Mikil ósköp er hún Valgerður Sverrisdóttir góður ráðherra. Hún er uppfull af hjartahlýju og hún keppist við þessa dagana að láta gott af sér leiða. Valgerður gefur hingað og þangað, ómælt og rausnarlega. Kannski er hún ekki eins afleitur utanríkisráðherra og flestir virðast álíta.En þegar betur er að gáð er hún ekki að gefa sjálf og vissulega má efast um huginn að baki gjöfunum. Best er að halda því til haga að það sem Valgerður gefur á hún ekki, ekkert frekar en við hin. Hún er að gefa úr almannasjóðum og svo það sem verra er, það er ekki víst að allt sem hún gefur sé gefið vegna þarfa þiggjandans. Frekar vegna þess að íslensk stjórnvöld hafa ekki enn látið af þeirri gölnu hugmynd að sækjast eftir setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Til að mögulegt sé að fá atkvæði þarf að berjast, og í heiminum er oftast barist með peningum þegar þráin eftir pólitískum vegtyllum grípur stjórnmálamenn. Þeir kunna greinilega best að bera fé á þá sem þeir þurfa að treysta á að veiti þeim stuðning. Valgerður er í essinu sínu og tekur reglulega peninga úr almannasjóðum. Vissulega er gott að gefa fátækum börnum peninga og veita þeim aðstoð til betra lífs. Það er sætt, en sætast er samt alltaf þegar hugur gefandans er sannur og ætlast ekki til neins í staðinn. Þegar svo er gert er verið að gefa, annað er að kaupa.Á sama tíma og Valgerður færir peninga til annarra landa hafa stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar reynt allt sem þeir geta til að tala niður skýrslu forsætisráðherra um hversu mörg fátæk börn eru á Íslandi. Í stað þess að horfast í augu við staðreyndina, þá er þrefað um hvort fátæk börn á Íslandi séu mjög mörg, mörg, ekki sérstaklega mörg, frekar fá eða mjög fá. Meðan stjórnmálamenn festast í þessu gamla fari sínu gerist ekkert og fátæku börnin líða skort og þola niðurlægingu, höfnun samfélagsins og aðrar þrautir, sama hvort þau eru mjög mörg, mörg eða bara ekkert sérstaklega mörg. Stjórnmálamenn munu þæfa málið með smáatriðum og á meðan leysa þeir vanda barna í öðrum löndum, ekki af hjartagæsku, heldur í von um stuðning við eina altvitlausustu hugmynd sem íslenskir stjórnmálamenn hafa fengið og framkvæmt.Gaman væri ef hægt væri að hinkra aðeins við. Skoða af alvöru þá staðreynd að börn hér á landi líða skort og hvað er unnt að gera til að lina þjáningar þeirra. Þegar því verki er lokið væri okkur mikill sómi að skoða í hvaða löndum við getum gert mest og best gagnið til að aðstoða þá sem eiga bágt. Og láta þá hafa mest skortir, ekki þá sem hugsanlega veita okkur atkvæði í vonlausu og óskiljanlegu framboði okkar til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.