Allt í plati

Íslendingar eru varaðir við að trúa samgönguáætluninni sem Sturla Böðvarsson sveiflar nú af krafti. Fátt er eins óábyggilegt og slík plögg og einkum og sér í lagi skömmu fyrir kosningar. Stjórnmálamenn hafa ítrekað gerst sekir um að segja allt annað en þeir meina. Og aldrei þarf að hafa meiri vara á orðum þeirra en einmitt þegar þeir láta einskis ófreistað til að endurnýja starfssamning sinn við þjóðina.
Samgönguáætlunin er með því hættulegra sem boðið er upp á. Auðvitað vilja allir kjósendur sem bestar samgöngur. Þess vegna er þess gætt að hafa mola eða meira handa kjósendum um land allt. Suðurstrandavegur er fínt dæmi um alvöru málsins. Ítrekað hefur verið lofað að svo og svo miklu af peningum verði varið til að gera þennan langþráða veg. Jafnharðan hafa loforð og vilyrði verið svikin. Flest bendir til þess að hann verði Hallgrímskirkja nútímans, að það taki áratugi að leggja veginn. Loforð um annað kunna að verða dregin upp úr ósannindahatti samgönguráðherra, hver sem hann verður á hverjum tíma, um breytta forgangsröð og hraðari framkvæmdir. Hættan er sú, að áfram verði allt í plati.
Frambjóðendurnir munu finna fleira en samgönguáætlun til að skreyta sig með og það er ljóst að hluti kjósenda mun láta gabbast. Enn og aftur munu skyndireddingar stjórnmálamanna gagnast einhverjum og sérstaklega þeim sem fara með völdin, þeim sem hafa aðgang að almannasjóðum.
Mikið er í húfi og mikið er lagt undir. Meðal frambjóðenda er fólk sem veifar röngu sverði frekar en engu. Þótt mesta hættan sé af því fólki sem fer með fjármuni ríkisins og geti þess vegna misnotað almannafé sjálfu sér til framdráttar, þá er það ekki svo að hægt sé að slá slöku við gagnvart þeim sem eru óbreyttir stjórnarþingmenn eða stjórnarandstæðingar. Kjósendur verða að varast fagurgala sem stígur langt yfir öll siðferðismörk. Af honum verður meira en nóg.
Fínasta dæmi um hvernig misfarið er með almannafé er sú ráðagerð Sivjar Friðleifsdóttur ráðherra að láta skrifa, hanna, prenta og dreifa kosningabæklingi um eigin plön um framtíð eldri borgara. Það var ekki eins og ráðherrann hafi tekið peninga úr sjóði sem hún hefur, nei hún hirti peninga úr framkvæmdasjóði aldraðra. Í stað þess að nota þá peninga til þess sem þeir eiga að fara í, kaus ráðherrann að gerast svo ósvífinn að skerða sjóðinn enn og aftur og það til þess eins að boða eigin ráðagerðir. Reynslan af þess konar er svipuð og af samgönguáætlunum. Allt í plati. Ekkert að marka.
Vel má vera að Siv takist að hífa fylgi Framsóknar upp um einhvert smáræði með því að veikja framkvæmdasjóð aldraðra. Allt er þetta fyrirkomulag ekki merkilegra en svo að hún kemst upp með þetta. Sama er að segja um Sturlu Böðvarsson. Hann kemst upp með að veifa samgönguáætlun sem er í besta falli vegvísir, en ekki vegur og alls er óvíst að svo verði nokkru sinni.
Mikilsvert er ef kjósendur skynja að þetta er þeirra tími, ekki stjórnmálamannanna. Það er okkar að taka ákvarðanir, það er okkar að greina hismið frá kjarnanum, það er okkar að láta ekki fagurgalann ná í gegn og það er okkar að refsa þeim sem taka peninga úr sjóðum, sem þeir hafa í raun ekkert með að gera, til að borga undir eigin drauma, drauma sem eru í plati og ekkert er að marka.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður......

klakinn (IP-tala skráð) 25.2.2007 kl. 00:16

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband