Valdsins menn

Lögreglan hóf mál á hendur Gunnar Erni Kristjánssyni, þáverandi forstjóra SÍF og löggiltum endurskoðanda, eftir að Lárus Halldórsson, framkvæmdastjóri Tryggingasjóðs lækna, kom á fund lögreglu og játaði á sig stórfelldan fjárdrátt og að hafa blekkt stjórn sjóðsins og endurskoðanda, fyrrnefndan Gunnar Örn. Lárus var að vonum ákærður og sakfelldur, hann tók út sína refsingu og að henni lokinni var hann eðlilega frjáls maður. Hann greiddi nokkurn hluta þess sem hann hafði stolið og stóð eftir eignalaus.
Lögreglan gerði ekkert með þá fullyrðingu Lárusar að hann hefði blekkt Gunnar Örn endurskoðanda, en sjálfur er Lárus menntaður endurskoðandi.
Lögreglan hóf mál á hendur Gunnar Erni sem stóð í nærri þrjú ár. Árni Tómasson, löggiltur endurskoðandi, var lögreglunni til ráða í upphafi málsins, en skemmst er frá því að segja að Hæstiréttur vísaði málinu frá dómi og fann alvarlega að öllum málatilbúnaði lögreglunnar.
"Örugglega hefði mátt vinna málið betur og skýrar af hálfu ákæruvaldsins," segir Árni Tómasson í viðtali við DV. "Með fullri virðingu fyrir dómurunum, þá held ég að þegar 120 til 140 milljónir eiga að vera í sjóði og þar reynast ekki vera til nema 40 milljónir sé eitthvað athugavert á ferðinni. Framkvæmdastjórinn hefur viðurkennt að hann stal þessum peningum og villti um fyrir mönnum. Eftir situr fólk sem fær ekki lífeyrinn. Er það þá ekki nógu skýrt?" segir Árni. Hæstiréttur sagði sína skoðun á yfirlýsingu Árna og starfsaðferðum lögreglunnar.
Í dómi Hæstaréttar frá 12. maí 2005 segir að mjög hafi skort á að lögreglan hafi aflað þeirra gagna sem þarf til að hægt sé að ákveða hvort sækja eigi mann til saka. Þá gerði Hæstiréttur athugasemd við að verknaðarlýsing í ákæru væri ófullkomin. Gunnari væri gefið að sök að hafa ekki gætt góðra endurskoðunarvenja með því að kanna ekki ákveðin gögn. Ekkert væri þó að finna um hvaða gögn væri að ræða, hvað þau innihéldu eða hvað skorti upp á störf Gunnars til þess að þau mættu vera fullnægjandi.
Þegar þessi niðurstaða lá fyrir, Hæstiréttur hafði vísað málinu frá og áhöld voru uppi um að brotið hefði verið á Gunnari Erni með þeim hætti að málatilbúnaðurinn hefði farið gegn mannréttindasáttmála Evrópu og gegn stjórnarskránni íslensku lét lögreglan sér ekki segjast. Gunnari Erni var hótað að ákært yrði á ný í málinu. Gunnar Örn og fjölskylda hans lifðu við það í langan tíma að yfir honum vofðu hótanir valdsins manna, að þeir kæmu aftur þrátt fyrir smánarlegar skammir Hæstaréttar. Þeir létu sér ekki segjast og löngu eftir að Lárus Halldórsson, sem stal peningunum, var frjáls maður mátti Gunnar Örn búa við að óttast nýja saksókn hvenær sem var. Árni Tómasson, sem var ráðgjafi lögreglunnar, segir nefnilega nokkuð mikið þegar hann segir: "Með fullri virðingu fyrir dómurunum, þá held ég að þegar 120 til 140 milljónir eiga að vera í sjóði og þar reynast ekki vera til nema 40 milljónir sé eitthvað athugavert á ferðinni." Þetta er hárrétt hjá Árna, en honum og lögreglunni tókst aldrei að sýna að Gunnar Örn, sá sem var ákærður, hefði brotið refsilög. Það er alvarlegt að lögreglan höfði tilefnislaust mál á hendur einstaklingi. Kannski ekki síður alvarlegt en sá glæpur sem Lárus framdi og var upphaf alls málsins.
Eftir niðurstöðu Hæstaréttar hagaði lögreglan sér einsog verstu handrukkarar, hótaði að koma aftur. Það var síðan Bogi Nilsson ríkissaksóknari sem gekk fram fyrir skjöldu og drap málið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: TómasHa

Er þetta gamalt viðtal í DV eða eitthvað sem birtist núna um helgina?

TómasHa, 12.1.2007 kl. 16:05

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband