Fyrir réttu ári var Blaðið ekki mikið lesið og mat margra var að það ætti ekki mikla framtíð fyrir sér. Þá mældist meðallestur á tölublað aðeins rúm tuttugu og sjö prósent. Nú, ári síðar, er meðallestur á tölublað um sextíu prósentum meiri eða rétt um fjörutíu og fjögur prósent. Á sama tíma hefur uppsafnaður lestur Blaðsins aukist í hverri viku úr tæpum fjörutíu og fimm prósentum í meira en sjötíu prósent. Þetta eru svo miklar breytingar að þær eru nánast ótrúlegar.Á sama tíma hefur nánast engin breyting orðið á lestri Morgunblaðsins og lestur Fréttablaðsins hefur aukist lítillega. Staða Fréttablaðsins er ekkert merkileg, blaðið er stærst og hefur verið lengi. Fréttirnar um lestur dagblaða er fyrst og fremst að finna í ótrúlegum breytingum á lestri Blaðsins og á sama tíma og Blaðið tekur risastökk og Fréttablaðið mjakast upp á við, situr eina áskriftarblað landsins, Morgunblaðið, eftir.Frá síðustu könnun, sem var framkvæmd með öðrum hætti en sú sem nú birtist, hefur lestur allra blaðanna dalað, minnst hjá Blaðinu og mest hjá Morgunblaðinu. Fréttirnar eru aðallega tvær: ótrúlegar breytingar á lestri Blaðsins og hægt og sígandi fall Morgunblaðsins. Dreifing Blaðsins er óörugg en þrátt fyrir það munar til að mynda ekki nema sex prósentustigum á lestri Blaðsins og Fréttablaðsins á laugardögum og í einstaka aldurshópum er Blaðið lesið meira en hin blöðin tvö. Það er nýtt. Blaðið hefur vaxið hraðar og meira en nokkur dæmi eru um hér á landi, og eflaust þó víðar væri leitað.Slæm staða Morgunblaðsins er eftirtektarverð. Ekki er hægt að kenna samkeppninni við fríblöð alfarið um. Starfsfólk og stjórnendur Morgunblaðsins verða að horfa á eigin verk og vega og meta hvað er verið að gera rangt. Kannski er skoðanaþrunginn fjölmiðill barn síns tíma. Kannski er það ekki hlutverk fjölmiðla að keppast við að hafa sem mest áhrif á skoðanir fólks og gerðir. Má vera að Morgunblaðið þurfi að taka tillit til breytts tíðaranda.Það er ekki gott ef Morgunblaðið nær ekki að keppa við fríblöðin. Val lesenda verður að vera sem mest og þess vegna er nauðsynlegt að hér verði nokkur öflug dagblöð. Það er einnig nauðsynlegt að blöðin skeri sig hvert frá öðru. Blaðinu hefur tekist að vera valkostur við hlið hinna klassísku morgunblaða, Morgunblaðsins og Fréttablaðsins. Það er þess vegna sem lestur þess eykst af miklum hraða og öryggi. Framundan eru kosningar og þess vegna mun mikið mæða á dagblöðunum, þar fara skoðanaskiptin fram að mestu og vegna kosninganna er mikilsvert að fjölmiðlar gæti hlutleysis, ekki bara í birtingu aðsendra greina, heldur miklu frekar í fréttaumfjöllun. Þar ætlar Blaðið að verða fremst meðal jafningja.
Athugasemdir
Ég fæ nú Blaðið með Morgunblaðinu þó svo ég hafi ekki beðið um það, en meðan minningagreinarnar eru í morgunblaðinu þá kaupi ég það. Það er engin spurning að lestur Blaðsins hefur aukist með þessari dreifileið sem Morgublaðið hefur.
JBA (IP-tala skráð) 6.12.2006 kl. 13:52