Óhefð­bund­in lög­regla

Tíma­mót verða um ára­mót þeg­ar grein­ing­ar­deild lög­reglu verð­ur að veru­leika. Svo merki­lega vill til að á sama tíma eru um tíu ár frá því fjöru­tíu lög­reglu­menn voru tald­ir hafa brot­ið lög með starfs­hátt­um sín­um. Þeir beittu óhefð­bundn­um að­ferð­um, en grein­ing­ar­deild­in fær vænt­an­lega heim­ild­ir til þess sama og verð­ur gert heim­ilt að not­ast við það sem kall­ast óhefð­bundn­ar að­ferð­ir.Er ekki rétt að staldra við og at­huga hvort lög­regl­an hér sé und­ir það bú­in að fá víð­tæk­ari heim­ild­ir en hún hef­ur nú? Það er ekki sjálf­gef­ið að svo sé, og það er ekki held­ur sjálf­sagt mál að treysta því sem sagt er um ágæti lög­regl­unn­ar og starfs­hátta henn­ar. Lög­regl­an hef­ur feng­ið ákúr­ur frá dóm­stól­um vegna vinnu­bragða og ver­ið gerð aft­ur­reka með stór mál. Fyr­ir tíu ár­um er tal­ið að sann­ast hafi að lög­reglu­menn hafi brot­ið af sér í starfi þrátt fyr­ir að sak­sókn­ari hafi ekki treyst sér til að ákæra sök­um þess að vafi lék á um hvort lög­reglu­menn­irn­ir yrðu sak­felld­ir. Þann­ig var­úð­ar­sjón­ar­mið ákæru­valds­ins eru ekki allt­af not­uð í dag, en það er ann­að mál.Í rann­sókn­inni sem gerð var fyr­ir ára­tug um starfs­hætti lög­regl­unn­ar, það er óhefð­bundn­ar að­ferð­ir, sagði Arn­ar Jens­son, sem var yf­ir­mað­ur fíkni­efna­lög­regl­unn­ar, í skýrslu: „Mjög al­gengt var að skýrsl­ur sem inni­héldu upp­lýs­ing­ar um al­var­leg brot, jafn­vel stór­an inn­flutn­ing eða dreif­ingu fíkni­efna, hafi ver­ið lagð­ar í skjala­skáp án nokk­urr­ar rann­sókn­ar vegna anna við aðr­ar rann­sókn­ir, fjár­skorts eða mann­fæð­ar.“ Rann­sókn­in laut ekki síst að vitn­eskju um að Frank­lín Stein­er, af­kasta­mik­ill fíkni­efna­sali, nyti sér­rétt­inda lög­reglu. Í því ljósi er merki­legt að rýna í texta Arn­ars Jens­son­ar. Lög­regl­an for­gangs­rað­aði sam­kvæmt því sem Arn­ar sagði og kaus að rann­saka ekki upp­lýs­ing­ar um al­var­leg brot, jafn­vel stór­an inn­flutn­ing og dreif­ingu fíkni­efna. Ekki er unnt að taka und­ir að það hafi ver­ið gert vegna fjár­skorts ein­sog Arn­ar seg­ir. Önn­ur mál voru val­in til rann­sókn­ar með­an stór­mál­in gleymd­ust. Þetta gerð­ist þeg­ar lög­regl­an beitti óhefð­bundn­um að­ferð­um. Er­um við viss um að lög­regl­an, sem fær aukn­ar heim­ild­ir, stundi ekki leng­ur að­ferð­ir ein­sog Arn­ar Jens­son lýsti hér að of­an? Er­um við viss um að þeir sem fara með lög­reglu­vald­ið séu und­ir aukna ábyrgð og aukn­ar heim­ild­ir bún­ir? Nei, það er­um við ekki.Ný­ver­ið sagði frá því hér í Blað­inu, að lög­regl­an segð­ist hafa ver­ið að prófa lang­drægni eig­in tal­stöðv­ar­kerf­is í hest­húsa­hverfi að kvöldi til. Lög­reglu­þjónn­inn sem var að prófa kerf­ið er eig­in­kona sókn­ar­prests og í næsta hest­húsi var sókn­ar­nefnd að funda um eig­in­mann lög­reglu­þjóns­ins, það er sókn­ar­prest­inn. Full­trú­ar í sókn­ar­nefnd­inni voru þess full­viss­ir áð­ur að fund­ir þeirra væru hle­rað­ir og um kvöld­ið í hesta­húsa­hverf­inu styrkt­ist trú þeirra á að svo hafi ver­ið. Tal­ið er víst að lög­regl­an hafi þá beitt óhefð­bundn­um að­ferð­um, ekki til að upp­lýsa glæp, nei, held­ur til að hlera sókn­ar­nefnd að störf­um. Lög­regl­an vís­ar öllu á bug, seg­ist ekki einu sinni eiga hler­un­ar­bún­að. Er það svo? Nauð­syn­lega vant­ar svör.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband