Hrífast af farþeganum


Eftir að DV opnaði Breiðuvíkurmálið og eftir að DV fann týndu skýrsluna var aðeins einn fjölmiðill sem tók eftir hversu alvarlegt Breiðuvíkurmálið er, það var fréttastofa Ríkissjónvarpsins og fréttakona þaðan fékk inni í Kastljósi sama dag til að halda áfram með málið. Eftir það kviknaði áhugi Kastljóssins, en hingað til hefur það aðeins sinnt einföldustu þáttum málsins, tekið viðtöl og fátt annað. Það er meira en hinir fjölmiðlarnir hafa gert.
Enginn fjölmiðill, annar en DV, hefur sýnt málinu nægan áhuga. Áhugaleysi fjölmiðla er illskiljanlegt og sennilega verður ekki hægt að skilja hvers vegna áhuginn á þessu vonda máli er ekki meiri meðal fjölmiðlafólks en raun er á. Kjarklausustu fjölmiðlarnir hafa látið duga að segja af viðbrögðum, viðbrögðum stjórnmálamanna, helst ekki annarra. Með afskiptaleysinu er engin hætta á að fjölmiðill finni andbyr, þurfi að taka erfiðar ákvarðanir um framsetningu og fréttamat. Sennilega er það þess vegna sem stórir fjölmiðlar kjósa lognið, aðgerðarleysið.
Alþingismenn vöktu athygli þegar nokkrir dagar voru frá því að DV opnaði Breiðuvíkurmálið. Málið var ekki rætt á Alþingi fyrr en þingmennirnir, með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur fremsta í flokki, höfðu séð tárin falla og hrausta menn brotna saman. Þá fyrst áttuðu þingmennirnir sig á málinu. Þeir náðu ekki málinu með að lesa DV þó að þar væri vitnað um hrottaskapinn og birtar staðreyndir úr ritgerð Gísla Guðjónssonar réttarsálfræðings, ritgerð sem DV fann en hún hafði verið falin í þrjátíu ár. Þingmennirnir, að Guðrúnu Ögmundsdóttur undanskilinni, sýndu að þeir áttuðu sig ekki á Breiðuvíkurmálinu fyrr en menn grétu í sjónvarpinu. Það þurfti tár til að opna augu þingmanna. Þeir kappkostuðu að mæra farþegann í Breiðuvíkurmálinu, Kastljósið, en viku ekki orði að þeim fjölmiðli sem af krafti fór í gryfjuna, fann særðu mennina, fann skýrsluna sem stjórnmálamenn þess tíma földu og upplýsti um þetta vonda mál.
Það er ekki traustvekjandi ef stjórnmálamenn samtímans skynja ekki þjóðfélagið nema með mynd og hljóði. Má vera að texti á blaði sé ekki nóg. Má vera að fólkið sem hefur kosið að verða fulltrúar þjóðarinnar sé svo upptekið af smærri málum að það skynji ekki stærstu mál samtímans nema vera matað sem smábörn, að það þurfi að stappa ofan í það matinn - og helst með tárum, annars nærist það bara ekki.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þarft mál þarna sem DV opnaði....en ljótt er ef satt er að Kastljós hafi gert samning við Breiðuvíkurstrákana um að þeir kæmu ekki fram í viðtali á Stöð 2 eða Kompás. finnst að DV mætti kanna það mál því ef satt er þá er komin skítalykt af þessu ef satt er.

Annars bíð ég spenntur eftir að DV fari að koma út daglega.

Sverrir Einarsson (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 07:03

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband