Færsluflokkur: Bloggar
10. ágúst 2006
Ómar Rag narsson hefur boðið ellefu manns, áhrifafólki, eins og hann nefnir það, í skoðunarferð að Kárahnjúkum. Hann segir í opnu boðsbréfi að gestirnir hafi það hlutverk að þjóna allri þjóðinni. Ómar býður forseta Íslands, forsætisráðherra, utanríkisráðherra, iðnaðarráðherra, umhvefisráðherra, ritstjórum dagblaðanna þriggja og stjórnendum eða fréttastjórum Ríkisútvarpsins, NFS og Skjás 1.Þrátt fyrir að sá sem þetta skrifar hafi það meginmarkmið að þiggja aldrei neitt í starfi, ekki boðsferðir, ekki málsverði eða nokkuð annað ætlar hann að gera undantekningu og þiggja boð Ómars.Í bréfi Ómars segir að hann geri ráð fyrir að allir sem hann bjóði nú hafi þegið ferðir að Kárahnjúkum. Það á ekki við um alla. Ómar hefur hins vegar reynslu af skoðanarferðum. Gefum honum orðið:Ég hef sjálfur farið sem leiðsögumaður í tveimur vönduðum boðsferðum í þessum dúr þar sem í boði voru glæsilegar veitingar og viðurgjörningur allan daginn, flogið í Boeing 757 millilandaþotum austur með göngu í gegnum sérstak VIP-tollhlið á Reykjavíkurflugvelli; síðan farið í fimm rútum með sérstakri útvarpsstöð, setinn gala-kvöldverður í Valaskjálf með skemmtiatriðum og flogið til baka um kvöldið.Fræg var ferðin sem fyrrverandi forystumenn Sjálfstæðisflokksins fóru að Kárahnjúkum þar sem gestgjafi var Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar og fyrrverandi varaformaður flokksins, og gestirnir voru Davíð Oddsson, seðlabankastjóri og fyrrverandi formaður flokksins, Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður og nú ritstjóri og fjórði ferðafélaginn var Styrmir Gunnarrsson ritstjóri.Viðleitni Ómars er eftirtektarverð og það verður eftirtektarvert hverjir þiggja boð hans. Ómar lofar ekki flottheitum á við þau sem Landsvirkjun og aðrir jöfrar bjóða: Ég get ekki boðið ykkur svona þjónustu, heldur aðeins leiðsögn mína, samlokur og gosdrykki og beðið ykkur að hafa meðferðis góða skó og sæmilegan útifatnað. Undanfarin sumur hef ég farið með fólki gangandi, akandi og fljúgandi um svæðið á tveimur litlum flugvélum og gömlum jeppadruslum. Hoppað hefur verið á milli lendingarbrauta á völdum útsýnisstöðum þar sem stuttar gönguferðir hafa verið í boði. Lengd gönguferðanna hefur fólk ráðið sjálft. Á Sauðármelsflugvelli við Brúarjökul er hægt að setjast að snæðingi í gömlum húsbílsgarmi. Margt af þessu fólki hafði áður farið í hefðbundnar ferðir með endastöð á útsýnispalli Landsvirkjunar. Ég hef ráðið af viðbrögðum þess við því sem það upplifði í ferðunum með mér að þær hafi veitt því nýja og dýrmæta sýn, bæði á mannvirkin og áhrifasvæðin. Ég veit að þið eruð önnum kafið fólk og hver dagur dýrmætur. Þið gátuð þó séð af degi eða jafnvel lengri tíma til að kynna ykkur með eigin augum allvel aðra hlið málsins en að litlu leyti hina hliðina.Ekki hafa allir væntanlegir gestir Ómars þegið ferð að Kárahnjúkum til að kynna sér aðra hlið málsins. Það er í valdi Ómars að kynna því fólki það sem því er hollast að vita og þekkja. Honum er betur treystandi til þess en flestum öðrum gestgjöfum.5. ágúst 2006
Um verslunarmannahelgi er mikið álag á allt og alla. Þjóðvegirnir verða fullir af alls kyns ökumönnum og tjaldsvæðin mörg hver verða hlaðin af alls kyns fólki. Fátt segir okkur að harmur fylgi ekki mannsöfnuðum helgarinnar. Því miður gerist það á hverju ári.Mótmælendur virkjana hafa verið í gæslu lögreglunnar og í gæslu víkingasveitarinnar. Ekkert er til sparað til að hefta aðgerðir þess fólks. Það er vonandi að fjárráðum lögreglunnar sé vel skipt og hvergi vanti peninga til að gæta að umferð og öryggi fólks, hvort sem það er á ferðalagi eða á einhverri þeirra samkoma sem kallaðar eru hátíðir. Samt má ætla að engir kosti lögregluna jafnmikið og mótmælendurnir. Sennilega verður meira af lögreglu þar en víðast annars staðar á landinu. Allt til þess að mótmælendum takist ekki að valda hugsanlegu tjóni.Hætta er á að margir komi sárir frá hildarleik helgarinnar. Það er stórhættulegt að keyra um þrönga þjóðvegi og sérstaklega þegar innan um verða stórhættulegir ökumenn, þeir sem keyra alltof hratt og þeir sem keyra alltof hægt. Allir óska þess að komast heilir úr umferðinni, en til að það takist verðum við öll að taka þátt. Ef mið er tekið af þeim anda sem ræður hjá ýmsum er barasta engin von til að það takist. Þeir sem eru eftirlýstir vegna glæpaaksturs og þeir sem neita að benda á fantana eru ekki líklegir til að meta líf okkar hinna í dag, ekkert frekar en í gær. Því miður.Hinir sem mæta á skemmtanir til þess eins að meiða eða særa aðra eru ekki síður hættulegir. Nauðganir og aðrir hrottalegir glæpir hafa verið fylgifiskar villtra mannamóta. Ofurdrukkið fólk er hættulegt og þegar við bætist neysla annarra eiturefna, jafnvel dag eftir dag, er algjörlega óljóst hvert það leiðir. Alltof oft til harmleikja, harms sem seint eða ekki grær. Öllu má nafn gefa, líka samkomum helgarinnar. Sumar þeirra standa ekki undir því að vera kallaðar hátíðir. Reynslan, sem af er þessu sumri, sannar að svona er þetta hjá okkur. Írskir dagar og Færeyskir dagar voru með þeim eindæmum að óvíst er að reynt verði að halda slík mannamót aftur. Dauðadrukkin ungmenni ráfandi um vitandi hvorki í þennan heim né annan eru ekki að skemmta sér, kannski skrattanum. Þetta mun allt endurtaka sig um helgina. Það eina sem við getum vonað er að ekki verði framdir alvarlegir glæpir. Við getum vonað það, en því miður er mikil hætta á að vonir okkar rætist ekki. Áfengið slævir dómgreind og þegar margir eru samankomnir í sama ömurlega ástandinu er veruleg hætta á áföllum Það er vonandi að víkingasveitin og óbreyttir lögreglumenn komi í veg fyrir frjálsa för fólks við Kárahnjúka um þessa helgi einsog síðustu daga, hvað sem það kostar.Förum varlega og góða helgi.4. ágúst 2006
Það er ekki sól og yndi framundan hjá Framsóknarfólki. Aðeins tvær vikur eru til flokksþings þar sem ný forysta verður valin. Enn sem komið er hafa þrír gefið kost á sér til formanns og þar af er aðeins eitt framboðið alvöruframboð, hin eru vitavonlaus. Innan Framsóknarflokksins eru samt raddir sem gera ekki ráð fyrir að Jón Sigurðsson eigi greiða leið í stól formanns. Siv Friðleifsdóttir hefur ekkert viljað gefa upp hvað hún hyggst fyrir, en kunnugir segja hana ekki skorta metnað og ef hún láti ekki verða að framboði nú, geri hún það ekki síðar. Þetta sé hennar síðasti séns.Kunnugir gera ráð fyrir framboði Sivjar til formanns og gangi það eftir sé fjarri því víst að Jóni Sigurðssyni veitist eins létt að komast til æðstu metorða innan flokksins eins og hingað til hefur verið talið. Þó Siv sæki ekki stuðning í sama bás og Halldór Ásgrímsson hefur gert og Jón Sigurðsson mun gera, er vitað að hún hefur víðtækan stuðning meðal flokksmanna og fáir stjórnmálamenn hafa verið duglegri við að byggja upp sitt bakland og Siv. Hún fer víða, talar við marga og hefur þess vegna náð að treysta sig mikið í sessi. Þetta segja samherjar jafnt sem andstæðingar innan flokksins. Ef Siv býður sig fram til formanns verða spennandi formannskosningar.Barátta Jónínu Bjartmarz og Guðna Ágústssonar um varaformanninn kann að verða hörð. Fleiri gera ráð fyrir sigri Guðna. Hann hefur fylgi víða í flokknum en kunnugir segja Jónínu helst vera sterkari innan þingflokksins og þess fólks sem næst þeim hópi starfar. Meðal almennra flokksmanna er staða Guðna talin mun sterkari. Það vinnur á móti Guðna að hafa ekki þorað að fara í formannsslag. Þar sýndi hann á sér veika hlið sem getur skemmt fyrir honum í varaformannskjörinu. Sjálfur hótar Guðni og segir að ósigur muni kalla á sundrung í flokknum.Önnur embætti eru ekki mikilsvirði. Framsóknarmenn hafa lengið tjaldað embætti ritara sem það skipti einhverju máli, en auðvitað gerir það það ekki. Þess vegna verða átökin í mesta lagi um tvö veigamikil embætti, embætti formanns og varaformanns.Félagar í Framsóknarflokknum skilja að það er mikilsvert fyrir stöðu flokksins í komandi framtíð að þeim takist að velja sér forsytu með sóma, bæði að barist verði af sóma og að sómi verði af nýju forystunni. Halldór Ásgrímsson hefur hrökklast frá landsstjórninni og nú flokksstjtjórninni. Það eru ekki glæsileg lok á löngum ferli. Fráfarandi formaður verður að þola gagnrýna umræðu um stöðu flokksins, ákvarðanir og gjörðir síðustu ára. Ef flokksþingið gerir það ekki er sú hætta framundan að flokkurinn hjakki í sama djúpa farinu. Það er ekki glæst framtíð.2. ágúst 2006
Vissulega er er vont þegar menn berja hver annan og vissulega er það vont þegar rúður eru brotnar og aðrar eigur okkar eru skemmdar af fólki í ölvímu eða vímu annarra fíkniefna. Það er böl hversu illa við látum þegar við höldum okkur vera að skemmta okkur. Hitt er annað að það er engin ástæða til að gera meira úr vandanum en efni standa til. Engin ástæða.Þeir sem hafa ráðið sig, eða hafa verið kjörnir, til að gæta að velferð okkar hinna verða að gæta hófs í því sem þeir segja og því sem þeir gera. Ástæðulaust er að tala sem vandinn sé meiri en hann er, og ástæðulaust er að halda því fram að breytingar hafi orðið til hins verra. Um það er deilt og um það sýnist sitt hverjum. Þess vegna er krafa okkar að þeir sem ábyrgðina bera geri það með reisn, yfirvegun og hófsemi.Alla tíð hefur það verið svo þegar drukkið fólk kemur saman í stórum hópum þá er hætta á að illa fari. Þá skiptir minnstu hvort það er á mannamótum í nafni hátíða eða hvort það er skipulagslaust í miðborg Reykjavíkur. Þannig hefur þetta verið og þannig verður það. Eina sem unnt er að gera, er að reyna að lágmarka skaðann, ofbeldið og hrottann.Þrátt fyrir að borið hafi á ýkjum í umræðunni virðist sem ákveðin firring sé meðal fólks. Bílum og hjólum er ekið á áður óþekktum hraða, máttlitlir smáglæpamenn ógna fólki með bareflum eða öðrum vopnum og láta sem ekkert sé sjálfsagðra en að ryðjast inn á fólk og krefjast peninga, ofbeldisfullir menn leggja leið sína þar sem fólk er samankomið og berja mann og annan. Fæst af þesu er nýtt, því miður. Þetta er þekkt, helst að nú hafi bæst við glæpaakstur vélhjólafólks. Annað hefur fylgt okkur.Krafan sem er hægt að gera til þeirra sem bera ábyrgðina er að almenningur geti farið um í sæmilegri vissu um að verða ekki ógnað af samborgurunum, hvort sem fantar bera hnúajárn eða kraftmikil ökutæki. Það er hlutverk hins opinbera að tryggja frið borgaranna. Þrátt fyrir að margt sé að bætir það ekki stöðuna ef lögregla eða ráðamenn tala um að verr sé fyrir okkur komið en það er í raun. Ýkjurnar skemma.Í langan tíma hefur miðborg Reykjavíkur verið sem yfirgefinn vígvöllur að morgni laugardaga og sunnudaga. Það er ekkert nýtt að yfir götum og gangstéttum sé glersalli, rænulítið eða jafnvel rænulaust fólk á bekkjum eða götum, hópur fólks á stórtækum vinnuvélum að keppast við að koma öllu í betra horf áður en íbúarnir vakna og sorgin og eymdin blasir við öllum sem sjá vilja. Þannig hefur þetta verið og þannig er þetta. Kannski er mesta furða hversu margir komast heilir heim eftir slíka óvissuferð sem það er að fara í mannsöfnuðinn. Þrátt fyrir hversu bagalega er fyrir okkur komið verðum við að forðast að ýkja frásagnir af ólifnaðnum og finna leiðir til að bæta lífið. Staðreyndirnar eru nægar og ýkjur eru þarflausar.31. júlí 2006
Oft geta fáir komið óorði á marga. Á þá leið eru viðbrögð vélhjólaökumanna vegna glæpaaksturs í þeirra hópi. Við sem bæði sjáum og er ógnað af þessum sama glæpaakstri getum ekki samþykkt að aðeins fáir vélhjólaökumenn stundi glæpaakstur. Við sjáum til svo margra, bæði í Reykjavík og eins á þjóðvegunum. Það eru ekki bara fáir ökumenn sem ógna okkur hinum, þeir eru margir. Ómögulegt er að vita hversu fjölmennur hópur glæpaökumanna þetta er eða hversu hátt hlutfall vélhjólaökumanna haga sér með þessum hætti, en þeir eru margir, alltof margir.Ekki dugar lengur að tala sem örfáir fremji glæpi með glæfraakstri, aki á hundrað og fimmtíu til tvö hundruð kílómetra hraða, og jafnvel enn hraðar. Lögregla leitar nú einhverra fanta og þar fyrir utan þekkjum við þetta öll. Hver kannast ekki við að vélhjólum sé ekið á milli bíla á tveggja akreina vegum, hver kannat ekki við að þegar beðið er á rauðu ljósi komi vélhjól á milli bíla og það stöðvað framan við stöðvunarlínuna og þegar græna ljósið gefi ökumaðurinn allt í botn, rétt einsog hann sé á ráspól í kappakstri og hverfi öðrum nánast sjónum á örfáum sekúndum? Hver kannast ekki við að hafa séð vélhjóli ekið framúr á þjóðvegunum á svo miklum hraða að lyginni er líkast?Hörmuleg slys vélhjólamanna virðast virka þveröfugt, meðan sorgin er sem mest virðast einhverjir hafa það að markmiði að brjóta lögin eins mikið og framast er kostur, sjálfum sér, og það sem meiru skiptir, öllum öðrum til stórkostlegrar hættu. Þetta einfaldlega gengur ekki.Til eru menn sem eiga auðvelt með að selja sjálfum sér óhæfuna: Það er vissulega leiðinlegt að lesa um þessa vitleysinga sem eru að stinga lögguna af og keyra eins og brjálæðingar, segir viðmælandi Blaðsins í blaðinu í dag. Sá vill ekki koma fram undir nafni, engum er alsvarnað. Þessi maður hreykir sér af því að hafa ekið á þrjú hundruð kílónmetra hraða og á 240 með farþega. Það var hún sem vildi keyra svona hratt, segir hann um kærustuna sem var með honum á hjólinu í glæpaakstrinum. En fyrir okkur sem ekki skiljum, hvers vegna menn láta svona: Hjólin eru gerð fyrir þennan hraða. Það var og.Þessi viðhorf eru stórkostleg og lögreglu verður að takast að koma föntunum af hjólunum. Okkar hinna vegna.Ungir ökumenn hafa lengi verið þeir sem mestu tjóni hafa valdið. Nú bætast vélhjólamenn í þennan varasama hóp. Það er mikilsvert að breyting verði á, ekki er treystandi á að hún komi frá glæpamönnunum sjálfum, upphaf hennar verður að koma frá okkur sem viljum fara um með friði og virðingu fyrir öðru fólki. Takmarkið verður að vera að ná glæpamönnunum af hjólunum áður en skaðinn verður meiri.29. júlí 2006
Hversu oft koma fram fréttir um að opinberir sjóðir hafi verið notaðir til að draga úr eða koma í veg fyrir áfall einhverra fárra, oftast vina þeirra sem ráða? Í Blaðinu var frétt þar sem Nýsköpunarsjóður atvinnulífins lét 35 milljónir í fyrirtæki sem stefndi ákveðið í þrot, samt var ákveðið að fórna miklum peningum frá sjóðnum í fyrirfram dauðadæmt fyrirbæri.Það fór sem flesta grunaði, reksturinn stöðvaðist, eignir og peningar urðu að engu. Nýsköpunarsjóður sat eftir með iðnaðarhús, sem af góðum mönnum var metið á sextíu milljónir króna í opinberum bókum en eftir margar tilraunir og mikla þrautargöngu fannst kaupandi. Hann var tilbúinn að borga 100 þúsund krónur fyrir bygginguna, byggingu sem metin var á sextíu milljónir. 100 þúsund krónurnar runnu til Nýsköpunasjóðs, nánast sem háð. Tapið minnkaði um þessar 100 þúsund krónur. Nýsköpun er þeim ósköpum gædd að stundum tapar maður og græðir stundum, sagði fjármálastjóri Nýsköpunarsjóðs um fjárfestinguna í dauðadæmda fiskeldinu í Skagafirði. Hann sá ljósið. Hann sagðist dauðfeginn að losnað við húsið, þó ekki hafi fengist nema 100 þúsund krónur fyrir það, enda hafi löng þrautarganga verið að baki þar sem kaupendur fundust ekki lengi vel og auk þess hafi byggingin kallað á viðhald.Þetta er ekki versta tilfellið og fjarri því það dýrasta. Það sem er merkilegt við þetta allt er að það er öll virðist standa á sama, forsvarmönnum Nýsköpunarsjóðs er bara létt og engin viðbrögð hafa komið annars staðar frá. Reyndar hefur þingmaðurinn Magnús Þór Hafsteinsson látið málið til sín taka og sagði í Blaðinu að ódýrara hefði verið að slátra seiðunum strax en ala þau í sláturstærð. En sá var yfirlýstur tilgangur aðkomu Nýsköpunarsjóðs, að ala barraseiði í sláturstærð. Peningana, sem notaðir voru, fékk Nýsköpunarsjóður við sölu á Steinullarverksmiðjunni á Sauðárkróki og þeir áttu eflaust að fara til að efla atvinnulífið eftir að verskmiðjan lokaði. Svo fór ekki.Ekkert benti til annars en að um glórulausa fjárfestingu með opinbert fé hafi verið að ræða. Sagan endurtekur í sífellu og aftur og aftur er opinbert fé notað með þessum hætti. Fyrir ekkert svo mörgum árum voru til svokallaðir skussasjóðir. Þeir voru aflagðir og lofað var að sértækar aðgerðir heyrðu sögunni til. Þrátt fyrir fyrirheit og fagurgala endurtekur sagan sig. Grunur er um að ástæðulaust með öllu hafi verið að freista þess að rétta fiskeldisfyrirtækið í Skagafirði við, það hafi bara verið gert til að lina þjáningar í skamman tíma og án þess að ætlast til að þess að Nýsköpunarsjóður fengi nokkru sinni til baka það sem lagt var til. Þessi sami sjóður hafði ekki í langan tíma getað lagt nýsköpun lið þar sem peningarnir voru búnir, höfðu verið notaðir í ýmis verkefni, vonandi happadrýgri en barrabjörgunin í Skagafirði. Að lokum snýst samfélagið okkar svo oft um það sama, að standa saman, einkum á kostnað annarra.19. júlí 2006
Það er undarlegt þegar litið er til nágrannalandanna þá eru að meðaltali fimm prósent þeirra sem eru 65 ára og eldri á stofnunum, en hér á landi er þetta hlutfall níu prósent.Þetta sagði Ólafur Ólafsson, talsmaður eldri borgara, í Blaðinu í gær. Það er rétt hjá Ólafi, það hlýtur að vera undarlegt ef íslenskir eldri borgara fara á stofnanir frekar en jafnaldrar þeirra í nágrannalöndunum. Þess vegna ber að fagna ef vinna á gegn því með þeim aðgerðum sem eldri borgarar og ríkisvaldið hafa sammælst um.Ólafur sagði fagnar að hverfa eigi frá svo mikilli stofnanaþjónustu sem verið hefur og stórefla eigi heimaþjónustu.Ólafur sagði fleira sem gott, sem rétt er að staldra við. Hann sagði merkilegt hvað við Íslendingar látum gamalt fólk afskiptalaust, samanborið við nágrannaþjóðir okkar. Eldri borgarar hafa ekki sömu samningsaðstöðu og til dæmis ASÍ. Við höfum engan verkfallsrétt og getum í raun ekki ógnað með neinu, sagði Ólafur.Vissulega vilja allir verða gamlir, allir vilja lifa lengi og sem best. Þess vegna snertir afskiptaleysi þeirra sem ráða og okkar hinna, í málum eldri borgara, okkur sjálf. Þetta er spurning um líf og lífsgæði allra, ekki fárra og ekki bara þeirra sem eldri eru. Samkomulagið sem nú hefur verið gert er ekki lokamark, alls ekki og það eru allir vissir um.Við höfum náð að opna nýjar dyr, en svo fer það eftir þróun verðbólgunnar hver árangurinn verður. Ég lít hins vegar á þetta samkomulag sem skref í rétta átt, sagði Ólafur Ólafsson, um samkomulag ríkisins til að bæta kjör eldri borgara á næstu fjórum árum.Með samkomulaginu er meðal annars stefnt að því að hækka lífeyrisgreiðslur, minnka skerðingar og gera starfslok sveigjanlegri þannig að lífeyrisgreiðslur hækki við frestun á töku lífeyris. Ólafur sagði um þetta: Aðaláhersla okkar snerist um að hækka skattleysismörk og ná lægra skattþrepi en það tókst hins vegar ekki. Samkomulagið er spor í rétta átt, en það fer hins vegar alveg eftir þróun verðbólgunnar hvernig spilast úr þessum bótum.Nú er það stjórnmálamanna að fylgja þessu eftir, ekki dugar að hverfa af leið einsog svo oft áður. Nærtækt er að nefna vegaáætlun sem hefur meira að segja verið samþykkt af Alþingi, en er skömmu síðar gjörbreytt. Stjórnmálamenn verða að vinna með þeim hætti að við getum treyst orðum þeirra. Það skal gera núna, verum viss um að hugur fylgi máli og aldraðir hafi náð að opna nýjar dyr og tekið skref að bættum kjörum.18. júlí 2006
Þau sem nú sitja í meirihluta í borgarstjórn virðast nota flest tækifæri sem þeim gefst til að finna að öllu sem forverar þeirra gerðu, benda á þetta og benda á hitt, allt til að gera hlut sinn meiri og hinna minni. Þetta eilífa tuð um þau sem voru á undan er þreytandi og reyndar ekki bjóðandi. Stjórnmálamenn verða að nota lokaða sali til að rífast um það sem ekkert er og hlífa okkur hinum við karpinu.Gísli Marteinn Baldursson hefur hugsanlega verið manna duglegastur við þessa iðju. Hann virðist ekki komast úr kosningahamnum. Í Blaðinu í gær er hann spurður, í annars merkilegri frétt, um bensínstöðvarklúðrið mikla. Öllum er ljóst að fulltrúar R-listans bera ábyrgðina á vandanum, það hefur margsinnis komið fram. Gísli Marteinn er fastur í kosningafarinu, hann segir ekki hægt að hætta við framkvæmdina og orðrétt segir hann: Ég hef verið á móti þessu máli frá upphafi. Mér finnst þetta ákaflega vond staðsetning og að mínu mati er það algjörlega óskiljanlegt hvað gamla meirihlutanum gekk til þegar þetta var ákveðið. Vegir R-lsitans virðast órannsakanlegir en við sitjum uppi með þetta og ef við ætluðum okkur að breyta þessu gætum við átt yfir höfði okkar stórt skaðanbótamál.Vissulega ber að benda á alla þá óhæfu sem gerð hefur verið. En samt sem áður þurfa þeir, sem hafa verið kjörnir til að stjórna og hafa gengist við hlutverkinu, að horfa fram á við án þess að vera sífellt að tuða um það sem liðið er. Reykjavíkur bíður margt. Ekki síst að sem flestir finni til þess að borgin er eign allra borgarbúa og um leið allra landsmanna. Margt er ógert og þaðer full ástæða til að þeir sem stjórna borginni hafi glögga framtíðarsýn og láti til sín taka í þeim verkum sem þarf að vinna, og hætti að líta eilíft um öxl.Kosningaloforðin voru mörg og mikil og reyndar er það svo að borgarbúar almennt ætlast ekkert til að við þau verði staðið, það er ekki vaninn, enda flest gleymd. Gagnslaust er að rifja upp flugvöll á Lönguskerjum, hraðbraut undir Sundin og fleira tröllslegt. Þeir sem lofuðu vissu að kjósendur trúðu fáu, þannig hefur það verið og þannig er það og þannig verður það.Kjósendur láta eitthvað óþekkt ráða afstöðu sinni. Ekki trúverðugleika og oðrheldni. Þess vegna geta frambjóðendur lofað og lofað, enginn ætlast til þess að við orðin verði staðið, hvorki þeir sem lofa né þeir sem lofað er.Meirihlutafólkið í Reykjavík verður að hætta líta að til baka, bæði til þess sem þreyttur R-listi gerði og gerði ekki. Verkefnin eru næg og þau sem voru kosin voru kosin til að vinna að því sem þarf að leysa, ekki til að vera upptekin af því sem klaga má upp á þá sem fengu langþráða hvíld.
Mikil ósköp er að frétta af fantaskap nokkurra meiraprófsbílstjóa. Sumir þeirra hirða ekkert um lög í landinu og keyra með óvarin malarhlöss með þeim afleiðingum að grjót og möl hrynja af pöllunum með stundum alvarlegum afleiðingum og aðrir reyna að troðast á alltof stórum bílum í gegnum jarðgöng sem eru langtum þrengri en bílarnir. Samt er reynt að brjótast í gegn.Eflaust er það þannig að flestir meiraprófsbílstjórar eru með miklum ágætum og reyna ekki að troðast í þröng jarðgöng og flestir láta sér ekki koma til hugar að aka um með óbeislaðan farm, farm sem getur bæði skaða fjölda fólks og valdið miklu tjóni. Þeir sem hagar sér á hinn veginn er stórhættulegir.Auðvitað er það merkilegt að ítrekað reyni ökumenn að koma alltof stórum bílum inn í jarðgöng, jarðgöng sem þeir vita að eru of lítil, en þeir reyna samt og skapa með því stórkostlega hættu fyrir annað fólk og valda miklum skemmdum. Þrátt fyrir að vita betur, reyna þeir og það á fleygiferð. Myndbönd hafa sýnt og sannað þetta ósvífna háttarlag.Blaðið hefur flutt fréttir af því að nokkuð er um að bílstjórar noti ekki net eða annan búnað til að tryggja að farmur hrynji ekki af pöllunum, sérstaklega á þetta við grjót- og malarflutninga. Svo langt ganga bílstjórarnir að dæmi eru þess að lögregla leiti fantanna. Í Blaðinu í gær var frétt af vélhjólamanni sem varð fyrir ökufanti sem hafði dreift jarðvegi á hringtorg með þeim afleiðingum að vélhjólamaðurinn datt, slasaðist nokkuð og stórskemmdi hjólið. Þar sem bílstjóri malarbílsins hélt ferðinni áfram einsog ekkert hefði í skorist og ekki hefur tekist að finna hann situr vélhjólamaðurinn uppi með skaðann og meiðslin. Og þarf aukin heldur að reiða fram stórfé í sjálfsábyrgð til tryggingarfélagsins. Lögreglan leitar hins vegar fantsins.Svo berast fréttir um að ökumaður olíubílsins sem valt í Ljósavatnsskarði hafi ekkert hirt um hraðatakmarkanir og ekki getað mætt öðrum trukki nema með þeim afleiðingum sem eru þekktar. Þetta er ekki einleikið og ekki ásættanlegt. Það er ástæða fyrir að venjulegt fólk þorir varla að keyra um landið af ótta við trukkana, vitandi að undir stýri á sumum þeirra eru menn sem ekkert virða, hvorki lög, líf og heislu annarra eða eignir.Það þarf móralska breitingu. Bílstjórar verða að eiga frumkvæðið og sjá til þess að innan stéttarinnar verði vakning og að okkur hinum standi ekki stanslaus ógn af háttarlagi fárra fanta.
Mikil ósköp er að lesa innlegg alþingismannsins og skólameistarans fyrrverandi, Jóns Bjarnasonar, til hugsanlegra breytinga á matarverði. Hann undrast að Alþýðusamband Íslands skuli styðja lækkun matarverðs með lækkun verndartolla og afnámi hafta. Jón skilur ekki um hvað er tekist og um hvað er fjallað. Hann hefur áhyggjur af þeim sem starfa við matvælaframleiðslu og að lífskjör þeirra hrynji og að það sé hlutverk allra að halda starfsemi gangandi, hvað sem hún kostar, til þess eins að þeir sem starfa við matvælaframleiðslu missi ekki atvinnu sína og öryggi.Málið snýst barasta ekkert um það. Það er merkilegt að alþingismaðurinn skuli ekki vera víðsýnni. Það er aldeilis undarlegt að heyra fólk tala með þessum hætti. Fyrir Jón Bjarnason og þá sem eru sama sinnis er þarft að hlusta eftir því sem mestu skiptir. Matvælaverð á Íslandi er með því hæsta sem gerist, vextir eru hærri hér en víðast annarsstaðar og svona er hægt að telja áfram. Aðgerðir og aðgerðarleysi stjórnmálamanna eru helstu orsök þessa alls. Almenningur veit það og mönnum einsog Jóni Bjarnasyni er best að finna leiðir til að bæta lífskjörin en ekki vera uppteknir af því einu að viðhalda því sem stenst ekki kröfur samfélagsins.Svo er alls ekki að nokkur einasti maður vilji leggja niður landbúnað á Íslandi og svo er alls ekki að nokkur maður vilji leggja niður matvælaframleiðslu. Hitt er annað að það er til fólk sem óttast ekki breytingar og það er til fólk sem hefur fulla trú, að þó járntjöld verði felld, og okkur verði gert mögulegt að borga minna fyrir matinn verði áfram landbúnaður á Íslandi og áfram verði unnin matvara. Það er hreint út sagt galið að tala einsog þingmaðurinn og fleiri sem hafa látið til sín taka í þessari umræðu. Það er bara komið nóg.Segja má að við höfum lagt af stað til lækkunar matarverðs og þingmenn stoppa ekkert þá ferð. Skriðþungi þjóðarinnar er meiri en svo að þröngsýni fárra dugi til að stoppa skriðuna. Þegar fólkið hefur sigur í matarverðinu verður lagt af stað í næstu árás gegn þröngsýni og afturhaldi og svo koll af kolli. Það er komið nóg.Þeir sem verjast því að við fáum að kaupa matinn, á ámóta verði og fólk í næstu löndum, hafa gripið til raka sem ekki halda, strá jafnvel efasemdum hingað og þangað. Til dæmis að kaupmönnum sé ekki treystandi og að þeir muni hirða allan ávinninginn. Þeir mótmæla eðlilega og þykir að heiðri sínu vegið. Svo koma einstaka menn og segja að verja beri landbúnaðinn og jafnvel hvað sem það kostar. Það gerir landbúnaðinum ekki gott, það gerir neytendum ekki gott og það gerir þeim sem þannig tala heldur ekki gott.Það er meira en skiljanlegt að Alþýðusamband Íslands vilji breytingar á matarverði. Það er skylda sambandsins að vilja bæta kjör fólks. Mikill ávinningur verður fyrir marga þegar þröngsýnin verður hrakin úr vörninni. Það væri áfellisdómur yfir forystu launafólks óskaði hún ekki eftir að verð á helstu nauðsynjum verði lækkað. Þeir sem ekki skilja, eru úti móa.