Dagblaðið Vísir

Samheldinn og ákveðinn hópur fólks hefur setið við þá fáu virku daga sem liðnir eru á árinu 2007 með það markmið að endurgera DV, stíga fyrsta skrefið til að hefja elsta dagblað landsins til vegs og virðingar á ný. Á þremur vinnudögum hefur hópnum tekist að gera blað, sem er fyrsta skrefið á langri vegferð, og vonandi hefur tekist að sýna lesendum hvert DV stefnir.

Fyrir rúmum fimmtán árum var DV sennilega mest spennandi fréttafjölmiðillinn á Íslandi. Þá var enn til staðar gagnrýnt hugarfar, andi efasemda um gerðir landsfeðranna og annarra kjörinna fulltrúa þjóðarinnar, þá hafði DV það að markmiði að veita aðhald, að vera stöðugt á vaktinni. Umfram allt var DV alþýðlegt blað sem sinnti neytendamálum og öðrum upplýsingum til hins almenna lesanda.

Síðar breyttist DV og varð mjög pólitískt sem leiddi útgáfu þess í gjaldþrot. Við tók misheppnuð tilraun, DV var gert að götublaði með helstu göllum þess konar fjölmiðla. Þjóðin hafnaði DV og blaðinu hefur verið haldið gangandi síðan, það kemur aðeins út einu sinni í viku. Svo verður í einhvern tíma enn, en ekki lengi. Innan fárra vikna verður DV aftur að dagblaði, en hvers konar dagblaði?

Við sem höfum ráðið okkur til starfa á DV vitum hvað við viljum. Við kappkostum að færa hugann aftur að þeim tíma þegar DV var og hét og ímyndum okkur hvernig það blað væri í dag hefði það fengið að vera í friði, hefði það fengið að þroskast með eðlilegum hætti. Þar ætlum við að byrja. Við tókum ekki þátt í niðurlægingu síðustu ára og viljum ekki fara í þá djúpu dali.

Dagblöðin á Íslandi eru nokkuð einslit, þrjú morgunblöð sem öll virðast hafa það að leiðarljósi að gæta hófs í allri framsetningu. Dreifiblöðin tvö gjalda þess rekstrarforms sem þau lúta, það er að koma óumbeðin inn á heimili margra og þess vegna verða þau að gæta sín í allri framsetningu. Morgunblaðið hefur löngum sett sér skýrar og þröngar reglur um nafnbirtingar dæmdra manna og eins hefur komið fram að einstaka mál lúta annarri fréttastjórn en almennt gerist á því blaði. DV mun skilja sig frá hinum dagblöðunum þremur, ekki vegna þess að DV ætli að vera með dónaskap eða hroka. Frekar vegna þess að DV mun velta við steinum sem hin blöðin gera ekki og eins mun starfsfólkið gæta þess að allar fréttir lúti sömu lögmálum. Engir fá forgang og engir fá afslátt.

DV mun einnig hafa þá sérstöðu, þegar það verður aftur dagblað, að verða prentað snemma að morgni og það gefur blaðinu aukin færi á að vera ferskari en hin blöðin. Það tækifæri er einhugur um að nýta til að hafa blaðið sem ferskast og best þegar það berst lesendum.

Það þarf enginn að óttast DV, DV mun ekki skrapa botn mannlegrar eymdar, DV mun ekki ganga erinda stjórnmálasamtaka eða flokka og DV mun heldur ekki ganga erinda eigenda sinna. DV hefur skýr markmið, þar fer fremst trú og hollusta við lesendur. DV byggir tilveru sína á lesendum og hún styrkist því aðeins að DV standi í ístaðinu gegn öllu áreiti og þóknun við menn og málefni. Til þess erum við tilbúin. Í DV í dag er birt siðaskrá blaðsins og hún gefur tóninn um vinnubrögðin.

Fyrsta tölublað ársins 2007 er vísir að dagblaði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Valsson

Mér fannst aftaka lesenda DV á  ritstjórum blaðsins  á sínum tíma mun betur heppnuð en aftaka Saddams Husseins.

Júlíus Valsson, 5.1.2007 kl. 13:36

2 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Mikið er ég hræddur um að DV verði hlutdrægt þegar ávirðingar á Baugsfeðga ber á góma.

Gangi þér samt vel.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 5.1.2007 kl. 14:54

3 Smámynd: Magnús Jónsson

Til hamingju með Dagblaðið og gæfa fylgi þér og þínum störfum og samstarfsmönnum. Vonandi ber þér gæfa til þess að falla ekki niður á það lága plan í “fréttaflutningi “ sem varð fyrirrennurum Dagblaðsins að falli, það er að segja að flytja ekki hugmyndir og túlkanir fréttamanna af atburðum líðandi stundar sem fréttir. Það er einfaldlega hlutverk fréttamanna að segja frá því sem skeður en ekki það sem þeim finnst að hafi skeð, það eru ekki fréttir að fréttamaður skilji eða misskilji eitthvað, það eru hinsvegar fréttir ef stjórnmálamaður misskilur eða skilur ekki það sem hann er spurður um. Og annað það þarf ekki að velta sér uppúr skítnum bara til að aðrir verði ekki á undan manni til þess, þeir viljugu munu hvort sem er gera það, betra að bíða og ígrunda málið, og gagnrýna svo yfirvegað og þannig að eitthvað af viti fáist uppúr umræðuefninu. Kveðja Magnús

Magnús Jónsson, 6.1.2007 kl. 01:05

4 Smámynd: Sveinn Hjörtur

Til hamingju með þetta Sigurjón. Þetta gladdi mig; DV mun ekki skrapa botn mannlegrar eymdar, DV mun ekki ganga erinda stjórnmálasamtaka eða flokka og DV mun heldur ekki ganga erinda eigenda sinna. DV hefur skýr markmið, þar fer fremst trú og hollusta við lesendur. Fyrir þetta færðu mínar bestu kveðjur Sigurjón. Hlakka til að sjá blaðið dafna...á ný!

Sveinn Hjörtur

Sveinn Hjörtur , 6.1.2007 kl. 13:02

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband