24. október 2006
Í langan tíma hefur það verið á vitorði margra innan lögreglunnar í Reykjavík að símar fólks hafa verið hleraðir. Og jafnvel í meira mæli en haldið hefur verið fram. Heimildarmenn Blaðsins fullyrða að svo sé, en ábyrgðarmenn lögreglunnar bera af sér sakir. Það er alsiða við vinnslu afhjúpandi frétta, að heimildarmenn sem oftast eru knúnir áfram af réttlætiskennd, staðfesta mál meðan þeir sem ábyrgðina bera gera allt sem þeir geta til að kæfa mál, til að hrekja blaðamenn af leið eða til að koma með einhverjum hætti í veg fyrir að óþægilegar fréttir rati á prent.Við vinnslu frétta um símahleranir í lögreglustöðinni við Hverfisgötu kom svo margt fram sem kemur á óvart. Þeir sem voru fúsir til að ræða við blaðamenn höfðu frá mörgu að segja. Næturvöktum í símstöðinni, sem köllluð var hótel helvíti, og skráningum á félagsmönnum ýmissa félaga og samtaka. Embættismenn sem rætt var við geta ekki útilokað að enn sé fylgst með fólki sem ekki getur talist til afbrotamanna, svo sem eins og mótmælendum hinna ýmsu mála. Þar voru nefnd Falun Gong og mótmæli vegna Kárahnjúka. Einn þeirra sem starfar við að fylgjast með fólki segir ekki rétt að til séu skrár um félagatöl, segir að það myndi stangast á við lög um persónuvernd, meðan aðrir viðmælendur eru sannfærðir að slíkar skrár séu til og þær uppfærðar reglulega.Ég vann í mörg ár við að hlera í fíkniefnamálum. Við fengum afhentar spólur með samtölum í þeim málum sem við vorum að vinna í. Að samtölunum loknum leyndust alls konar samtöl þar fyrir aftan. Samtöl sem við áttum alls ekki að heyra, segir einn heimildarmanna Blaðsins við vinnslu fréttarinnar. Einn þeirra sem starfaði í dularfulla símaherberginu neitar þessu ákveðið: Ég kannast ekki við þessar frásagnir. Hér er einhver misskilningur á ferðinni, segir hann.Þar sem heimildirnar eru traustar og ásakanir þeirra manna, sem rætt er við, eru alvarlegar verður lögreglan að gera betur en neita málinu í einu handtaki. Það er ákvörðun að birta frétt gegn neitun þeirra sem eiga best að þekkja til. Neitunin má þó aldrei verða til þess að frétt birtist ekki, einungis neitunarinnar vegna. Þá verður fjölmiðill að vega og meta fyrirliggjandi gögn, framkomnar fullyrðingar, þá sem tala eða annað sem styður fréttina. Þegar það hefur verið gert er fyrst hægt að taka ákvörðun um birtingu fréttar. Það er þetta sem ábyrgðarmenn fjölmiðla meta hverju sinni.Hleranir á lögreglustöðinni við Hverfisgötu eru staðreyndir. Fullyrt er að oft hafi verið hlerað án dómsúrskurða, að lögreglan hafi brotið lög. Í allri þeirri umræðu sem verið hefur um hleranir og persónunjósnir er hlerunarstöðin við Hverfisgötu sennilega ekki veigaminnsti þátturinn og hlýtur að verðskulda athygli.