirri baráttu sem hann nú á í til að framlengja pólitískt líf sitt.Það er fleira sem vinnur gegn Birni og sem áður er hann örlagavaldurinn. Baugsmenn hafa sent aðfinnslur við orð og gerðir dómsmálaráðherrans til Mannréttindadómstólsins. Augljóst er að ráðherrann hefur ekki leynt hatri sínu á Baugsmönnum og einkum og sér í lagi þeim fjölmiðlum sem þeir eiga hlut í. Öll þau stóru orð sem Björn hefur viðhaft verða jafnvel skoðuð af erlendum dómstóli og hugsanlega mun Mannréttindadómstóllinn finna að gerðum og orðum ráðherrans.Áður hefur Björn þurft að kyngja áfellisdómi, hann var sagður hafa brotið jafnréttislög. Svar Björns á þeim tíma hjálpar honum ekki, en hann sagði ósköp pent að lögin væru barn síns tíma. Birni hefur tekist að draga upp af sér mynd sem fellur ekki öllum í geð. Hann vildi verða borgarstjóri og var hafnað eftirminnilega, hann hefur skrifað og talað af meiri hörku og óbilgirni um þá sem honum ekki líkar en dæmi eru um í langan tíma. Hann hefur tekið að sér að vera holdgervingur njósna og leyniþjónustu, hann hefur brotið gegn jafnréttislögum og allt þetta og fleira mun reynast honum erfitt á næstu vikum og sennilega verða til þess að hann fái harðan dóm flokksfélaga sinna.Sjálfstæðisflokkurinn er í andlitslyftingu. Þeir sem þóttu harðastir og erfiðastir eru að yfirgefa leikvöllinn hver af öðrum. Þeir leita skjóls, ýmist hjá hinu opinbera eða hverfa af velli í einhvern tíma. Davíð fór í Seðlabankann, Jón Steinar í Hæstarétt, Kjartan er farinn en ekki er vitað hvert og eftir situr Björn og freistar þess að fá að halda áfram. Bakland hans er ekki sterkt í helsta valdakjarna flokksins og varla meðal þeirra yngstu. Þess vegna er ekki fjarri lagi að ætla að Birni Bjarnasyni verði hafnað í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins.