20. september 2006
Ein mesta niðurlæging sem Íslendingar hafa mátt þola frá öðrum þjóðum er fjórtán tvö tapið gegn Dönum fyrir tæpum fjörutíu árum. Margt bendir til þess að niðurlæging okkar í varnarviðræðunum verði enn meiri og verði okkur til aðhláturs um ókomna tíð.Þegar ljóst var að Kaninn ætlaði að fara héðan var fátt gert og Davíð Oddsson treysti lengstum á meintan vinskap sinn við George Bush. Halldór Ásgrímsson sat og horfði á og hefur sagt eftir á að Davíð beri ábyrgðina á því hversu mikið hann treysti á Kanann. Annar foringinn var blindur af dýrkun á Kananum, hinum leist ekkert á en hafði ekki manndóm í sér til að bregðast við.Leyndin yfir gangi viðræðnanna hefur verið undarleg og kallað fram ýmsar efasemdir. Heimamenn á Suðurnesjum hafa ekkert fengið að vita, hvorki ráðamenn sveitarfélaga né talsmenn starfsfólksins. Allir sem hagsmuni hafa bíða þess að fá að fylgjast með, bíða frétta. Á sama tíma þegir forsætisráðherrann núverandi og aðalutanríkisráðherra þjóðarinnar, Geir Haarde. Kannski hefur hann ekki frá neinu að segja og kýs að þegja. Aðstoðarutanríkisráðherrann Valgerður Sverrisdóttir segir ekkert og veit kannski ekkert. Íslenskir fjölmiðlar hafa fylgst með íslensku sendinefndinni þegar hún gengur svipþung á fundi og af fundum með hernaðaryfirvöldum stórveldisins. Engar fréttir fást og þögnin er vandræðaleg og er sennilega ekkert annað en þögn um vandræði, þögn um hallærislega stöðu okkar manna í glímu við andstæðing sem virðist okkur fremri á öllum sviðum.Sennilegast semja okkar menn um viðskilnað Kanans þannig að hann skilur eftir einhver tæki og tól, borgar einhverja aura sem munu hvergi duga til að hreinsa upp alla þá mengun sem eftir verður. Það hefur komið skýrt fram hér í Blaðinu að í áraraðir var versti úrgangurinn urðaður af varnarliðinu og víða er jarðvegur illa mengaður þess vegna. Ekki er minnsta von til þess að gengið verði frá för Kanans þannig að afleiðingarnar af hans eigin umgengni bitni á öðrum en okkur Íslendingum. Allt gegn lágu gjaldi. Reisn okkar er ekki meiri en svo.Meintur vinskapur Bandaríkjaforseta og Davíðs Oddssonar hefur hugsanlega orðið okkur dýr. Í stað þess að bregðast strax við þegar ljóst var að herinn færi var látið reka á reiðanum. Staða okkar er ekki síst þess vegna hláleg. Tómhent kemur íslenska sendinefndin af hverjum fundinum af öðrum. Algjör þögn ríkir um hvað ber á milli, um hvað er talað, hvers við krefjumst, hvers þeir krefjast og meira að segja er engin vitneskja um hverjar varnir landsins eru. Ráðamenn sem sjá andskotann í hverju horni og vilja stofna heri og leyniþjónustur sögðu ekkert, kannski vegna þess að þeir vissu ekki að enginn horfði á ratsjár varnarliðsins, enginn fylgdist með. Varnirnar voru farnar og niðurlæging ráðamanna opinberaðist.15. september 2006
Davíð Oddsson og klappliðið hans í Seðlabankanum komu ekki á óvart. Stýrivextir voru hækkaðir eins og ráð var fyrir gert. Utan bankans er ekki klappað. Aðrir sem bera ábyrgð á velferð þjóðarinnar, svo sem talsmenn launafólks, eiga varla orð til að lýsa hagstjórninni. Rússíbanahagstjórn, segir hagfræðingur Alþýðusambandsins.Í sumar gerðu deilendur á vinnumarkaði og ríkisstjórn með sér samkomulag til að slá á verðbólguna. Vonast var til að Davíð léti af eða að minnsta kosti drægi úr hækkun vaxta meðan árangur af aðgerðum deilendanna og ríkisins kæmi í ljós. Þeim varð ekki að ósk sinni, ekki vinnuveitendum, ekki launþegum og ekki ríkisvaldinu. Davíð hirti ekkert um óskirnar og hækkaði vextina. Hann ræður. Þó svo allir aðrir væru sammála skorti það sem mestu skiptir á Íslandi og hefur gert lengi. Það vantaði samþykki Davíðs og því eru vextir enn hækkaðir og aðrir sem eiga að teljast gerendur í hagstjórninni sitja máttvana hjá.Þeir segja þetta merkilegt af hálfu Seðlabankans, að hækka enn vexti við lok hagsveiflunnar þar sem það kallar á harkalegri lendingu en annars hefði verið. Draga mun úr lánsfé og draga mun úr framkvæmdum hjá litlum sem stórum. Það bætist við að stórframkvæmdir verða minni og hagvöxtur fellur og kaupmáttur hækkar minna en hann hefur gert, jafnvel ekkert. Þau sem hafa áhyggjur af efnahagsstjórninni kalla á stöðugleika, stöðugleika og aftur stöðugleika. Vont er fyrir alla að lifa í rússíbanahagkerfi. Fyrirtækin búa við það að á einum tíma gengur ótrúlega vel og á næsta þveröfugt og það án þess að stjórnendurnir fái nokkru um ráðið. Þetta ástand hefur mikil áhrif á afkomu okkar þegnanna. Rússíbanahagstjórnin hefur á sér margar myndir. Til dæmis kvelur hún sprotafyrirtæki sem leita til annarra landa þar sem meiri ró er og rekstrarforsendur eru meiri og betri.En hverjum eigum við að trúa? Davíð sem gefur ekkert eftir og herðir tökin eða hinum sem segja hann og hans fólk vera haldið fítonskrafti í vaxtahækkunum sem geri fátt annað en að kalla fram harkalega lendingu úr efnahagsflugi sem reyndar Davíð hóf sem forsætisráðherra, og sem hann vill núna ljúka með brotlendingu, eftir því sem aðrir segja.Á sama tíma kemur fram að fleiri Íslendingar en áður vilja kanna aðild að Evrópusambandinu. Þar blasir við okkur margt spennandi, svo sem lægri vextir, lægra matarverð og meiri stöðugleiki. Vissulega spennandi, en áður en til greina kemur að við sækjum um aðild að evrunni einni eða Evrópusambandinu verðum við víst að laga til heima fyrir og ræða saman af alvöru og ekki af heift stjórnmálanna. Það eru kostir og gallar við hvorutveggja, evruna og aðild að Evrópusambandinu. Orð eru til alls fyrst, það á við ef við óskum aðildar og ef við ætlum saman að reyna að komast úr rússíbananum. Eins og ráðendur í hagstjórninni töluðu og gerðu í gær eru vonirnar litlar. Því miður.13. september 2006
Ögmundur Jónasson stóð sig vel þegar hann gekk af fundi þar sem útdeilt var upplýsingum sem þegja á um. Það er rétt hjá þingmanninum að afþakka upplýsingar sem hann má ekki segja frá. Hann, einn þingmanna, gerði sér grein fyrir hver staða hans er, hvert hann sækir umboð sitt. Aðrir þingmenn létu ósómann yfir sig ganga. Fengu upplýsingar sem eru þeim með öllu gagnslausar þar sem ekkert er með þær að gera. En Landsvirkjun tókst enn frekar en áður að láta hluta þingheims taka þátt í þögninni gagnvart þjóðinni, gegn eigendum fyrirtækisins.Hver arðsemin verður af Kárahnjúkavirkjun er meðhöndlað sem hernaðarleyndarmál og sama er að segja um stöðu okkar gagnvart Bandaríkjamönnum vegna varna landsins. Merkilegt hvernig ráðamenn láta; þeir þegja um sjálfsögðustu hluti og þá sjaldan þeir tjá sig þá er það í smáskömmtum eða jafnvel með enn verri hætti. Þingnefnd fær einhverskonar upplýsingar gegn loforði um að halda sannleikanum frá umbjóðendunum. Og flestir þingmenn þiggja. Þetta er merkilegt.Þess vegna var það gott hjá Ögmundi að ganga af fundi. Eflaust líður honum betur á eftir; þarf ekki að ganga um með upplýsingar sem hann fékk sem þingmaður en má ekki tala um við þá sem kusu hann, við þá sem veittu honum umboð.Öll sú leynd sem verið er að búa til um alla hluti er sérstök. Meira að segja var upplýsingum um fáránlegan rekstur strætisvagna haldið frá eigendunum, og það var sagt gert til að draga ekki úr gleði yfir misheppnaðasta leiðakerfi sem sögur fara af, leiðakerfi sem hefur valdið miklu ósætti og óánægju.Nú búa nokkrir þingmenn að upplýsingum um endurskoðaða arðsemi af Kárahnjúkavirkjun, en það er allt. Þeir hafa gengist undir skilyrði; þeir mega ekkert segja um það sem þeir fengu að vita. Landsvirkjun setti skilyrði og þau halda. Á sama tíma segja stjórnarmenn í Landsvirkjun fyrirtækið ekki vera rekið sem fyrirtæki, frekar sem pólitískan klúbb. Bæjarstjórinn á Akureyri, sem á sæti í klúbbnum, sagði í viðtali að við þetta kerfi væru kostir. Það er ekki víst að þeim sem eru utan við klúbbinn finnist það sama, að eitt stærsta fyrirtæki landsins sem er í opinberri eigu lúti ekki eðlilegum lögmálum, heldur stjórnist af stjórnmálum. Það þarf ekki að koma á óvart þegar litið er til þess að helst eru stjórnmálamenn, ekki síst þeir sem eru hættir, valdir til stjórnarsetu.Allt þetta á að kalla á viðbrögð. Það sem Ögmundur gerði breytir eitt og sér kannski ekki miklu. Það vekur samt athygli á hvernig farið er með þingið og hvernig þingmenn eru reiðubúnir að fara með þjóðina. Þiggja það sem að þeim er rétt, bara fyrir sig, en hirða minna um fólkið sem veitir umboðið. Þess vegna var þetta fínt hjá Ögmundi. Það er enginn tilgangur með því að búa yfir upplýsingum sem ekki má fjalla um.12. september
Valgerður Sverrisdóttir baðst einhverra hluta vegna undan helsta verkefni utanríkisráðherra þegar hún tók við embættinu. Valgerður Sverrisdóttir er þess vegna aðeins hálfur ráðherra, en á fullum launum. Varnarmálin eru á borði forsætisráðherra sem er manna snjallastur í að þegja og fela upplýsingar. Nú hefur komið í ljós, nánast öllum að óvörum, að enginn hefur fylgst með loftferðum við Ísland í nokkurn tíma. Forsætisráðherra hefur vonandi vitað af þessu, en þó kosið að segja ekki frá. Sú krafa er ekki gerð til Valgerðar Sverrisdóttur utanríkisráðherra að hún hafi vitað af varnarleysinu. Enda er það ekki á hennar borði. Hún afþakkaði stærsta verkefni ráðuneytisins.Hvers vegna ætli það líðist að utanríkisráðherra fari ekki með varnarmál og hvers vegna gengur það í langan tíma að utanríkismálanefnd viti ekki af varnarleysinu? Svörin eru augljós.Til að byrja með sannar staða Valgerðar að í raun skiptir það eitt mál að halda ríkisstjórninni saman. Ráðherrar koma og ráðherrar fara af meiri krafti en dæmi eru um. Framsókn er svo illa leikin að flokkurinn hafði engan til að gegna embætti utanríkisráðherra; bekkurinn er bara of þunnt skipaður og þess vegna varð úr að Valgerður var sett í utanríkisráðuneytið til að flokkurinn teldist halda því embætti, en þar sem hún treysti sér ekki til verksins var fundin þessa sérstaka leið að fela öðrum að fara með eina málið sem skiptir verulegu máli. Eftir situr Valgerður í embætti til þess eins að vista það fyrir Framsóknarflokkinn, til að draga úr eða til að fela niðurlæginguna.Utanríkismálanefnd var ekki sett inn í stöðu varnarmála vegna þess að hún skiptir engu máli, alla vega ekki miklu. Á Íslandi er ráðherraræði og það er í mesta lagi fyrir kurteisissakir sem þingnefndir eru settar inn í mál, og þá helst ef einstaka þingmenn hafa kvartað sáran. Meiningin með því að setja þingið inn í einstök mál er í sjálfu sér engin. Ekki nokkur. Það er bara þannig að það þarf að gera ýmislegt til að halda friðinn, til að láta hlutina líta sem best út. En í erli valdsins getur það svo sem gleymst og lái forsætisráðherra hver sem vill þó hann upplýsi þingið ekki um þetta mál. Það hefði engu breytt. Stjórnarandstæðingar hefðu kannski hrópað á torgum. Ekki hafa þeir þingið til þess. Það er enn í sumarfríi og hefur verið síðan snemma í vor. Stjórnarsinnar hefðu hvort eð er sagt þetta allt í besta lagi, ráðherrana alla vera að gera rétt. Þannig er það og þannig verður það. Þingmenn ganga oftast lengst allra í að lítillækka eigin störf og eigin stöðu.Staða þjóðarinnar væri örugglega ekki verri og ekki betri þó Valgerður væri alvöru ráðherra og sinnti öllum störfum utanríkisráðherra. Það skipti sennilega engu. Varðveisla hennar á embættinu fyrir Framsóknarflokkinn sýnir betur en flest annað að stjórnmálin eru fyrir flokkana og ráðamennina en ekki öfugt.7. september 2006
Las í blaði að lögregla hefði þurft að beita kylfum í átökum við hóp unglinga. Ef það er rétt þá er það væntanlega mat lögreglu að svo hafi verið. Líklega eru unglingarnir á öðru máli en lögreglan. Það er allsendis óvíst að unglingarnir, eða allir aðrir en lögreglan, hafi sama mat á hvort lögregla þurfi að beita barefli á borgarana.Umræðan um lögregluna snýst mest um að efla þurfi lögreglu, stofna nýjar deildir sem hafi víðtækari heimildir en nú er og svo bætast við fullyrðingar um að beita þurfi bareflum. Er ekki rétt að hinkra aðeins við? Vissulega koma upp aðstæður þar sem fólki og þar á meðal lögreglu stafar ógn af framferði einhverra glæpamanna. En það er ekki hið dæmigerða og drukknir unglingar réttlæta ekki barsmíðar lögreglu nema þeir hafi brotið harkalega af sér. Barsmíðar lögreglu hafa ekki verið rökstuddar.Halda mætti að þeir sem stýra lögreglunni séu herskáir. Í stað þess að efla traust á milli lögreglu og borgaranna er nær einungis rætt um meira vald og meiri ógn af lögreglu.Almennt ber að hræðast ef lögregla hefur of víðtækar heimildir, bæði til vopnaburðar og beitingar vopna, sem og til meðferðar upplýsinga um borgarana. Jónas Kristjánsson hefur áhyggjur af hugsanlegri íslenskri leyniþjónustu og skrifar á vef sinn: Patrick Gray játaði fyrir bandarískri þingnefnd að hafa eytt gögnum til að verja Nixon Bandaríkjaforseta falli. George J. Tenet gerði það sama fyrir George W. Bush forseta, en var frægastur fyrir að segja það vera piece of cake" að finna gereyðingarvopn í Írak. Þetta eru frægustu forstjórar CIA, ágæt dæmi um, að leyniþjónustur fara úr böndum, þótt þær séu vel meintar. Hið sama mun gerast með leyniþjónustu Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra. Hún mun gefa rangar upplýsingar, verða staðin að svínaríi og hafa afskipti af innlendum stjórnmálum, til dæmis með njósnum um stjórnarandstæðinga.Það er mikið til í þessu. Vel má vera að þeir sem undirbúa leyniþjónustu hafi ekkert af þessu í huga, en heimildir til persónunjósna verða til og allsendis óvíst er hverjir fara með heimildirnar næst og hvernig samfélagið verður. Það er ástæða til að óttast. Kannski sýna símahleranir fyrri ára það einmitt. Varist er af krafti til að fela upplýsingarnar. Það mun endurtaka sig ef hér verður leyniþjónusta.Best er að fara varlega. Fyrir ekki svo löngu hefði þótt ótækt að lögregla notaði barefli á drukkna unglinga án þess að það drægi dilk á eftir sér. Í dag er það tekið svo gilt að fyrirvaralaust er talað um að það hafi þurft að beita ofbeldi. Engin gagnrýni, ekkert athugavert. Sama mun væntanlega gerast með leyniþjónustu, hægt og bítandi verður hún fyrirferðarmeiri, meira ógnandi, verri og verri. Vinsamlegast hinkrum við.