Geta þeir sem deila og tortryggja hver annan unnið saman af heilindum skömmu eftir hámark átaka og efasemda? Eðlilega verða kjósendur að velta því fyrir sér hverslags bragur verður á samvinnu þeirra sem takast á af hörku um þingsæti framboðslistanna þegar fullyrt er leynt og ljóst um óheilindi keppinautanna. Mest hefur borið á efasemdum og tortryggni meðal sjálfstæðismanna í Reykjavík. Aðrir munu fylgja á eftir.Þegar valið er á listana, valið er í liðið, er væntanlega hugsun flestra þeirra sem mæta á kjörstað fyrst og fremst sú að velja þá frambjóðendur sem eru þeim kærastir, þá frambjóðendur sem eru líklegir til að vinna sigra í komandi kosningum og koma baráttumálum og stefnumiðum flokksins áfram. Svo eru aðrir sem gæta þess af öllum mætti að einstaka frambjóðendur fái sem versta og mest meiðandi útkomu. Það er oft gert að áeggjan annarra frambjóðenda. Þegar allt er vegið er eðlilegt að spyrja, hvað svo? Geta þeir sem hafa tekist á, oft af miklu miskunnarleysi, starfað saman einsog ekkert hafi í skorist? Jafnvel með óbragð í munninum einsog einn frambjóðandinn hefur orðað líðan flokksfélaga sinna?Sjálfstæðisflokkurinn er ekki búinn að vinna úr deilum og efasemdum eftir prófkjörið í Reykjavík. Þeir sem mest tókust á, það er Guðlaugur Þór Þórðarson og Björn Bjarnason, tilheyra hvor sínum arminum í flokknum, allavega er það skilningur þeirra sem eru utan við átökin. Ómögulegt er að hugsa sér þá starfa saman af fullum heilindum strax að slagnum loknum. Flokksfélagar þeirra verða samt að ætlast til þess af þeim, en það hefur margt verið sagt og gert síðustu daga og vikur sem eftir er að vinna úr.Tækifæri Sjálfstæðisflokksins er merkilegt. Það sem helst getur komið í veg fyrir vænlegan sigur í þingkosningunum eru innanflokksátök og óvild milli þeirra sem eiga að bera blysið. Þeir flokkar sem eiga eftir að fara í gegnum opin prófkjör munu líka skaðast af innanflokksátökum. Það er ekki nokkur ástæða til að ætla að tortryggni og óheilindi komi ekki líka við sögu hjá hinum flokkunum.Þjóðarpúls Gallup segir okkur að tækifæri Sjálfstæðisflokksins sé mikið og að sama skapi sé staða Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar niðurlægjandi. Framsókn er að festast með innan við tíu prósenta fylgi og Samfylkingin má, miðað við kannanir, berjast af krafti til að hanga í fjórðungsfylgi. Breytingarnar á forystu Framsóknarflokksins hafa greinilega ekki aukið fylgi við flokkinn og Samfylkingin virðist ekki finna taktinn. Áframhaldandi vandræðagangur þessara flokka mun styrkja Vinstri græna og Sjálfstæðisflokkinn. Helst geta flokkarnir fallið á eigin verkum, einsog virðist blasa við hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík.Eftir stendur hversu trúverðugir frambjóðendurnir verða þegar þeir standa hlið við hlið skömmu eftir að hafa staðið í harðvítugum átökum sín á milli. Eigum við að trúa því að þeir séu svo fljótir að fyrirgefa allt sem var sagt og allt sem var gert eða má vera að prófkjör geti ekki með nokkrum hætti verið til þess fallin að velja samhent fólk til verka?