25. október 2006
Einar K. Guðfinnsson steig nokkuð sérstök spor þegar hann ákvað að heimila hvalveiðar að nýju. Í fyrsta lagi er merkilegur aðdragandinn að veiðunum. Ráðherrann ákvað að láta hvalfangarann Kristján Loftsson vita af væntanlegri ákvörðun sinni með þokkalegum fyrirvara svo fangarinn gæti gert allt klárt, bæði til sjós og lands. Sennilega hefur Kristján fengið að vita af ákvörðuninni á undan samstarfsráðherrum Einars sjávarútvegsráðherra. Eins getur það ekki talist merkilegt skref að heimila aðeins veiðar á fáum hvölum og með svo litlu skrefi kalla yfir okkur öll þau óþægindi sem Einar ráðherra hefur gert með ákvörðun sinni. Það sem ráðherrann hefur gert með þessu er að upplýsa hvalfangarann um ætlun sína áður en aðrir fengu að vita hvað til stóð, þora ekki alla leið og heimila aðeins veiðar á fáum dýrum og með þessu hænufeti hefur hann kallað yfir óþægindi sem jafnvel geta skaðað Íslendinga hér og þar um heiminn. Hagsmunirnir af veiðunum eru svo litlir miðað við gusuganginn sem fylgir þeim að betur hefði verið heima setið en af stað farið.Þessar sýndarhvalveiðar hafa ekkert með stolt okkar og ákvörðunarrétt yfir eigin auðlindum að gera. Þær eru púkalegar, vanhugsaðar og þjóna engum. Ef það er eindreginn vilji ráðherrans og ríkisstjórnarinnar að heimila hvalveiðar þá ber að gera það almennilega. Ekki þetta hálfkák sem enginn græðir á. Kannski þorði ráðherrann ekki lengra og ákvað að svo takmarkaðar veiðar, sem raun er á, séu fínn prófsteinn á viðbrögð alþjóðasamfélagsins og með þessu litla skrefi sé hægt að forða okkur til baka, gefa ekki út frekari heimildir í von um fyrirgefningu umheimsins.Aðdragandi ákvörðunarinnar hlýtur að færast í sögubækur fyrir einstaka stjórnsýslu. Hvaða vit er í því að uppfræða þann sem hefur mestan fjárhagslegan ávinning af veiðunum um hvað standi til langt á undan öllum öðrum? Kann að vera að fleiri hefðu viljað nýta sér veiðiheimildirnar en Kristján Loftsson? Er það hægt á okkar tímum að vinna með þeim hætti að opna veiðar úr auðlindinni og gera það í samstarfi við einn útgerðarmann, jafnvel þó hann hafi einn staðið að hvalveiðum á sínum tíma, fyrir um tuttugu árum? Getur ekki verið að fullvinnsluskip hefðu getað stundað veiðar og vinnslu með allt öðrum hætti og nútímalegri en Hvalur hf. gerir á minjasafninu Hval 9?Vegna hlerunarmála er talsvert talað um jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Nær hún ekki út á sjó og getur ráðherra heimilað einum veiðar, og það með löngum fyrirvara, án þess að gefa öðrum kost á að nýta sér sameiginlegar auðlindir okkar?Þeir sem eru hvað mest meðmæltir hvalveiðum eru þess fullvissir að markaðir fyrir hvalkjöt séu til staðar, þó þess sjáist ekki merki enn. Ríkið hefur varið tvö hundrað milljónum króna í áróður fyrir hvalveiðum og ómögulegt er að vita hvort þeir peningar hafi með einhverjum hætti dregið úr þeirri óánægju sem Einar K. Guðfinnsson hefur vakið með ákvörðun sinni. Ákvörðun hans er ekki til þess fallin að efla samstöðu þjóðarinnar gegn erlendum óvinum. Frekar verður hún til að skipta þjóðinni í fylkingar. Það sem er verst er að þeir sem eru meðmæltir hvalveiðum geta ekki hrósað sigri. Til þess er skref ráðherrans of stutt, of púkalegt.