13. október 2006
Alþýðusambandið, hin svefnsæknu Neytendasamtök, fjölmiðlar, ríkisvaldið og allur almenningur verða að byrja að undirbúa eftirlit með matvælaverði, en breytingar á tollheimtu og skattheimtu ríkisins taka gildi 1. mars. Ekki má bíða stundinni lengur með að hefja undirbúning þess að tryggja að ávinningurinn sem á að koma til almennings með breytingunum skili sér þangað. Uppi er totryggni í garð verslunarmanna og ef þeir vilja verjast henni með sóma eiga þeir að óska þess að vera með í því verðlagseftirliti sem brýnt er að fari af stað strax.Alþýðusambandið hefur staðið sig vel á verðlagsvaktinni síðustu ár. Sá hængur er á að framkvæmdastjóri sambandsins og helsti talsmaður þess er sjálfur í framboði og hann getur ekki gegnt báðum hlutverkum samtímis og fyrir það geldur Alþýðusambandið næstu vikur og næstu mánuði nái framkvæmdastjórinn árangri í prófkjöri. Ekkert hefur komið fram sem bendir til að Alþýðusambandið hyggist bregðast við skertum trúverðugleika. Þetta er alvont þar sem Alþýðusambandið er nauðsynlegur þátttakandi í eftirliti komandi vikna og mánaða.Neytendasamtökin eru annað hvort lífs eða liðin, ef þau eru lífs þá er máttur þeirra lítill og allt annar en var fyrir fáum árum. Það er þörf fyrir öflug samtök neytenda. Talsmaður neytenda er allt annað en frjáls félagsskapur fólks. Ef lítið líf er í Neytendasamtökunum þarf annað hvort að blása lífi í þau eða að neytendur, það er allur almenningur, finni sér annan farveg til að gæta hagsmuna sinna. Þörfin er mikil.Fjölmiðlarnir eru misvel undir það búnir að veita það aðhald sem þarf til að tryggja að upplýsingar um hvernig vöruverð breytist, þegar ríkið slakar á klónum, skili sér til fólks og það geti þá myndað sér skoðanir og tekið afstöðu til þess sem kann að gerast. Hver og einn verður að gera það sem hann getur, það munar svo sem um allt. Ríkisvaldið hlýtur að bera ábyrgð þó það sé ekki fyrsti kostur í vaktskipan almennings. Þar skiptir hver og einn meira máli, það er hvert og eitt okkar. Við, neytendur, verðum að nota það besta sem Alþýðusambandið gerir og Neytendasamtökin og fjölmiðlar til að standa vaktina og gæta þess að ávinningur breytinganna verði okkar, ekki framleiðenda eða seljenda. Það er okkar að kalla eftir að verslunin og framleiðendur taki ekki til sín það sem er ekki þeirra. Það er þeirra og okkar að reka til baka fullyrðingar efasemdafólks um að ekki sé hægt að lækka, eða réttara sagt að leiðrétta matarverð á Íslandi, vegna þess að hér komi vont fólk að, fólk sem tekur til sín það sem því ekki ber. Stöndum vaktina og sjáum til þess að hér verði enn betra að búa eftir 1. mars.