Jón Magnússon lögmaður heldur áfram umfjöllun um innflytjendamál, og að sjálfsögðu í Blaðinu. Grein Jóns er hér óstytt:
"Á forsíðu Fréttablaðsins 6. nóvember var ekkifrétt tileinkuð pólitískri rétthugsun. Yfir forsíðuna stóð Stefna Frjálslyndra í málum innflytjenda vekur ugg. Hvaða stefna er það sem vekur slíkan ugg? Sú stefna að Íslendingar hafi um það að segja hvaða útlendingar komi til landsins og fái að setjast hér að. Þessi forsíðufrétt er í anda pólitískrar rétthugsunar sem birtist meðal annars í þessari vitlausu fyrirsögn Fréttablaðsins og þeirri ritstjórnarstefnu Morgunblaðsins að ekki megi segja frá því ef fólk af erlendu bergi brotið gerist sekt um afbrot eða annað jafnvel þó það séu fréttir. Stefna Frjálslyndra í innflytjendamálum vekur ekki ugg, það er rangt og vond blaðamennska að setja ekkifréttir upp með þessum hætti og andstætt hlutlægri umfjöllun um mál. Við sem höfum leyft okkur að benda á þau vandamál sem við stöndum frammi fyrir ef ekki verður spyrnt við fótum erum sakaðir um fordóma. Fordómar eru hleypidómar eða ógrundaðir dómar. Dómur byggður á rökum eða staðreyndum er ekki fordómur. Málflutningur okkar er byggður á staðreyndum en ekki fordómum. Það eru þeir sem gagnrýna okkur sem gerast sekir um fordóma, að gera okkur upp skoðanir og hreinlega segja ósatt um hverjar skoðanir okkar eru. Við vörum við þeirri þróun sem hér getur orðið með áframhaldandi aðstreymi útlendinga. Við höldum því fram að það sé ekki lengur nein stjórn á þessu aðstreymi og stjórnkerfið ráði ekki við neitt. Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður Frjálslynda flokksins, benti raunar réttilega á þetta á Alþingi í vor. Enginn hefur fordæmt það fólk sem hingað hefur komið. Við höfum hins vegar krafist þess að brugðist verði við til að við getum stjórnað þróuninni og mótað það velferðarsamfélag á Íslandi sem við viljum stefna að. Samfylkingin hefur ákveðið að leggjast í stóra vörn fyrir frjálst aðstreymi útlendinga til landsins. Samfylkingunni er frjálst að hafa þá skoðun en talsmönnum hennar er hins vegar ekki heimilt að gera öðrum upp skoðanir og bregða þeim um kynþáttafordóma eða að reyna að vekja ótta fólks gagnvart útlendingum eins og talsmenn Samfylkingarinnar hafa haft á orði gagnvart málflutningi okkar. Hvergi í orðum okkar gætir fordóma. Talsmenn Samfylkingarinnar óttast hins vegar öfgalausa umræðu um vandamálið og kjósa að reyna að drepa umræðunni á dreif og gera þá tortryggilega sem þora að fjalla um þetta brýna hagsmunamál allra Íslendinga. Ég hef sett fram þá skoðun að ég vilji ekki fá hingað til lands þá sem ég kalla syni Allah og á þá við þá einstaklinga sem játa íslam og gera kröfu til að sjaría-lög gildi og hafa í öllum löndum Evrópu þar sem þeir hafa komið tekið lögin í eigin hendur hafi þeir talið það nauðsynlegt með heiðursmorðum, ofbeldi og aftökum, sbr. morð á stjórnmálaleiðtoga og kvikmyndaleikstjóra í Hollandi. Þetta eru staðreyndir en ekki fordómar. Það hefur auk heldur ekkert með virðingu eða virðingarleysi gagnvart íslam að gera. Það hefur heldur ekkert með þá játendur íslams að gera sem hér búa og hafa verið nýtir þjóðfélagsborgarar. Ég ber hins vegar ekki virðingu fyrir öfgafyllstu túlkun hvorki íslams né annarra trúarbragða. Vandinn er sá að nú hafa öfgamennirnir tekið yfir í íslamskri boðun og það er þar sem ég staldra við og geri kröfu til þess að við stöndum við ákvæði stjórnarskrár lýðveldisins um mannréttindi og mannhelgi.
Fjölmenningarþjóðfélag er óskapnaður ef það felur í sér afslátt af þeim gildum mannúðar og mannréttinda sem hér ríkja. Pólitísk rétthugsun má aldrei leiða til þess að enginn þori að taka til máls um það sem máli skiptir af ótta við fordóma þeirra sem telja sig hafa einkarétt á því hvað má segja og hvað ekki. Fjölmiðlar sem útiloka eðlilega umræðu eða búa til rangar ekkifréttir í anda pólitískrar rétthugsunar eru fordómafullir og hættulegir."
Flokkur: Bloggar | 8.11.2006 | 10:08 (breytt kl. 17:34) | Facebook
Athugasemdir
Þakka þér að birta þetta, Sigurjón, sem balans við hina greinina, hans Eiríks Bergmanns, sem þú birtir hér líka.
Jón Valur Jensson (IP-tala skráð) 8.11.2006 kl. 21:39