26. október 2006
Samfélagið færir sumum þegnum sínum mikið vald. Ráðherrar hafa vald, stundum Alþingi, dómstólar og svo lögreglur ýmiskonar. Sama er að segja um ákærendur. Sumt af þessu valdi er öflugt og það er mikils virði að þeir sem er treyst fyrir því fari varlega með það. Ill eða röng meðferð á valdi er ofbeldi gegn þeim sem henni sæta. Þess vegna er brýnt að þeir einir fái vald sem geta beitt því af varúð og réttlæti.Athugasemdir Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs, vegna erindis ríkislögreglustjóra til lögreglunnar í Lúxemborg er eftirtektarverðar. Hafi Jón Ásgeir rétt fyrir sér er komin upp alvarleg staða. Þá skiptir engu hvaða skoðun hvert og eitt okkar hefur á Jóni Ásgeiri, Baugsmálinu, ríkislögreglsutjóra, dómurum eða hverju sem er. Það er ekki heppilegt að í krafti valds sé leitað til lögreglu í öðrum löndum og beðið um aðstoð á fölskum forsendum. Við það má ekki una. Þess vegna er ómögulegt að þeir sem framkvæmdu komist upp með það. Þá hafa þeir misbeitt valdi sem við hin treystum þeim til að fara með og þá er aðeins eitt í stöðunni, það er að afturkalla valdið. Fela einhverjum öðrum það. Reyndar er Baugsmálið allt að þróast á þann veg að svipta ætti þá öllu valdi sem mest beittu því í málinu.Lögreglu er falið mikið vald, meðal annars til að fylgjast með okkur hinum, og ráðherrar virðast hafa getað fengið heimildir dómstóla til hlerunar þó rök þeirra fyrir njósnunum hafi verið engin eða verulega veik. Þessum er falið mikið vald og vandmeðfarið. Það er alvarlegt að njósna um annað fólk og þess þá heldur þegar handhafar valdsins eru ráðherrar og lögregla. Venjulegir borgarar mega sín lítils gegn slíku afli. Þess vegna verða kröfurnar á þá sem fara með valdið að vera sérlega miklar og allt sem miður fer í beitingu valdsins verður að teljast til alvarlegra brota og leiða til afturköllunar valdsins.Ríkissaksóknari hefur heimildir til að hefja rannsóknir á málum að eigin frumkvæði. Það hefur hann gert með meint hlerunarmál Jóns Baldvins Hannibalssonar. Kannski má ríkissaksóknari láta frekar til sín taka. Hann gæti til að mynda látið rannsaka upphaf Baugsmálsins, grun og fullyrðingar um ólögmætar hleranir og njósnir lögreglunnar og eflaust fleira og þá hvort rétt sé að lögregla haldi skrár yfir félagsmenn einstakra samtaka og félaga, sem stenst varla lög um persónuvernd, sé rétt að slíkar skrár séu til og þær notaðar í leyniherbergjum í lögreglustöðinni.Hafi Jón Ásgeir rétt fyrir sér og hafi lögreglan borið á hann allt aðrar og meiri sakir en efni stóðu til, til þess að afla gagna erlendis, er ljóst að lögreglan hefur gengið of langt í meðferð valdsins sem við höfum falið henni. Samfélagið getur aldrei sæst á að þeir sem er falið vald beiti því að eigin geðþótta og hirði ekkert um þá sem fyrir verða. Stangist gerðir lögreglu ekki á við lög, réttlætir það samt ekki aðgerðirnar. Valdið er vandmeðfarið.Flokkur: Bloggar | 26.10.2006 | 08:10 (breytt kl. 08:12) | Facebook