18. október 2006
Landbúnaðarráðherra hefur kveðið upp dóm, sem verður ekki áfrýjað fyrr en í vor þegar kosið verður til Alþingis. Landbúnaðarráðherra útilokar að mjólkurframleiðendur hagi sér einsog aðrir seljendur vöru og þjónustu verða að gera á okkar dögum. Landbúnaðarráðherra mærir mjólkurframleiðendur og vegna þess hversu góðir menn ráða þar komi ekki til greina að þeir lúti nútímalögmálum.Enda ganga mjólkurframleiðendur á lagið og forstjóri MS segir í Blaðinu í dag að mjólkuriðnaðurinn sé ekki undir samkeppni búinn. Við þurfum nokkurra ára undirbúning. Ég hef verið hér í eitt ár og hef meðal annars verið að búa fyrirtækið undir samkeppni. Áður var ég í sjávarútveginum í 20 ár og þekki þess vegna samkeppni vel, segir Guðbrandur Sigurðsson forstjóri. Hann var að svara athugasemdum Finns Árnasonar forstjóra Haga sem hann viðhafði í Blaðinu í gær.,,Þegar litla mjólkurfyrirtækið Mjólka fór að framleiða fetaost fóru afurðastöðvar að greiða bændum hærra verð fyrir mjólkina og verð á fetaosti lækkaði til neytenda. Það er ljóst hvað samkeppni hefur í för með sér fyrir neytendur, sagði Finnur. Verðlagning á mjólkurvörum er nú opinber með þátttöku BSRB og ASÍ. ,,Annaðhvort ættu fyrirtækin í mjólkuriðnaðinum að vera undir sömu lögum og reglum og önnur fyrirtæki í landinu eða sameinast í eitt sterkt fyrirtæki og takast þá á við erlenda samkeppni, leggur hann áherslu á. Samkvæmt breytingum á búvörulögum frá 2004 er mjólkursamlögum heimilt að hafa með sér verðsamráð, skipta með sér markaði og sameinast án afskipta samkeppnisyfirvalda. Forstjóri MS horfir meira fram á við en ráðherrann og segist gera ráð fyrir að forréttindunum ljúki. ,,Það er mat mitt að við eigum eftir að standa frammi fyrir samkeppni við mjög stóra aðila í framtíðinni.Þegar Samkeppniseftirlitið fann að sérréttindunum var svar ráðherrans hefðbundið, ein eða tvær setningar sem hafa ekki mikið gildi. Hann kaus að segja að Samkeppniseftirlitið hefði brugðið sér í stjórnmál og fannst það bara ekkert fínt, að sett væri út á löggjöf sem hann sjálfur hefur eflaust lagt meira á sig en aðrir til að láta verða að veruleika. Það hefur ekki dregið úr vilja og krafti ráðherrans, þegar hann vildi að mjólkurseljendur lifðu við önnur kjör en aðrir Íslendingar, að forréttindin eru greidd af fólkinu í landinu, ekki af ráðherranum eða ríkisstjórninni og ekki af þeim sem njóta forréttindanna.Vegna fjarlægðar má halda að íslenskur landbúnaður hafi mikið forskot, einkum í mjólkuriðnaði. Nýmjólk og fleiri afurðir eru því marki brennd að ferskleiki skiptir hvað mestu máli og þess vegna er nokkuð víst að ekki stendur til hörð samkeppni í sölu nýmjólkur, frekar í ostum og öðrum þannig vörum. Þess vegna eru hagsmunir seljendanna ekki nærri eins miklir og ef hægt væri að keppa við þá um allar vörur.