Enn hafa konur ekki náð að rétta sinn hlut gagnvart körlum í þeim prófkjörum sem fram hafa farið. Enn er fátt sem bendir til að konum fjölgi sem heitið getur á Alþingi við kosningarnar í vor, en enn er von í þeim prófkjörum sem eftir eru. Sú staðreynd hversu konur eiga erfitt uppdráttar í stjórnmálum er alvörumál og það er alvörumál hversu fáar konur sækjast eftir valdastöðum og ekki síður hversu erfitt þær eiga uppdráttar.Þó konur séu færri en karlar í flestum framboðum er það eitt og sér ekki skýring á hversu fáar þeirra ná í allra fremstu röð. Það er eitthvað að, valdastörf hljóta að vera jafnt fyrir konur sem karla, en hvað veldur því hversu seint okkur miðar í eðlilegan farveg?Hlustaði á prédikara á Ómega, sem sagði það skýrt samkvæmt orði guðs, að konan eigi að vera heima, gæta bús og barna og að þær eigi ekki að stjórna landinu. Það sagði hann vera verk karla. Sem betur fer eru ekki margir sömu skoðunar, eða hvað? Kannski ekki í orði, en á borði?Máli sínu til stuðnings sagði prédikarinn fallega sögu af eldri konu í Kópavogi, lágvaxinni og góðri. Fyrirmyndarömmu sem fórnaði sér fyrir aðra í fjölskyldunni og gætti þess sérstaklega að enginn liði skort og allir væru sælir og allir fengju nægju sína. Amen, sagði prédikarinn. Amen. Að hugsa sér hvernig samfélag við ættum ef góða amman í Kópavogi og nokkrar aðrar þannig ömmur hefðu farið út fyrir heimilið, inn á Alþingi og lofað allri þjóðinni að njóta gæsku sinnar og vits. Má vera að þá væri ekki skortur á úrræðum fyrir veikt fólk, engir biðlistar á sjúkrahúsum, nóg væri til af fólki sem sinnti börnum, veiku fólki, og hærri laun væru greidd til þeirra okkar sem annast okkur þegar við getum það ekki sjálf, ýmist vegna aldurs eða veikinda? Má vera að ef ömmurnar hefðu verið kosnar á þing í stað nokkurra miðaldra kalla þá væru örlítið færri sendiráð á okkar vegum hér og þar í heiminum, við hefðum aldrei stutt innrás í annað land og kannski væru lífeyrisréttindi ömmu á þingi ekkert miklu betri en ömmu í Kópavogi? Ömmurnar á þingi myndu kannski gæta þess þar, rétt einsog þær gera heima fyrir, að öllum líði nokkuð vel og að enginn í fjölskyldunni mæti afgangi og þess vegna gengi það bara aldrei að mismuna fólki einsog miðaldra karlarnir hafa gert.Er ekki kominn tími á að við fáum ömmurnar til að láta til sín taka þar sem sem flestir fái notið? Það er nefnilega verk að vinna til að jafna kjörin, gæta að þeim sem erfitt eiga, jafna skattgreiðslur þannig að þeir sem mest hafa borgi í sama hlutfalli og þeir sem minna hafa og minna eiga.Ef prédikarinn hefur rétt eftir guði, að konan eigi að vera heima og gæta bús og barna, má þá vera að Alþingi og stjórnarráð teljist til heimilisins okkar allra og þangað sárvanti ömmur? Inntak sögu prédikarans af góðu ömmunni var fínt, og því fínna verður það sem fleiri fá notið.