Á sama tíma og handhafar löggjafarvaldsins segjast hafa áhyggjur af fákeppni og jafnvel einokun á markaði hér, berjast sumir þeirra fyrir nýjum og breyttum lögum um Ríkisútvarpið. Allir þeir, sem fyrir væntanlegum lögum verða, kvarta sáran og tala jafnvel um að lagasetningin muni kalla fram einokun ríkisins í ljósvakafréttum. Hafi þeir sem mest deila á væntanleg lög rétt fyrir sér að hluta eða öllu leyti er hreint ótrúlegt að handhafar löggjafarvaldsins ætli að standa að því að auka forskot ríkisins í samkeppni við frjáls félög einstaklinga og fyrirtæki.Breytingarnar sem menntamálanefnd Alþingis samþykkti að leggja til á lagafrumvarpi menntamálaráðherrans eru svo takmarkaðar og lítils virði að erfitt er að trúa því að meining liggi að baki. Umsjónarmönnum ríkisfréttastofunnar verður ekki heimilt að selja auglýsingar á vef stofnunarinnar og takmörk verða sett á kostun dagskrárliða. Þeir sem þekkja til á markaði segja hugmyndir alþingismannanna um þetta fráleitar og í raun einskis virði. En hvers vegna er verið að setja lög sem auka sérréttindi ríkisins í einni atvinnugrein; atvinnugrein sem er sinnt með sóma af öðrum? Nóg er að hafa ríkisfjölmiðil þó honum sé ekki gert mögulegt að berja niður einkarekna miðla. En aftur er spurt; hvers vegna?Eitt er víst að menntamálaráðherrann, sem jafnframt er varaformaður Sjálfstæðisflokksins, á mikið undir því að ný lög um ríkisfjölmiðlinn verði samþykkt fyrir jólaleyfi Alþingis. Hún er búin að reyna mikið að koma breytingunum í gegn, en án árangurs. Menntamálaráðherra gaf vilyrði fyrir breytingum þegar hún skipaði nýjan útvarpsstjóra. Það hefur henni ekki tekist að efna. Fátt bendir til þess að frumvarpið verði samþykkt fyrir jól og þá heldur ekki á stuttu þingi sem verður haldið eftir áramót, en þingmenn hætta snemma í vetur vegna kosninganna í vor.Almenningi er sama um frumvarpið um ríkisfjölmiðilinn. Almenningi er hins vegar ekki sama um dauðagildrur á þjóðvegum, almenningi er ekki sama um velferð veikra og þeirra sem líða þjáningar. Alþingi verður að gera svo vel og taka á sig rögg, hætta baráttu um það sem varðar almenning engu, einsog RÚV, framboð til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og fleiri dekurmál einstakra stjórnmálamanna. Hafi handhafar löggjafarvaldsins áhyggjur af fákeppni eða einokun er hreinlega ætlast til þess af þeim að þeir auki ekki á þann halla sem þegar er fyrir hendi. Það geta þeir gert með því að henda frumvarpinu um ríkisfjölmiðilinn og sinna þess í stað því sem enga bið þolir.Hér eru biðlistar eftir læknisþjónustu, dauðagildrur eru á þjóðvegum, aldraðir fá ekki inni á hjúkrunarheimilum, blind börn verða að flýja land þar sem engin kennsla er fyrir þau hér og áfram er hægt að telja. Ágæti þingheimur, notið þær fáu vikur sem þið hafið fram að kosningahléi til að koma því í framkvæmd sem máli skiptir. Hættið gagnsleysinu.