Færsluflokkur: Bloggar
Mikil ábyrgð er lög á þá sem fara með ákæruvald. Rétt einsog með annað vald fer best þegar því er beitt af varúð og hófsemi. Mörgum var brugðið þegar saksóknarinn í Baugsmálinu sagði ekki útilokað að ákært verði í þriðja sinn í einum þætti málsins, þrátt fyrir að dómstólar hafi í tvígang vísað sakargiftunum frá með þeim rökum að engin glæpur hafi verið framinn. Það er jú hltuverk ákærenda að finna glæpi og fá ákærða dæmda fyrir þá. Ef dómstólar ítrekað segjast ekki finna glæpi sem ákært er fyrir er ekki þolandi að valdsmaðurinn beiti valdi sínu einsog og nú er hótað. Það er ekki þolandi.Ekki má gleymast að bæði karlar og konur, ungir sem gamlir, ríkir jafnt og fátækir hafa tilfinningar. Valdsmenn verða að kunna að taka ósigrum og láta af gerðum sínum þegar þeir ítrekað fá þá niðurstöðu frá dómstólum að þeir vaði reyk.Samfélagið hlýtur að andmæla. Þegar mikið gerist, hús brenna, slys verða, náttúran minnir á sig eða maðurinn tekur ákvörðun um virkjanir eða annað sem fellur fólki misvel kemur stundum í ljós samtakamáttur fólks. Hversu langt má valdið ganga, hversu mikið er hægt að umbera af ofbeldi valdsins og kannski réttast að spyrja hversu margir hafa orðið fyrir ofbeldi valdsins og hafa ekki getað varist. Sú spurning er áleitin og eins spurningin um hvers vegna ákærendinn láta sér ekki segjast, hvað knýr hann áfram?Steinn Steinarr orti kvæði sem minnir okkur á hversu samtaka við getum verið þegar ógn stafar að hinu veraldlega en hversu afskiptalaus við getum verið þegar raunir einstaklinga verða miklar:Það kviknaði eldur á efstu hæð,í einu húsi við Laugaveginn.Og því verður ekki með orðum lýst,hvað allur sá lýður varð harmi sleginn.Það tókst þó að slökkva þann slóttuga fant,því slökkviliðið var öðrum megin.Og því verður ekki með orðum lýst,hvað allur sá lýður varð glaður og feginn. En seinna um daginn, á sömu hæð,í sama húsi við Laugaveginn,þá kviknaði eldur í einni sál,í einni sál, sem var glöð og fegin.Og enginn bjargar og enginn veit,og enginn maður er harmi sleginn,þó brenni eldur með ógn og kvölí einu hjarta við Laugaveginn.
Getur verið að vilyrði um að Landhelgisgælan yrði flutt til Suðurnesja hafi alltaf verið inanntóm, aldrei hafi verið mark á þeim takandi.Það hefur ekki komið til tals en það er ekki í mínu valdi að taka neinar ákvarðanir í þeim efnum, sagði forstjóri Landhelgisgæslunnar í Blaðinu í gær, um þá staðreynd að gæslan verður áfram í Reykjavík. Dómsmálaráðherra er viss um hvað vill, Gæslan verður áfram í Reykjavík og neitar að það sé vegna þess að hann er þingmaður Reykvíkinga. Þeir komast aldrei út úr Reykjavík þessir háu herrar, sagðiKristján Gunnarsson, formaður Verkalýðsfélagsins í Keflavík, og benti á að dómsmálaráðherrann sé þingmaður Reykvíkinga. Maður veltir því fyrir sér hvort að það hafi verið að þvælast fyrir honum í þessu máli. Auðvitað eru þetta djöfuls vonbrigði ef þetta verður niðurstaðan, verandi með alla þessa aðstöðu, húsnæði og fleira til staðar á Keflavíkurflugvelli. Suðurnesjamenn höfðu greinilega skilið ráðamenn þannig að Gæslan yrði meðal þess sem að þeim yrði rétt eftir að Varnarliðið fer og skilur eftir hundruði atvinnulausra. En hvað ætli sé til ráða á Suðurnejsum, er rétt af þeim sem þar búa að leggja skilning í orð stjórnmálamanna, eða er eitthvað annað til ráða. Gefum Kristjáni Gunnarssyni orðið:Ætli Suðurnesjamenn verði ekki bara að leysa úr þessu sjálfir eins og þeir eru vanir, ég er farinn að hallast að því, segir Kristján. Sennilega yrði það besta lausnin að heimamenn geri það sem þarf að gera en leggi ekki traust sitt og trúnað á að aðrir bjargir því sem bjarga verður. Vonlítið er að treysta á aðra, en það breytir samt ekki því að Suðurnesjamenn telja sig hafa verið í þeirri stöðu að eitthvað væri að marka orð ráðamanna sem kepptust um tíma til að koma á fundi og tala í lausnum.Þetta eru fyrst og fremst mikil vonbrigði, sagði Kristján Gunnarsson.Maður veltir því fyrir sér hvort að menn meini eitthvað með því sem þeir sögðu þegar talað var um að gera eitthvað í málum Suðurnesjamanna til þess að reyna að efla hér atvinnu í kjölfar þess að varnarliðið er á förum. Ég held að þetta risti bara ekki dýpra og menn eru greinilega ekki að meina neitt með því þegar þeir eru að kvaka um þessi mál.Sennilega er það farsælast að sú hugsun verði ráðandi á Suðurnesjum að þar verða lausnirnar að fæðast og verða að veruleika, ekki er burðugt að treysta á aðra og alls ekki að lausnirnar séu þær skárstar að færa atvinnu frá einu stað í annan. Það er ekki lausn, það er að færa til vanda.
Merkilegt að heyra í ráðamönnum um hátt matarverð og hvað ber að gera til að létta okkur lífið, leyfa okkur að búa við ámóta verðlag og þekkist hjá öðrum þjóðum.Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði í gær að alls ekki sé víst þó að ríkið losi um sínar heljaklær og falli frá hluta þess sem það leggur á lífsnauðsynjarnar að það skili sér til neytenda, hann sagði það bara alls ekki víst. Fákeppni í verslun er það mikil að mati ráðherrans að allsendis er óvíst að lækkun skatta og lækkun á álögum hins opinbera skili sér til neytenda. Skilja mátti forsætisráðherrann þannig að fjandans kaupmennirnir myndu hirða allt sem sparast. Hann tók sem dæmi að sælgæti seljist fínt og ef opinberar álögur verða lækkaðar sé allt eins hægt að reikna með að kaupmennirnir lækki nammið ekki, heldur hagnist sjálfir á hugsanlegum breytingum. Það var og. Fleira hefur verið nefnt og sá ótti er uppi núna að ráðamenn geri fátt til að lækka matarverðið, með þeim rökum að kaupmönnum, sem eru sagðir í fákeppni og þá væntanlega ekki í nógri samkeppni, hirði allt sem neytendum er ætlað.Það væri í lagi að reyna, ráðamenn. Reynum kaupmennina, reynum milliliðina, reynum hvert á annað og sjáum til hvort við getum ekki bara treyst hvert öðru. Það er ekki mikils virði að neita að framkvæma bara vegna vissu um að einhverjir muni svindla.Sami tónn heyrist hjá svo mörgum stjórnmálamönnum þegar þeir verjast lögum á fjármál og fjárreiður stjórnmálaflokka. Þeir segja að ekki sé hægt að setja lög einsog þekkjast í öðrum löndum, jú vegna þess að einhverjir muni bara fara í kringum lögin. Með svo rakalausum rökum hefur stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum tekist að verjast lögum um eigin starfsemi. Það setur að mörgum kaldan hroll þegar sama, eða svipuð, hundalógík heyrist þegar verið er að ræða jafn knýjandi mál og lækkun matarverðs. Fyrirfram gefinn ótti um illsku kaupmanna má ekki verða til þess að ekkert breytist. Fólkið í landinu hlýtur að benda ráðamönnum á að þetta er ekki þolandi. Það er augljós krafa um að gera breytingar, svo sterk krafa að aum hundalógík má ekki verða til að þess að ekkert eða alltof lítið verði gert.Engin rök eru heldur nógu sterk til að renna stoðum undir þær umkvartanir, að breytingar á verndartollum og afnám annarra hafta sé aðför að landbúnaði, bara alls ekki. Íslenskur landbúnaður er fínn, svo fínn að frá honum koma kannski fínustu matvæli í heimi. Það mun ekkert breytast, það er frekar að neysluvenjur muni breytast og fari svo að íslenskar vörur verði dýrari en innfluttar er fjarri lagi að halda að við munum ekki oft og iðulega velja íslenskar vörur. Við viljum bara fá að velja, einsog og aðrar þjóðir.Vonin er samt ekki mikil, nánast afar veik. Tóninn í þeim sem mestu ráða er ekki betri en svo að sennilega verður enn aftur kosið að gera ekkert, eða sem minnst. Og að áfram verðum við sætta okkur við að þrengri kost, aðeins vegna kjarkleysis ráðamanna.
Visitalan hækkar, skuldirnar hækka og við skuldugir erum verr settir en áður, en hvað með þá sem við skuldum, þá sem eiga skuldirnar? Ætli staða þeirra versni um leið og staða okkar hinna? Getur verið að peningarnir sem við skuldum séu fengnir úr öðru umhverfi, umhverfi þar sem ekki er verðtrygging og vextirnir þar slái ekki nein met, kannski eru þetta bara venjulegir vextir, vextir einsog flestir í útlöndum borga? Ég held það.Hver veltir lengur fyrir sér hvað bensínið kostar hverju sinni? Hver man hvað bensínið kostaði í gær? Fáir, ef nokkur. Sama er að segja um vextina. Almenningur er hættur að vita hvað yfirdráttarlánin kosta, hvað þetta kosta og hvað hitt kostar. Kannski hefur góðæri síðustu ára veikt varnirnar, við erum góðu vön og skrefin til baka geta verið þyngri en svo að við kærum okkur um stíga þau. Höldum þess í stað áfram að borga fyrir þægindin, fyrir óþarfan, fyrir nauðsynjarnar án þess að fylgjast svo grannt með hvert verðið er. Þannig er það oftast.Vissulega er ástæða til að hlusta þegar búist er við að staða okkur versni, verðbólga aukist, höfuðstóll lánanna hækki, tryggingarnar að baki lánanna, það er heimilin, lækki og þess vegna er hætt á að skuldirnar verði jafnvel hærri en eignirnar. Það verður vond staða, staða sem við viljum ekki að verði. Þess vegna lögðum við trú okkar og von á að þeir sem hafa tekist á að vísa veginn, þeir sem hafa sóst eftir að leiða okkur áfram gerðu sitt til að hagur okkar allra yrði eins góður og kostur var á.Ríkisstjórn, fulltrúar launafólks og atvinnurekenda komust að samkomulagi, samningum verður ekki sagt upp. Við stundum af feiginleik. Þá kom aðalbankastjóri Seðlabankans og fyrrum efnahagsmálaráðherra þjóðarinnar og sagði samkomulagið svo sem ágætt, skref í rétta átt, en ekki nóg, ekki nóg. Nokkrum dögum síðar tilkynnir þessi sami maður hækkun stýrivaxta, meiri hækkun en aðrir höfðu reiknað með. Enn eitt metið var fallið, hvergi hærri vextir. Þá sögðu þeir sem áður höfðu gert samkomulag að Seðlabankastjórinn væri með ákvörðun sinni að kalla fram harða lendingu í efnahagsmálum. Sem væntanlega er vond fyrir okkur. Hvaða menn eru þetta? Atvinnurekendur, launþegar og ráðherrar gera ekki nóg að mati Seðlabankans sem aftur á móti fær þann dóm frá hinum að bankinn geri alltof mikið. Við hin getum fátt, lokum gluggunum og vonum að allt fari vel, þrátt fyrir að engum virðist treystandi, hvorki veðri né vitringum.
Eftir að hafa heyrt til eina yfirlýsta frambjóðandans í væntanlegu formannskjöri í Framsóknarflokknum er kallað eftir að fleiri gefi kost á sér. Ekki er nokkur vafi um að Jón Sigurðsson ráðherra er hinn vænst maður, ekki nokkur vafi, vel menntaður og heiðarlegur. Hann skortir samt margt sem stjórnmálaforingi þarf að hafa til að bera.Jón talar sem fræðari frekar en foringi, hann tjáir sig með þeim hætti að svo virðist sem hann ætlist til að á hann sé hlustað, glósað niður og hlustandinn geri síðan sitt besta með upplýsingarnar, eða réttara sagt fróðleikinn. Er einsog vandaðru en þurr kennari. Við sem erum ekki í flokknum, við sem þurfum ekki að hlusta frekar en við viljum, okkur leiðist og við læðumst út úr tímanum.Framsókn á Guðna Ágústsson sem er eins ólíkur Jóni Sigurðssyni og hugsast getur. Guðni talar kannski ekki í lausnum, veit ekki allt og skilur ekki allt. Guðni talar einsog okkur langar að heyra, og jafnvel einsog okkur langar að tala. Guðni er orðheppinn húmoristi og það hefur dugað honum hingað til. Auðvitað er það svo að orðheppni og skemmtilegheit duga ekki til að verða í fremstu röð áhrifamanna í samfélaginu. Þangað stefnir Framsókn heldur ekki og þá ekki heldur næsti formaður flokksins. Framsóknar hlýtur að bíða það hlutskipti að verða í stjórnarandstöðu á næsta kjörtímabili. Þess vegna er val um næsta formann, val um leiðtoga flokks utan ríkisstjórnar.Kannski er það svo að Jón Sigurðsson skorti klækina og leiknina til að komast framhjá því sem mestu skiptir sem gerir hann svo ópíltiskan sem raun er á. Guðni kann leikinn betur, hann kemst upp með að svara í stöku setningum, stundum á skjön við það sem hann er spurður og það er fínt fyrir stjórnmálamenn að komast up með það, það má vel vera að það sé ekki eins fínt fyrir stjórnmálin.Við fjölmörgu sem höfum í raun litlar áhyggjur af því hver verður næsti formaður Framsóknarflokksins getum allavega vænst þess að um flokkinn leiki skemmtilegir og óvæntir straumar. Guðni er liklegri en Jón til að svo verði. Annað sem verður spennandi ef ráðherrarnir tveir berjast um formannsstólinn er hversu ólíka leið þeir hafa farið. Guðni er margreyndur í stjórnmálunum, hefur unnið sig upp skref fyrir skref, kemur úr grasrót flokksins, sonur þingmanns, sveitamaður af guðs náð og er hrókur alls fagnaður, sannur sveitasómi og eftir er honum er tekið hvar sem hann fer. Jón hefur hins unnið fyrir flokkinn störf sem almenningur hefur svo sem ekki veitt eftirtekt, hefur ekki verið í framboði og þess vegna aldrei staðið sjálfur í opinberri baráttu. Hann er ráðherra án þess að hafa verið kosin af neinum, jú af einum, Halldóri Ásgrímssyni fráfarandi formanni. Það er veganesti hans í stjórnmálin. Áður vann hann sér inn meiri menntun en gengur og gerist. Guðni er minna menntaður í skólum, en menntun er svo sem sótt víðar en í skóla. Þeir eiga ólíkan feril að baki. Svo ólíkan að það væri hreint yndislegt að sjá flokksfólk Framsóknar velja á milli þeirra.
Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri Alþýðusambandsins, hefur dregið framboð sitt í prófkjöri Samfylkingarinnar til baka. Þessari ákvörðun Gylfa ber að fagna. Hann hefur veigameira hlutverki að gegna sem framkvæmdastjóri Alþýðusambandsins en sem einn af sextíu og þremur þingmönnum þjóðarinnar. Hjá Alþýðusambandinu hafa verk skipast þannig að Gylfi hefur verið helsti talsmaður þess og eflaust þýðingarmesti starfsmaðurinn.Sennilega aldrei verið meiri þörf en nú að Alþýðusambandið verði hafið yfir alla flokkadrætti en nú. Alþýðusambandið hefur tekið algjöra forystu í verðlagseftirliti og framlag þess er stórkostlegt. Vegna væntanlegra leiðréttinga á matarverði er þörfin fyrir verðlagsvakt brýnn nú en nokkru sinni. Þess vegna skiptir allan almenning svo miklu að Alþýðusambandið standi sig í þeirri vinnu sem framundan er og gefi ekki á sér höggstað. Hér á þessum stað var vikið að þessu fyrir fáum dögum. Þá stóð eftirfarandi. Alþýðusambandið hefur staðið sig vel á verðlagsvaktinni síðustu ár. Sá hængur er á að framkvæmdastjóri sambandsins og helsti talsmaður þess er sjálfur í framboði og hann getur ekki gegnt báðum hlutverkum samtímis og fyrir það geldur Alþýðusambandið næstu vikur og næstu mánuði nái framkvæmdastjórinn árangri í prófkjöri. Ekkert hefur komið fram sem bendir til að Alþýðusambandið hyggist bregða við skertum trúverðugleika. Þetta er alvont þar sem Alþýðusambandið er nauðsynlegur þátttakandi í eftirliti komandi vikna og mánaða.Nú hefur Gylfi Arnbjörnsson stigið til baka og vonandi tekst honum að leiða sinn hóp áfram í krefjandi verkefnum næstu mánaða. Svo miklu skiptir að eftirgjöf ríkisvaldsins skili sér til þeirra sem eiga að njóta ávinninganna, en hverfi ekki til framleiðenda og seljenda. Takist Alþýðusambandinu og öðrum sem málið varðar að gæta þess að ávinningurinn skili sér alla leið verður hagur fjölskyldnanna í landinu svo mikill. Verðtryggð lán verða hagstæðari á sama tíma og nauðsynlegustu vörur hvers heimilis, það er maturinn, verður á öðru og betra verði.Það skiptir svo miklu máli að allir leggist á eitt, líka að Gylfi Arnbjörnsson geri það af fullu afli. Það munar um minna. Það eru nægir til að berjast um fá þingsæti og völd og áhrif einstakra þingmanna eru ekki mikil. Þingræðið hefur stórskaðast og framkvæmdavaldið hefur eflst af sama skapi. Meðan svo er skiptir miklu að þeir Íslendingar utan þings, sem geta haft áhrif á þróun samfélagsins með störfum sínum og áhrifum, standi í ístaðinu og veiti aðhald, ekki bara ríkisstjórnum, heldur einnig atvinnulífinu. Það eru meiri og krefjandi störf sem bíða utan þings en innan.
Sök bítur sekan Merkilegt að hugsa til baka og rifja upp kjörtímabilið 1987 til 1991. Þá myndaði Þorsteinn Pálsson ríkisstjórn með Framsóknarflokki og Alþýðuflokki. Formenn þeirra flokka, Steingrímur Hermannsson og Jón Baldvin Hannibalsson, voru augljóslega aldrei sælir í samstarfinu. Steingrímur vakti til að mynda þjóðarathygli þegar hann, þá starfandi utanríkisráðherra, boðaði til almenns stjórnmálafundar þar sem hann sagði ástand efnahagsmála vera í uppnámi, sagði Róm brenna. Enda fór svo að þeir félagar Steingrímur og Jón Baldvin sprengdu ríkisstjórnina, fóru á bakvið forsætisráðherrann og mynduðu nýja ríkisstjórn.Til að það tækist fengu þeir Alþýðubandalagið, undir forystu Ólafs Ragnars Grímssonar, og Borgaraflokkinn í lið með sér. Svavar Gestsson varð ráðherra í nýrri ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar. Fáir þingmenn hafa verið harðari og mælskari í átökum við andstæðinga sína en Svavar. Hann var andstæðingum sínum erfiður. Nú hefur verið upplýst að Streingrímur og Jón Baldvin sprengdu ekki aðeins ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar, heldur gerðu þeir gott betur. Þeir fyrirskipuðu rannsóknir á meintum tengslum Svavars, sem þá var orðinn samráðherra þeirra í nýju ríkisstjórninni, við Austur-Þýsku leyniþjónustuna, Stasi, sem var hrikaleg og vond. Þeir félagarnir fengu engar upplýsingar um landráð eða aðrir sakir Svavars. Ekkert hefur komið fram sem bendir til að Svavar hafi á nokkurn hátt unnið fyrir erlend ríki. Ekki frekar en í öðrum málum fyrri tíma. Allar þær símahleranir og persónunjósnir sem sannarlega voru stundaðar hér eiga það sammerkt að hafa engu skilað, enga sekt sannað og aðeins verið byggðar á ótta ráðandi afla hverju sinni. Rannsóknir að beiðni Steingríms og Jón Baldvins eru svo nærri okkur í tíma að réttast er að byrja á að leiða fram allan sannleika um þær. Er það svo að ráðherrar geti fengið embættismönnum það verk að fara um heiminn og tína saman gögn fyrri ára í von um að þau komi pólitískum andstæðingum illa? Þarf ekki sérstakar heimildir til þannig skítverka, eða geta einstaka ráðherrar fyrirskipað slíkt og látið ríkið borga kostnaðinn án þess að það komi fram í reikningsbókum eða öðrum skrám? Gerist þetta jafnvel enn?Jón Baldvin uppástendur að sími hans hafi verið hleraður meðan hann var utanríkisráðherra. Við verðum að trúa manninum og ganga út frá því sem vísu að hann sé þess fullviss að svo hafi verið. Opinber rannsókn mun væntanlega leiða fram sannleikann í því máli. Við bíðum spennt. Hvers vegna Jón Baldvin gerði ekkert með þessa vitneskju á sínum tíma er annað mál og sérstakt. Þá vissi hann af rannsókinni sem hann fyrirskipaði um meint tengsl Íslendinga, og sérstaklega Svavars Gestssonar, við leyniþjónustu Austur-Þýsklands. Getur verið að það hafi dregið úr vilja Jóns Baldvins á að láta rannsaka hugsanlegar símahleranir fáum árum síðar? Kann að vera, en auðvitað verður þetta allt rannsakað og niðurstöðurnar munu ýmist hreinsa gerendur af ásökunum eða sanna sektir.
Þessi færsla er búin til af kerfinu þegar notandi er stofnaður. Henni má eyða eða breyta að vild.