Margir bera ábyrgð á Breiðuvík, Bjargi, Kumbaravogi, Silungapolli og öllum hinum geymslustöðunum fyrir börn þess tíma, börnin sem fullorðna fólkið vildi ekki hafa fyrir augunum, vildi ekkert með hafa? Sú kynslóð sem ber mesta ábyrgðina hefur nú lokið starfsdegi sínum og nýtur þeirra forréttinda sem fylgja því æviskeiði. Þeirra forréttinda að vera ekki ásökuð um kuldalegt uppeldi og afskiptaleysi gagnvart þeim sem verst voru sett og mest máttu þola. Í ljósi uppljóstrana DV og nokkurra annarra fjölmiðla er ekki annað hægt en að sú kynslóð Íslendinga sem bar ábyrgðina spyrji sig hvers vegna þjóðin lét þetta viðgangast.
Uppeldisaðferðir og úrræði voru vissulega önnur þá en nú. En má vera að fjöldi fólks hafi neitað að hugsa um afleiðingar þess að vista börn fjarri mannabyggðum og það í áraraðir? Má vera að ábendingar þolenda um harðræði og misþyrmingar hafi ekki fengið hljómgrunn þar sem ekki var vilji eða geta til að taka á vandanum svo ekki þyrfti að hafa hin óæskilegu börn nærri.
Staðreyndir eru til um hverjar afleiðingarnar urðu af dvöl og kvöl Breiðuvíkur. Nærri níutíu prósent þeirra drengja sem þar voru í geymslu urðu afbrotamenn. Til samanburðar kemur um helmingur þeirra sem settir eru í fangelsi í fyrsta sinn, þangað aftur. Með því er hægt að segja að Litla-Hraun sé ekki eins mannskemmandi og Breiðavík var.
Það er ekki bara hægt að leita ábyrgðar hjá stjórnmálamönnum. Það verður líka að leita skýringa í þeim tíðaranda sem var uppi og hvers vegna afskiptaleysi fólks og harðneskjan var slík. Sú kynslóð sem ákvað að fela vondu börnin og þau óvelkomnu bjó oft við erfiðar aðstæður. Vinnustaðafyllerí voru víða vikulegt fyrirbæri og óregla, sérstaklega karlmanna, var meira áberandi en nú er og sennilega tíðari á heimilum en nú þekkist. Feður voru frekar refsivald en uppalendur.
Þau okkar sem nú er á miðjum aldri, erum börn þessarar kynslóðar. Það er fólk á miðjum aldri sem nú fellur saman af harmi og sársauka vegna myrkurs æsku sinnar. Ekki er nóg að leita ábyrgðar hjá stjórnmálamönnum. Heil kynslóð er ábyrg, ekki allir jafnt en ábyrgðin liggur víða. Aðgerðarleysi er afstaða og getur vissulega leitt til ábyrgðar.
Uppeldisaðferðir nútímans eru aðrar en áður var. Nú tíðkast að þegar börn eru fyrirferðarmikil og láta ekki vel að stjórn í skólum og heima er þeim gefið rítalín. Kannski verður önnur umræða eftir fjörutíu ár, umræða um meðferðina á rítalínkynslóðinni. Um það er erfitt að segja, en ef svo verður verður ekki hægt að benda einungis á ráðamenn. Við verðum hvert og eitt að taka ábyrgð, foreldrar, afar og ömmur, kennarar, læknar, ráðamenn og við öll sem myndum samfélagið. Við megum ekki skemma fólk með svipuðum hætti og sú kynslóð gerði sem nú ber ábyrgð á Breiðuvík, Bjargi, Kumbaravogi og Silungapolli.
Athugasemdir
Kjarni málsins
Pétur Gunnarsson, 16.2.2007 kl. 11:24