Morgunblaðið sér ástæðu til að blanda saman olíusvikamálinu og Baugsmálinu í leiðara í gær. Morgunblaðið fullyrðir að sakborningar í olíumálinu muni ekki verjast með sama hætti og Baugsmenn. En hvers vegna er verið að bera þessi tvö mál saman? Hvað rekur Moggann til þess?Málin eru mjög ólík. Annað hefur ítrekað komið fyrir dómstóla án þess að þeim sem hafa farið með ákæruvald í málinu hafi nokkru sinni tekist að sanna sekt á þá sem þeir hafa ákært. Olíusvikamálið er allt annars eðlis. Sama dag og forstjórarnir þrír voru ákærðir féll skaðabótadómur á olíufélögin um sekt þeirra vegna samráðs; samráðs um að hafa peninga af fólki, af viðskiptavinum sínum. Enn hefur ekki tekist að sanna sektir í Baugsmálinu, ólíkt því sem þegar hefur gerst í olíusvikamálinu.Olíusvikamálið er framhald af rannsókn samkeppnisyfirvalda. Brotamenn þar hafa játað sakir og beðist afsökunar á þeim. Baugsmenn hafa allan tímann haldið fram sakleysi sínu og varið sig af öflu afli. Sem er mikið.Ekki er hægt að sjá hvers vegna Mogginn kýs að strá efasemdum um varnir Baugsmanna þegar blaðið neyðist til að fjalla um ákærur í olíusvikamálinu. Mogginn gengur svo langt í leiðaranum að tala um að Baugsmenn hafi misnotað fjölmiðla í vörnum sínum. Hér þarf að staldra við. Hafi einhver fjölmiðill verið misnotaður í þessum málum er það Morgunblaðið. Það var á ritstjórnarskrifstofu Morgunblaðsins sem þeir hittust Styrmir Gunnarsson, Kjartan Gunnarsson og Jón Steinar Gunnlaugsson til að leggja á ráðin um kærur á hendur Baugsmönnum. Það var á ritstjórn Morgunblaðsins sem kærandinn í Baugsmálinu fékk ókeypis þýðingarþjónustu, það var ritstjóri Morgunblaðsins sem átti í póstsendingum í aðdraganda lögreglurannsóknarinnar gegn Baugi, það var ritstjóri Morgunblaðsins sem lék drjúgt hlutverk í að ýta þeirri rannsókn af stað. Það er þessi sami ritstjóri sem stígur nú fram og vænir aðra fjölmiðla um að ganga erinda sakborninga í Baugsmálinu. En hvað um hans hlut? Var allt það sem gert var á ritstjórn Morgunblaðsins, afskipti ritstjórans og hans vina, eðlileg meðferð á fjölmiðli? Má vera að það sé mat ritstjórans?Lengi hefur verið beðið eftir því hvernig Morgunblaðið myndi taka á olíusvikamálinu þegar loks kæmi að ákærum. Það hefur Morgunblaðið gert. Leiðarahöfundurinn tók sér smjörklípu í hönd og klíndi um allt til þess að draga úr alvarleika olíusvikamálsins. Einn af eigendum Morgunblaðsins til margra ára og fyrrum stjórnarformaður Morgunblaðsins sætir ákæru í olíusvikamálinu. Hefur það áhrif á ritstjórann, féll Mogginn á prófinu, fór Mogginn út af í beygjunni?Sigurjón M. Egilsson.