Jón Magnússon lögmaður hefur skrifað grein sem birtist í Blaðinu. Netverjar hafa rætt grein Jóns, en hér er hún í heild.
Samkvæmt fréttum er straumur útlendinga til landsins svo mikill að yfirvöld henda engar reiður á því hvað margir útlendingar hafa sest hér að. Við upphaf skólaárs kom í ljós að hópur barna af erlendu bergi brotinn var ekki kominn með kennitölur. Kerfið ræður greinilega ekki við síaukinn aðflutning útlendinga. Þá berast fréttir af því að í sumum yngstu bekkjardeildum í grunnskóla í Reykjavík séu allt að 40% nemenda af erlendum ættum. Ég staldraði við þessar fréttir um fólksfjölgun og aðflutning útlendinga til landsins og reiknaði út að ykist straumur útlendinga til landsins svo sem verið hefur undanfarin ár þá yrðum við orðin 400 þúsund í landinu árið 2015 og útlendingar eða nýbúar um 80 þúsund. Þessi þróun gæti orðið hraðari. Finnst okkur það eftirsóknarvert? Væri ég atvinnulítill Pólverji mundi ég ekki hugsa mig tvisvar um og flytja til Íslands. Enginn má skilja orð mín svo að ég sé á móti Pólverjum eða öðru kristnu fólki úr okkar heimshluta. Sem dæmi þá er mér afar vel við Dani, Svía og Norðmenn en væri það eftirsóknarvert að hingað flyttust 50 þúsund Norðmenn, 100 þúsund Svíar og 60 þúsund Danir? Þó spyrnt sé við fótum gegn auknum straumi innflytjenda til landsins þá hefur það ekkert með virðingarleysi fyrir öðrum þjóðum eða kynþáttafordóma að gera. Það hefur með það að gera hvernig við viljum sjá landið okkar og þjóðfélagið þróast. Svisslendingar hafa grónustu lýðræðishefð í heimi. Krefjist 3% kjósenda í Sviss þjóðaratkvæðagreiðslu þá verður hún að fara fram um öll löggjafarmálefni. Í Sviss hefur fólk búið við þessa lýðræðishefð í rúm 100 ár. Skoðað í baksýnisspeglinum allt að 100 ár aftur í tímann sést að fólkið í Sviss hefur alltaf kosið það sem var landinu hagkvæmast hverju sinni. Nýlega var kosið um innflytjendalöggjöf í Sviss. Í fréttum fréttamiðlanna segir að fólkið í Sviss hafi valið eina hörkulegustu innflytjendalöggjöf sem þekkist. Af hverju? Af því að venjulegum Svisslendingum ofbýður, þó að meirihluti stjórnmálaflokka þar í landi hafi ekki haft afskipti af málinu frekar en hér. Í vor hafnaði Alþingi að nýta sér undanþágu sem tæk var til að koma í veg fyrir aukinn innflutning fólks til landsins. Magnús Þór Hafsteinsson, alþingismaður úr Frjálslynda flokknum og varaformaður þess flokks, flutti þá athyglisverða ræðu og varaði við afleiðingum af þessu ábyrgðarleysi, aðvörunarorð sem sýnir sig nú að áttu fullan rétt á sér. Hvers vegna töldu allir stjórnmálaflokkar nema Frjálslyndi flokkurinn eðlilegt að galopna landið fyrir útlendingum? Var það ábyrg afstaða? Við Íslendingar höfum verið heppnir með að stór hluti fólks sem hingað hefur komið er harðduglegt fólk. Það breytir því ekki að við viljum hafa okkar velferðarsamfélag fyrir Íslendinga. Við viljum ekki missa algjörlega stjórn á þróuninni. Ég vil ekki fá hingað fólk úr bræðralagi Múhameðs sem hefur sín eigin lög og virðir ekki lágmarksmannréttindi og misbýður konum. Ég vil ekki fá til Íslands hópa sem eru til vandræða alls staðar í Evrópu. Ef til vill má ekki segja þetta þar sem pólitískur rétttrúnaður er allsráðandi og hvert frávik frá honum fordæmt. Það er hættulegt ef fólk talar sífellt um hluti sem skipta litlu máli en lætur stóru málin, framtíðarmálin, framhjá sér fara eins og þau væru ekki til. Sættum við okkur við það, er okkur sama um að fimmti hver Íslendingur árið 2020 tali ekki íslensku? Þekki ekki sögu þjóðarinnar? Við erum svo lítið sandkorn í þjóðahafinu að mesta ógn sem sjálfstæð íslensk þjóð og íslensk menning hefur nokkru sinni staðið frammi fyrir er núna. Það er okkar hlutverk að velja leiðina áfram. Fyrir Ísland og Íslendinga.
Athugasemdir
Af hverju eru hér engin komment? Af hverju segir fólk ekki hvað því finnst? Það er af því að við erum svo fá. Við erum alltaf að pæla í hvað þessum eða hinum finnst um okkur. Við þorum ekki að segja að okkur finnist þessi innrás langt frá því að vera í lagi. En samt hvísla það "allir" sín á milli. En vegna þess hvað við erum fá og smá verður með sama áframhaldi ekki langt þangað til búið verður að eyða því sem nú heitir íslensk þjóð. Er það allt í lagi?
Helga R. Einarsdóttir, 2.11.2006 kl. 14:15
Sammála. Innflytjendur eru í góðu lagi meðan þeir drekkja ekki þjóðinni sem fyrir er, virða reglur og hefðir landsins og aðlagast. Það er líka eins gott, því ég er sjálfur útlendingur, búsettur í Hollandi. Það þýðir líka að ég sé hvað stjórnleysi hefur í för með sér. Hér eru heilu hverfin þar sem aðeins tyrkir, marokkóbúar eða súrinamar búa. Þar hafa hollendingar ekkert að sækja og eru jafnvel litnir hornauga. Mörg börn innflytjenda, jafnvel af þriðju og fjórðu kynslóð tala ekki hollensku og þurfa mikla hjálp þegar þau komast á skólaaldur. Þetta kemur niður á hollenskumælandi börnum, þar sem þau eru endalaust að bíða eftir að hin nái þeim.
Það væru mistök að loka landamærum, en að gera ekkert geta verið stærri mistök.
Villi Asgeirsson, 2.11.2006 kl. 16:19
Það væri líkast til jákvæð þróun ef að Íslendingum myndi fjölga í 400 þúsund, þótt sumir væru múslimar eða annarar trúar, aðrir blökkumenn, og jafnvel nokkrir Danir inní bland. Líklega yrði sú menning sem uppúr þeim suðupotti töluvert áhugaverðari en flatneskjan heima. Það er merkileg að fólk virðist líta á 'verndun´menningar eins og það þurfi að setja þjóðfélagið í formalín, að engu megi breyta, og að blandast öðrum menningarsamfélögum leiði af sér dauða, frekar en upphaf af einhverju nýju og meira spennandi.
Gauti Eggertsson (IP-tala skráð) 2.11.2006 kl. 23:40