25. október 2006
Jón Magnússon skrifar fína grein í Blaðið í dag. Mikið óskaplega er ég sammála Jóni um að engin dæmi eru um meinta aðför að Birni Bjarnasyni. Svo klikkir Jón út með að Geir H. Haarde hafi stillt málinu upp með þeim hætti að fylgi Björns í prófkjörinu verði mælikvarði á stöðu Geirs meðal flokksmanna.
"Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur kosið að persónugera hagsmuni Sjálfstæðisflokksins í Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra og segir eins og sagði í dægurlagatexta forðum, Það er ekkert upp á hann að klaga. Að því leyti sem ég fæ skilið formann Sjálfstæðisflokksins þá sækja andstæðingar flokksins að Birni Bjarnasyni til að ná höggi á Sjálfstæðisflokkinn og því mikilvægt að mati formannsins að Björn fái góða kosningu til að koma í veg fyrir slíkt níðhögg andstæðinganna. Betri prófkjörsauglýsingu hefur enginn frambjóðandi fyrr eða síðar fengið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Svona áskorun formanns flokksins ætti að öðru jöfnu að tryggja forustumanni íhaldssams flokks eins og Sjálfstæðisflokksins, gamaldags rússneska kosningu. Björn Bjarnason hefur verið forustumaður Sjálfstæðisflokksins til margra ára. Sjálfstæðisfólk þekkir hann og veit fyrir hvað hann stendur. Fólk veit að að hann er gáfaður dugnaðarforkur og hefur verið einn helsti sporgöngumaður Davíðs Oddssonar um árabil. Óþarfi ætti að vera fyrir formann Sjálfstæðisflokksins að gefa jafn þekktum stjórnmálamanni sérstakt siðferðisvottorð. Samt sem áður er það gert og því haldið fram að andstæðingar Sjálfstæðisflokksins hlutist til um andróður gegn honum eftir því sem virðist til að hafa áhrif á prófkjör Sjálfstæðisflokksins. Pólitískir andstæðingar Sjálfstæðisflokksins hafa ekki kosningarétt í prófkjöri Sjálfstæðisfokksins. Þeir hafa almennt ekkert með prófkjörið að gera. Það eru flokksmenn í Sjálfstæðisflokknum og sérstakir stuðningsmenn sem kjósa í prófkjörinu og aðrir ekki. Prófkjörið fer fyrir ofan garð og neðan hjá flestum öðrum en innvígðu og innmúruðu Sjálfstæðisfólki. Í hverju er aðför stjórnmálandstæðinga Björns Bjarnasonar að honum fólgin? Hefur einhver vegið að honum persónulega? Hefur rógsherferð verið sett í gang? Er honum ranglega borið eitthvað á brýn? Ég hef ekki orðið var við að neitt af þessu. Satt best að segja verður þess ekki vart að Björn Bjarnason sigli úfnari pólitískan sjó í viðskiptum við pólitíska andstæðinga Sjálfstæðisflokksins en stjórnmálamenn í hans stöðu gera almennt. Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins eru hvorki að gera né reyna að gera aðför að Birni Bjarnasyni persónulega. Aðförin að honum ef hægt er að nefna það því nafni er gerð af Sjálfstæðisfólki sem vill gera breytingar á forustu flokksins. Klaufaleg viðbrögð Sjálfstæðismanna við ásökunum um símahleranir lögregluyfirvalda hafa fært andstæðingum flokksins ákveðin færi. Í lýðræðisríki er eðlilegt að lýðræðissinnar beiti sér fyrir nauðsynlegum rannsóknum og úttektum á því hvort réttarríkið starfar með eðlilegum hætti. Við eigum rétt á að fá að vita hvernig þessum málum er háttað. Ekkert minna en hlutlæg úttekt aðila sem fólkið í landinu getur treyst á símhlerunum lögregluyfirvalda kemur nú til greina. Eðlileg úttekt og umræða um þessi mál og skipan þeirra í núinu er ekki óvinafagnaður heldur mikilvægur hluti eðlilegrar pólitískrar umræðu í lýðræðiþjóðfélagi. Með yfirlýsingu sinni um Björn Bjarnason verður gengi eða gengisleysi Björns í prófkjörinu mál formannsins. Mikilvægasta niðurstaða prófkjörsins gæti þá orðið sú hvort Sjálfstæðisfólk hlustar yfirleitt á formann sinn og tekur tillit til áskorana hans."