Niðurlæging Framsóknarflokks og Samfylkingar er það sem eftirtektarverðast er í niðurstöðum þjóðarpúls Capacent. Þegar rýnt er tölurnar er sýnt að íbúar í mesta þéttbýlinu hafa algörlega gefist upp á Framsóknarflokknum og fylgi flokksins á höfuðborgarsvæðinu er svo lítið að það hlýtur að vekja þeim hroll sem málið varðar, en stuðningsmenn flokksins eru varla miklu fleiri en frambjóðendur flokksins til þings og sveitarstjórna. Aðrir hafa líkast til gefist upp. Fylgi Framsóknarflokksins í þéttbýlinu er frá þremur prósentum þar sem það er lægst og hæst rís það í fimm prósentustig. Aumara verður það varla hjá elsta stjórnmálaflokki þjóðarinnar. Þetta gerist á sama tíma og samstarfsflokkurinn er að jafna sig hratt eftir fylgishrun í síðustu kosningum.Samfylkingin liggur máttvana rétt einsog Framsóknarflokkurinn, en staða Samfylkingarinnar hér í þéttbýlinu er sérstaklega eftirtektarverð. Fylgistap Samfylkingarinnar í þéttbýliskjördæmunum þremur er allt að tíu prósentustigum. Í þeim kjördæmum sem forystan situr, það er í Reykjavík, er ekki hægt að tala um fylgistap, frekar fylgishrun. Samfylkingin heldur sínu í hinum kjördæmunum þremur. Það eitt getur ekki talist viðunandi. Flokkurinn sem á að hafa leitt stjórnarandstöðu svo lengi hlýtur að eiga sóknarfæri og ætti að eðlilegu að bæta við sig, ekki tapa miklu fylgi þar sem verst er og rétt halda úrslitum síðustu kosninga þar sem best lætur. Samfylkingarfólk hlýtur að vera áhyggjufullt, hlýtur að vera andvaka yfir bágri stöðu.Vinstri grænir hafa svo sem áður mælst háir í skoðanakönnunum, en nú bendir margt til að meira sé að marka sterka stöðu þeirra en áður. Umhverfismálin eru mál stundarinnar og enginn flokkur hefur verið eins traustvekjandi þar og Vinstri grænir. Flokkurinn mun örugglega uppskera í samræmi við það.Staða Sjálfstæðisflokksins er merkileg. Flokkurinn hefur verið í ríkisstjórn frá árinu 1991 og á þeim tíma hefur flokkurinn aukið mismunun þegnanna meira en dæmi eru um, lýst sig fylgjandi innrás í annað land og uppsker nú stóraukið fylgi. Auðvitað hefur Sjálfstæðisflokkurinn líka tekið þátt í ágætum málum, en annað hvort refsa íslenskir kjósendur ekki eða þeir finna enga leið til þess, kannski þykja þeim aðrir flokkar ekki þess virði að þeir yfirgefi Sjálfstæðisflokkinn þess vegna, jafnvel ekki einu sinni þó Sjálfstæðisflokkurinn logi nánast stafna á milli í innanflokksátökum.Frjálslyndi flokkurinn virðist ætla að safnast til feðra sinna, nema veruleg breyting verði á. Ekki er nokkur leið að trúa því að áhugi flokksmanna á málefnum gegn innflytjendum sé tilkominn sökum veikrar stöðu flokksins. Skoðanir sem forystmenn flokksins hafa viðrað geta ekki verið skyndiskoðanir. Því verður ekki trúað.