Hvers vegna nýtti Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra ekki tækifærið og bað þolendur viðbjóðsins í Breiðuvík afsökunar fyrir hönd embættisins sem hann gegnir? Var það vegna þess að stjórnmálamenn samtímans eru svo geldir, svo kjarklausir að þeir þora ekki að standa upp og segja það sem þeim býr í brjósti?
Þolendur viðbjóðsins í Breiðuvík vilja að þeir verði beðnir afsökunar af yfirvöldum. Ekki vegna þess að þeir sem nú stjórni hafi tekið ákvarðanir um hryllinginn, ekki vegna þess að embættismennirnir beri persónulega ábyrgð á þeim glæpum sem framdir voru í Breiðuvík. Alls ekki. Heldur vegna þeirra embætta sem þeir gegna núna, viljinn er til að ráðherrar og forseti biðji þolendurna afsökunar fyrir hönd þjóðarinnar, og ekki síst fyrir hönd þeirra sem áður gegndu embættunum. Það er málið.
Þolendur ofbeldisins í Breiðuvík voru sviptir æskunni, sennilegast skemmdir fyrir lífstíð og nú eru einhverjir möguleikar á að bjarga megi seinni hluta ævi þeirra sem enn lifa, þeirra sem hafa ekki tekið eigið líf eftir hörmungar eða látist af öðrum orsökum.
Hver er tregða ráðamanna, þarf að bíða eftir nefndarvinnu til að taka á málinu? Eru afleiðingarnar ekki augljósar? Kannski skynja ráðamenn ekki málið, þeir sem mestu ráða þekkja líklega ekki óvissuna og angistina, hafa ekki verið andvaka af ótta og vita ekki hvað er að vera án kvíða, þekkja ekki óvissu um hvort matur verði til næsta dag, hafa ekki óttast ofbeldi og fátækt, þekkja ekki erindisleysi bæna og óska um miskunn. Má vera að þeir sem hafa óskað eftir að ganga fremst meðal okkar eigi erfitt með að taka á Breiðuvíkurmálinu vegna reynsluleysis af dökku hliðum mannlífsins. Má vera að þeir sem hafa ekki þurft að örvænta, ekki kviðið að vakna að morgni geti ekki höndlað mál sem þetta? Mögulega.
Auðvitað geta stjórnmálamenn samtímans ekki breytt því sem gerðist. Samt skortir á að þeir sýni þolendum hryllingsins samúð og hluttekningu. Ekki bara af því að hafa séð hörðustu menn bresta í grát. Það er bara ein birtingarmynd þess sem á undan er gengið.
Það er vegna DV og það er vegna vinnu ritstjórnar þess blaðs að Breiðuvíkurhryllingurinn var upplýstur. Með því hefur DV bent stjórnmálamönnum á verðug verkefni. Þeir verða að taka við keflinu og í krafti embætta sinna verða þeir að stíga fram, opna faðm embættanna og bæta það sem bætt verður, bæði með andlegri hjálp og peningum.
Angist og sársauki þolendanna verða aldrei skilin af þeim sem ekki reyndu. Til þess er lífsreynsla þeirra of mikil, of hörð og of mótandi. Ungir drengir voru fylltir hatri og það er okkar hinna að aðstoða þá til að losa um sársaukann. Máttur fjölmiðla getur verið mikill. Allir starfsmenn DV hafa tekið þátt í mikilli vinnu við að opna Breiðuvíkurmálið. Þakkir þolenda eru bestu meðmæli sem starfsfólkið getur fengið. Og þær skortir ekki.
Athugasemdir
Sammála þessu en það var ömurlegt að heyra hvernig tónninn, eða blæbrigðin, voru í sjónvarpsauglýsingu DV um þessi mál í kvöld, föstudagskvöld. Það er að sjálfsögðu ekki við hæfi að smjatta á þessum málum.
Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 10.2.2007 kl. 01:34