Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Leiðarvísir fyrir frambjóðendur

Margrét Ómarsdóttir, talsmaður Barnageðs, félags foreldra geðfatlaðra, er móðir drengs sem um árabil hefur þjáðst af geðröskun. Hún segist fyrir löngu búin að gefast upp á kerfinu. „Til fjölda ára hefur fjölskylda mín verið í gíslingu kerfisins og við höfum staðið í áralangri baráttu við kerfið. Sem betur fer er sonur minn að ná þeim aldri að við erum að losna út úr því. Nýverið höfum við fundið aðra leið til að fá hjálp. Við vorum bara svo heppin að fá undanþágu annars staðar þar sem viðkomandi aðila fannst ástandið einfaldlega óforsvaranlegt,“ segir Margrét í samtali við DV. „Það er bara ekki boðið upp á neinar lausnir. Ótrúlegt er að horfa upp á heilbrigðisráðherra lýsa því yfir að allir þeir sem þurfi á hjálp að halda fái hana. Skilaboðin til foreldranna eru líklega þau að hringja þá bara beint í Siv og láta hana standa við orð sín með aðstoðina.“
Þessi orð Margrétar eiga erindi til allra, ekki síst frambjóðenda til Alþingis. Það er ekki með nokkrum hætti að sættast við að þeim sem hafa sóst eftir völdum og fengið, láti ástand einsog Margrét Ómarsdóttir lýsir, viðgangast. Þeir sem hafa kost á að hafna Siv Friðleifsóttur í komandi kosningum munu væntanlega gera það. Framganga hennar er óásættanleg og ekki er nokkur leið að kalla hana til frekari starfa fyrir fólkið í landinu, allavega ekki veika fólkið.
„Margföldunaráhrifin af biðlistum geðdeildarinnar eru gífurleg. Öll fjölskyldan er undirlögð og það fer hreinlega allt til fjandans,“ segir Sveinn Magnússon hjá Geðhjálp. „Einstaklingur, sem var hættulegur sér og öðrum, var lokaður af inni á salerni deildarinnar þar sem hættuleg efni var að finna. Erum við að bíða eftir því að fleiri svona dæmi komi upp eða ætlum við að leysa þennan vanda?
Við skulum ekkert bíða. Kjósendum ber að leita svara hjá frambjóðendum. Vandann verður að leysa. „Móðir, sem ég þekki, hefur lengi þurft að glíma við bæði geðsjúkdóm og krabbamein hjá barni sínu. Um skeið var útlit fyrir rénun beggja sjúkdómanna en krabbameinið tók sig upp aftur. Þó svo að það sé ljótt að hugsa þannig þá var hún nánast fegin því vegna þess að þá gat hún fengið aðstoð,“ segir Margrét.
Heilbrigðisráðherrann, Siv Friðleifsdóttir, er upptekin af innanflokksátökum þar sem verið er að koma vildarfélögum í Framsókn á bestu básana þar sem óvíst er um áframhaldandi völd flokksins. Á meðan dregur ekki úr vanda þess fólks sem hér hefur verið bent á. Frambjóðendur sem meina eitthvað með brölti sínu verða að lesa DV. Þar birtast sannar sögur af fólki sem eru þolendur aðgerðarleysis stjórnmálamanna.

Staðreyndir og loforð

Varla er hægt að bjóða kjósendum upp á fagurgala um það sem gera skal eftir kosningar. Sérstaklega þegar þau sem lofa hafa haft öll tækifæri til að laga það sem ekki er nógu gott. Í kappræðum frambjóðenda í gær var verið að ræða félagsmál. Halda mætti að ráðamennirnir hafi ekki lesið DV í gær. Þar var sagt frá brýnum vanda.

Hjónin Helga Þórðardóttir og Gunnar Jónsson eru á níræðis- og tíræðisaldri. Þau hafa verið gift í 65 ár og búið saman á Selfossi alla tíð.

„Þegar hann veiktist var um nokkra kosti að ræða, ég neitaði Kirkjubæjarklaustri vegna þess að það var allt of langt í burtu fyrir okkur. Ég sætti mig hins vegar við að hann fari á Ljósheima, Kumbaravog eða Ás. Einn góðan veðurdag frétti ég það að hann væri á leiðinni austur á Kirkjubæjarklaustur án þess að við fjölskyldan hans vissum af því. Við höfðum gefið samþykki fyrir því að hann færi þangað í stuttan tíma, en við vissum ekki hvenær hann myndi fara. Síðan frétti ég það utan úr bæ að hann hafi verið sendur austur, án þess að ég gæti einu sinni hvatt hann. Þetta sagði Helga Þórðardóttir um örlög mannsins hennar, Gunnars Jónssonar, en hann er heilabilaður. Helga þarf að fara 400 kílómetra leið til að heimsækja manninn sinn. Þetta er afleidd staða þessara öldruðu hjóna og engum til sóma, heldur öllum til háborinnar skammar. Hverslags samfélag höfum við búið til?

Frambjóðendur til Alþingis, hafið hugfast að aðskilnaðurinn tekur mjög á hjónin og segir Helga að Gunnar kalli nafn hennar dag og nótt. Í hvert skipti sem hún hefur heimsótt hann á Kirkjubæjarklaustur hefur hann haldið að hún sé komin til að sækja hann. En svo er ekki og ábyrgðin á hlutskiptum þeirra hjóna liggur ekki hjá þeim, hún liggur hjá þingmönnum og ráðherrum. Með alveg sama hætti og vandi þeirra fjölskyldna sem eru ofursettar úrræðaleysi á barna- og unglingageðdeildinni.

Ekki er ein einasta þörf að fletta skýrslum og skoða meðaltöl til að athuga hag eldri borgara og úrræði fyrir þá veiku. Lesið DV, þar er raunveruleikann að finna. Helga Þórðardóttir og Gunnar Jónsson eru áþreifanleg og örlög þessara öldruðu hjóna segja meira en allar samantektir og útreikningar. Samfélagið fer illa með hjónin og samfélaginu ber að bæta það sem þegar hefur verið gert. Frambjóðendur mega ekki einblína á meðaltöl, skýrslur eða annað sem flækir hugsanir þeirra. Þeir verða að fylgjast með samfélaginu og því sem þar gerist. DV er gluggi að hinu raunverulega lífi. Frambjóðendur, lesið DV og fylgist með.


Dagblað er ekki dómstóll

Dagblað er ekki dómstóll, segir Matthías Johannessen, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins, í langri grein sem hann birtir í Lesbók síns gamla blaðs. Þar ver ritstjórinn fyrrverandi son sinn, Harald ríkislögreglustjóra ákveðið, og fer mörgum orðum um þá sem hann hafa gagnrýnt. Gott og vel með það. En það er rétt sem kemur fram hjá Matthíasi; dagblað er ekki dómstóll. Að sama skapi á dagblað ekki heldur að vera gerandi í fréttum, ekki taka þátt í að kæra mál til lögreglu, finna lögmenn fyrir væntanlega kærendur, ekki beita þrýstingi sínum á ráðamenn svo hafin verði saksókn gegn þeim sem fjölmiðlinum líkar ekki við, af einhverjum ástæðum. Allt þetta gerði Morgunblaðið, blaðið sem Matthías ritstýrði áður.
Það er ágætt hjá Matthíasi að freista þess að rétta hlut sonar síns. Það dugar þó skammt þegar litið er til hvernig sakamálum sem stýrt er af embætti Haraldar hefur lyktað. Það er von að efasemdir um ágæti embættisins vakni og að spurt sé hvort breytingar þurfi að gera. Matthíasi er tíðrætt um fjölmiðla og í gegn skín gamli moggaandinn, það er að á því blaði séu stunduð meiri og betri vinnubrögð en almennt gerist og að Morgunblaðið sé yfir önnur blöð hafið. Svo mikið er víst að Matthías talar talsvert um stöðu annarra blaða í dag og stöðu þeirra áður. Áhugafólk um sanngjarna og heila fjölmiðla geta ekki annað en mótmælt þeim anda sem kemur fram í grein Matthíasar. Morgunblaðið var notað í upphafi Baugsmálsins, um það er ekki deilt, Morgunblaðið hefur valið að Baugsmálið og olíusvikamálið lúti ekki almennum starfsreglum innan ritstjórnar. Það hefur komið fram í Morgunblaðinu sjálfu að það er ákvörðun núverandi ristjóra að þessi tvö mál fara ekki í hefðbundan fréttastjórn, þeim er fréttastýrt af ritstjóranum sjálfum. Vinnubrögð Morgunblaðsins eru sem betur fer sérstök.
Morgunblaðsgrein Matthíasar svarar ekki spurningum einsog til dæmis þeirri sem kom fram í DV í gær, hefur ríkislögreglustjóri sætt þrýstingi stjórnmálamanna í fleiri málum en olíusvikamálinu?

Farinn

Hef flutt mig á blogcentral.is/-sme

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband