17. október 2006
Aðeins eru liðnir rúmir þrír mánuðir frá því miklar breytingar voru gerðar á Blaðinu. Útlit þess og innihald var endurskoðað og því nánast gjörbreytt. Fram að þeim tíma hafði Blaðið mælst umtalsvert minna en hin dagblöðin þrjú og margir voru þess fullvissir að útgáfa Blaðsins ætti sér varla framtíð. Nú, fáum vikum eftir breytingarnar sem voru gerðar í byrjun júlí í sumar, er staðan allt önnur. Landslag dagblaða á Íslandi hefur tekið stakkaskiptum. Það sýnir nýjasta könnunin um lestur dagblaða. Ekki er lengur hægt að tala um að eitt dagblað sé minna en önnur.Blaðið hefur sérstöðu frá hinum dagblöðunum tveimur. Það er stefnan að hafa Blaðið alþýðlegt og neytendavænt. Það virðist hafa gengið eftir, allavega er staðreyndin sú að fólk sem ekki las Blaðið áður en því var breytt les það nú alla útgáfudaga. Aukning í lestri Blaðsins er mikil og hún er alls staðar. Hvar sem er á landinu, hjá báðum kynjum og í öllum aldurshópum. Sennilega eru engin dæmi um eins stórt stökk í lestri nokkurs blaðs og hjá Blaðinu frá könnuninni sem gerð var í vor og svo þeirri sem gerð var í september. Mikil og gleðileg vinna fjölda starfsfólks liggur að baki breyttu blaði og það fagnar nú.Eitt af því sem sett var á oddinn við breytingarnar í júlí var að gera Blaðið að kosti fyrir yngri lesendur. Sem dæmi má nefna að í könnun sem gerð var í vor voru lesendur á aldrinum tuttugu til tuttugu og níu ára aðeins um sautján prósent. Nú hefur þeim fjölgað mikið, meira en tvöfaldast og mælist nú rétt innan við fjörutíu prósent. Þessi aukning hlýtur að teljast sérstök, ef ekki einstök.Framundan er mikil vinna við að byggja Blaðið enn frekar upp, auka það að gæðum og lesefni. Þrátt fyrir að Blaðið sé oftast aðgangsharðara en önnur blöð, gangi lengra en þau, á það ekki í útistöðum við neinn og engin klögumál hafa komið upp. Haft er að leiðarljósi að gæta sanngirni og hófsemi án þess að slá af kröfum sem aðgangshörð blaðamennska gerir til upplýsts fréttamiðils. Þessari nálgun hafa lesendur tekið vel og aukið lestur Blaðsins svo eftir er tekið.Blaðið hefur kappkostað að auka umfjöllun um menningu og sérstaklega lesefni fyrir yngri lesendur. Hvort tveggja hefur mælst vel fyrir og niðurstöður síðustu rannsókna sýna að fínar undirtektir eru byggðar á miklum lestri fólks. Vitandi af því eru næstu skref ekki aðeins eitthvað sem þarf að vinna, heldur verk sem tekist verður á við af gleði og vissu. Hefjast verður handa strax og bæta við það sem vel hefur verið gert. Ritstjórn Blaðsins veit hvaða skref á að taka næst og lesendurnir verða þeirra varir strax á næstu vikum. Blaðið mun aukast og eflast. Síðustu rannsóknir eru sem byr í seglin.