Einkamál

Á sama tíma og stjórnarandstaðan talar frá sér vit og rænu og enginn hlustar, varla ræðumenn sjálfir, er annað og enn verra að gerast á Alþingi Íslendinga. Alþingi er í herkví eins ráðherra. Menntamálaráðherra á mikið undir að breytingar á rekstrarformi Ríkisútvarpsins verði að lögum. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefur svo oft orðið brottrek með þetta sama mál að það er óviðunandi fyrir hana að gefast enn og aftur upp. Staða hennar og sjálfsvirðing í stjórnmálum hangir á þessu máli. Það veit stjórnarandstaðan og þess vegna er verr látið en ella.
En hvað sem segja má um menntamálaráðherra er það hjóm eitt miðað við það sem segja má um Alþingi. Ráðherrann leggur ofurkapp á þetta eina mál og þar með meirihluti þingsins. En mörg tákn eru á lofti um að því fari fjarri að meirihluti þingmanna sé sammála ráðherranum um að gera breytingar á Ríkisútvarpinu. Miklu frekar er þjóðin að verða vitni að því þegar ráðherraræðið tekur yfir þingræðið. Það hefur gerst ítrekað að þingið verður afgreiðsludeild fyrir ráðherrana og það er að gerast núna. Þegar rætt er við einstaka þingmenn í stjórnarflokkunum er ljóst að þeir hafa ekki sannfæringu fyrir mikilvægi breytinganna á Ríkisútvarpinu. Formaður menntamálanefndar, sem hefur það hlutverk að bera hið umdeilda mál á borð þingsins, er til að mynda yfirlýstur stuðningsmaður þess að selja Ríkisútvarpið, að ríkið eigi ekkert með að vera í rekstri sem þessum. En þingmaðurinn gerir sér grein fyrir að hann hefur ekkert að segja, honum er skipað að haga sér í samræmi við það sem ráðherra vill hverju sinni. Sennilega er það ástæða þess að sæti þingmannsins er í mikilli hættu. Kannski eru kjósendur og þá sérstaklega stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins ekki eins hrifnir af þjónkuninni og ráðherrann.
Þingmenn hafa stundum þurft að leggjast lágt. Það getur ekki alltaf verið gott að vera í liði og mega engu breyta, ekkert segja og ekkert gera sem breytir gegn vilja ráðherranna. Síðustu ár hefur verið verulega vegið að þingræðinu og ógnarstjórn Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar á sínu liði var mikil. Enn eimir eftir af harðræðinu eins og glögglega má sjá á þjónkun stjórnarsinna við menntamálaráðherrann.
Alþingi Íslendinga hefur verið upptekið vegna einkamáls Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra. Þess vegna hefur ekki verið unnt að sinna öðrum málum. Stjórnarandstaðan talar frá sér vit og rænu og enginn hlustar og enginn gerir neitt með það sem sagt er. Enda er ekki ætlast til þess. Þegar búið er að ræða eitt og sama málið í hundrað klukkustundir er komið nóg. Reyndar verður að telja stjórnarandstöðunni það til tekna að hún er kannski að berjast við að halda uppi sóma Alþingis, nokkuð sem fótgönguliðar stjórnarflokkanna á Alþingi gera ekki.
Það eru áhöld um hvort hlutverkið er betra; að tala og tala í tómið eða sýna algjört tómlæti og láta niðurlægja sig, að henda frá sér öllum meiningum og skoðunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

mjög góður punktur hjá þér en því miður harla fáir sem virðast sjá þetta í þessu samhengi.

Birgitta Jónsdóttir, 22.1.2007 kl. 11:27

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband