29. september 2006
Virkjunarsinnar hafa náð sínu fram. Hálslón er að verða til og í það rennur eyðilegging á hverri sekúndu. Við erum mörg sem vöknuðum of seint, gerðum okkur ekki grein fyrir hversu tröllslegar framkvæmdirnar voru fyrr en um seinan. Í upphafi voru fáir mótmælendur sem stóðu með spjöld en sögðu fátt. Leikurinn hefur æst, fleiri hafa bæst við og þunginn er mikill. En sennilegast er allt um seinan. Hálslón fyllist, landið breytir um svip og rafmagn mun flæða í fabrikkuna á Reyðarfirði. Einhverjir verða ríkir, en það verður ekki allt. Áhrifin verða mikil.Þessi mesta framkvæmd Íslandssögunnar mun halda uppi minningu þeirra sem mest börðust til að allt þetta yrði að veruleika og líka þeirra sem mest hafa lagst gegn framkvæmdunum. Trúlega munu komandi kynslóðir minnast andstæðinga virkjunarinnar af meiri lotningu en þeirra sem vildu virkja. Það segir talsvert um þjóð að hún skuli ekki eiga annars úrkosti til að verða ríkari, en að leggja jafn mikið undir og raun er á.Ekki er laust við að efast verði um framsýni þeirra stjórnmálamanna sem mest áhrif höfðu á að virkjunin og álverið verða að veruleika.Aðrir atvinnuvegir hafa liðið fyrir skekkjuna sem varð í efnahag þjóðarinnar, ekkert hefur gengið eftir af þeim vætningum sem voru um atvinnu fyrir Íslendinga við gerð virkjunarinnar og álversins. Og Hagstofan segir Íslendingum fækka á Austurlandi. Vissulega mun þjóðin fá tekjur af álverinu í langan tíma, en það eitt getur ekki lengur réttlætt allt sem gert hefur verið. Þau rök dugðu áður fyrr, rétt einsog áður viðgekkst að mengun væri urðuð í jörðu og altalað var að lengi tæki sjórinn við og í hann var settur allur fjandinn. Nú eru aðrar kröfur og þær munu meðal annars verða til þess að aldrei aftur verður leitað lausna til að bæta fjárhag þjóðarinnar eða einstakra byggða með öðru eins og gert var á Kárahnjúkum.Með afli þeirra sem hafa frá upphafi mótmælt virkjuninni og því afli sem því fólki hefur bæst á leiðinni hefur orðið til stífla, stífla sem stjórnmálamenn framtíðarinnar komast ekki yfir. Aldrei aftur skal verða gripið til eins róttækra aðgerða til reddingar, ekki til að bæta þjóðarhag, ekki til að bæta hag einstakra sveitarfélaga og ekki til að auka fylgi stjórnmálaflokka, jafnvel þó ömurlega standi á hjá þeim.Það sem lærist af því sem gert hefur verið verður vonandi að hér eftir verði farið hægar, gert minna og litið meir til framtíðar. Fari svo að andmælin nú komi í veg fyrir fleiri svo stórtækar aðgerðir má segja að stríðið vinnist en orrustan hafi tapast. Fórnarkostnaður verður mikill en hugsanlega verður ávinningur fyrir aðrar perlur í náttúru Íslands einnig mikill. Þeir sem njóta munu mest í efnalegu tilliti af tröllslegum framkvæmdum á Austurlandi geta ekki látið einsog tugþúsundir Íslendinga hafi ekkert um málið að segja, að þeim komi þetta ekkert við.28. september 2006
Þau tímamót hafa orðið að varnir Íslands eru óþekktar. Áður gátum við deilt um nauðsyn þeirra varna sem voru, en ekki lengur. Aðeins tveir Íslendingar eru sagðir vita hvaða varnir eru til staðar eftir að bandaríski herinn fór héðan, að mestu. Hann er ekki farinn að fullu, heldur eftir landspildu í Grindavík og hefur áskilið sér rétt til að koma hingað endrum og sinnum til æfinga. Og herinn fékk sínu framgengt.Það er ekki beint notalegt tilhugsunar að framundan er samstarf íslensku löggunnar og bandaríska hersins, jafnvel svo náið að af og til verði skipst á mönnum. Bandaríkjaher hefur ekki það orðspor að hann sé endilega heppilegur félagsskapur. Herinn hefur stundað miklar símahleranir án dómsúrskurða og starfrækir vond fangelsi, svo sem Abu Ghraib og Guantanamo. Um mestallan heim óttast fólk bandaríska herinn og með fullri virðingu fyrir íslensku löggunni er þessi her sennilegast ekki sá félagsskapur sem við viljum að löggan okkar sæki í.Það er eðlilegt að Íslendingum standi ekki á sama. Ef leita verður samstarfs við aðrar þjóðir er mýkri ásýnd og vinalegri víðast annars staðar. Þegar þarf að endurgera varnir landsins, bæði hvað varðar hernað og ekki síður aðgengi að landinu í flughöfnum og við strendur landsins, er ekkert eðlilegra en að almenningur efist um framferði stjórnmálamanna og embættismanna. Nýleg dæmi um persónunjósnir fyrri ára kalla á að heimildir til handa yfirvöldum á hverjum tíma verða að vera þröngar og tryggja verður að ekki sé mögulegt að misnota þær heimildir. Það er ekkert að því að efast um heilindi þeirra sem munu fara með heimildir til að fylgjast með náunganum. Og það er enn frekar ástæða til að hafa áhyggjur ef lærimeistarar íslenskrar leyniþjónustu koma frá þeim her sem nýverið var tekinn í bólinu fyrir að hafa stundað meiri persónunjósnir en áður þekktust, og allt án þess að hafa dómsúrskurði til verkanna.Við verðum að fara varlega á þessum tímamótum. Það er vandaverk að spila úr þannig að traust haldist og ekki verði ástæða til frekari efasemda. Um árabil hefur hluti þjóðarinnar ekki borið traust til lögreglu og saksóknara og nýverið bættist Davíð Oddsson við, og bætti reyndar um betur og sagði dómskerfinu hér svo ábótavant að það ráði aðeins við gæsluvarðhaldsúrskurði og sjoppurán. Meðan sá maður sem mest völd hefur haft hér í áraraðir talar þannig er eðlilegt að aðrir Íslendingar hafi efasemdir. Þess vegna er mikil ábyrgð lögð á stjórnvöld að fara varlega í að breyta lögum á þá leið að leiðir hins opinbera, hvaða nafni sem það nefnist, verði þannig að persónunjósnir verði stundaðar hér. Uppljóstranir um áratuga eftirlit með einstaka þegnum eiga það sameiginlegt, að aldrei var ástæða til aðgerða, hvorki til að handtaka menn eða ákæra. Leyniþjónustan var rekin áfram af þrjósku og án nokkurs árangurs. Það er saga sem ekki má endurtaka.26. september 2006
Forsætisráðherra þjóðarinnar, Geir H. Haarde, hefur tekið upp nýja og áður óþekkta siði í samskiptum við fjölmiðla. Þjóðsögur segja reyndar að ámóta viðhorf hafi verið meðal ráðamanna um og eftir miðja síðustu öld. Forsætisráðherrann núverandi veitir helst ekki viðtöl nema vita nákvæmlega um hvað verður spurt og hvernig. Hann gengst jafnvel undir að hafa viðtal við fjölmiðlamenn með þeim skilyrðum að einungis verði spurt um það sem hann hefur samþykkt og ekki um annað. Undir þetta gangast íslenskir fjölmiðlamenn, hver af öðrum. Því miður.Reyndar hafa samskipti fjölmiðla og stjórnmálamanna tekið miklum breytingum á löngum tíma ríkisstjórna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Áður var aðgengi að æðstu embættismönnum allt annað og betra. Þegar Steingrímur Hermannsson var forsætisráðherra var Steingrímur skráður í símaskrá, rétt einsog flestir þeir sem höfðu síma. Ef ég man rétt var heimasími Steingríms á þeim tíma 41809. Ráðamenn síðustu ára hafa almennt fært sig fjær fjölmiðlum, þó hafa margir þeirra gefið kost á viðtölum, ýmist á vettvangi, á blaðamannafundum og einkum að loknum ríkisstjórnarfundum, þó þeir séu ekki viljugir til að virða óskir fjölmiðlamanna og svari helst ekki skilaboðum.Geir H. Haarde hefur tekið upp nýja siði. Almennir fjölmiðlar ná undantekningarlítið ekki sambandi við ráðherrann. Síðast þegar Blaðið freistaði þess að ná tali af forsætisráðherra var blaðamaður í stjórnarráðinu að loknum ríkisstjórnarfundi og óskaði eftir samtali við ráðherrann. Úr varð að aðstoðarkona ráðherrans spurði við hverju blaðamaður vildi fá svör, sneri inn til fundar og kom út aftur með afsvör. Spurningarnar voru þess efnis að forsætisráðherra vildi ekki svara. Hann beitti ritskoðun, hann hafnaði að eiga samskipti við fjölmiðil sem fjallaði um mál sem var ráðherranum ekki þóknanlegt þá stundina. Í þessu tilfelli þyrsti blaðamanninn í að fá svör við því hvort forsætisráðherra gæti svarað hverjar varnir Íslands væru nú eftir þær breytingar sem orðið hafa á háttum Bandaríkjahers á Miðnesheiði. Flóknara var það ekki.Á sama tíma og ráðherra leyfir sér að reyna að stjórna því hvað sé í fréttum og hvað ekki segir Baldur Þórhallsson prófessor frá því að hann hafi sætt hótunum vegna starfa sinna, eða öllu heldur vegna þess að einstaka stjórnmálamönnum hefur ekki líkað niðurstöður úr rannsóknum fræðimannsins og þess vegna hafi hann verið varaður við. Ekki eru það bara munnmæli, því Baldur á bréf frá háttsettum embættismanni sem spurði hvernig Baldur vogaði sér að fjalla um Ísland og Evrópusambandið og að hann væri kominn út í helmyrkur öfga. Í helgarviðtali við Blaðið sagði Baldur: Ég held líka að margir stjórnmálamenn á Íslandi séu haldnir þeim misskilningi að bæði fræðimenn og blaðamenn hafi pólitískan tilgang með öllu sem þeir gera. Það er eðlilegt að stjórnmálamenn hafi pólitísk markmið en það er misskilingur að halda að aðrir hafi það. Þetta eru góð orð og lýsa svo vel því andrúmi sem nú er ráðandi.22. september 2006
Senn líður að því að þing komi saman eftir sumarfrí. Þingmenn eiga enn eftir tvær vikur í eirðarleysi eða til annarrar ráðstöfunar, að eigin vali. Sumir þeirra eru duglegir og þurfa undirbúning áður en þingstörfin hefjast. Aðrir eru það ekki og taka lífinu því rólega þessar tvær vikur sem enn lifa af fríinu, rétt einsog þeir hafa gert í svo margar vikur. Þingið hætti óvenju snemma í vor vegna byggðakosninganna og kom saman í fáa daga að þeim loknum. Þannig hefur sumarfrí þingmanna varað í mánuði.Þingmenn munu eflaust verða á einu máli um að hafa þingstörfin í vetur í styttra lagi. Nýtt þing verður kosið í vor og kosninganna vegna munu þingmenn samþykkja að fara snemma heim, sennilega seint í mars eða snemma í apríl. Með jólaleyfi, páskafríi og öðrum hléum mun þingið starfa í um hálft ár að þessu sinni. Það hefur svo sem oft gerst áður.Við sem ekki eigum sæti á Alþingi veltum fyrir okkur hvað þingmenn aðhafist mánuð eftir mánuð án þess að hafa neinar starfsskyldur. Sumir þeirra hafa haft mörg orð um allskyns undirbúning og að stjórnmálamenn eigi helst aldrei frí; aðrir þingmenn tala bara ekkert um starfið í frítímanum og aðrir hafa játað að ekki sé við margt að vera drjúgan hluta ársins. Löngu er tímabært að færa starfstíma Alþingis að nútímanum. Enn er miðað við sauðburð og réttir. Sú var tíðin að fjöldi bænda sat á þingi; eignaðist bóndi sæmilegt bú var leiðin greið. Hann varð Framsóknarmaður og síðan þingmaður. Þá varð þingið að taka mið af aðstæðum fjölda þingmanna. Þetta hefur gjörbreyst. Í svipinn kemur aðeins einn þingmaður í hugann sem jafnframt er alvöru bóndi, en það er Drífa Hjartardóttir sem ólíkt bændum og þingmönnum fyrri ára er hvorki karl né framsóknarmaður. Ekki er mögulegt að sættast á að þingstörfin taki mið af aðstæðum Drífar einnar, enda ótrúlegt að hún ætlist til þess. Kannski kunna þingmenn því vel að fara í frí snemma vors og mæta aftur snemma vetrar. Sauðburður og sláturtíð hafa hvort eð er lengi ekki skipt máli hjá þingheimi. Þarfir þingmanna virðast bara vera þær að þeir kjósa að vera utan starfsskyldna í langan tíma ár hvert.Prófkjör og aðrar leiðir til að velja frambjóðendur fyrir þingkosningarnar eru framundan. Þá munu margir stíga fram og sækjast eftir þingsetu. Sumir frambjóðendanna vilja láta til sín taka, aðrir ekki, hugsa frekar um þingstarfið sem huggulega vinnu. Lottóið hefur búið til persónu, Lýð Oddsson, sem er fullur iðjuleysis. Hann á að hafa unnið mikið í lottóinu og veit ekki hvað hann á af sér að gera. Stundum minnir hann á þingmann, einkum og sér í lagi þingmann að sumri. Lýður vaknar snemma á morgnana, bara af því að honum þykir svo gott að sofna aftur. Ef hægt væri að kjósa sumarþingmenn og vetrarþingmenn væri Lýður kjörinn.21. september 2006
Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, hefur ákveðið að vera ekki í kjöri til Alþingis næsta vor. Hún ætlar að draga sig út úr stjórnmálunum. Sjálf segir hún best að hætta meðan eftirsjá sé að sér. Ekki skýrði hún hver sæi eftir henni né hvers vegna. Sólveig hefur aldrei risið hátt sem stjórnmálamaður. Bara alls ekki og þess vegna er engin eftirsjá að henni. En best er að hún haldi að svo sé.Það má segja um fleiri sem nú ætla að láta af afskiptum af stjórnmálum eða hafa hætt á liðnum mánuðum. Jóhann Ársælsson er einn þeirra. Hann hefur setið á Alþingi í sextán ár og eftir þetta langan tíma er hann samt ekki þjóðþekktur maður. Svo lítið hefur farið fyrir Jóhanni og hans málstað að þjóðin hefur almennt ekki veitt honum athygli. Þannig að ekki er víst að eftirsjá sé að Jóhanni.Svipað er ástatt um marga aðra þingmenn, frá þeim hefur fátt eftirtektarvert komið og margir þeirra ná aldrei að verða þjóðþekktir, þrátt fyrir að sitja árum saman á Alþingi. Segja má að það sé svo sem ekki endilega rétti mælikvarðinn. Þeir eru ekki endilega bestir sem hæst láta, en samt er sérstakt að gegna veigamiklu embætti í langan tíma án þess að vekja athygli. Staða hins almenna þingmanns er sennilega ekkert sérstök. Verði hann ekki vinsæll í spjallþætti og sé hann ekki þess duglegri að leggja fram mál, spyrjast fyrir og gera annað sem vekur eftirtekt, dagar hann uppi einsog hver annar embættismaður. Án allrar athygli og án þess að honum sé veitt eftirtekt.Sólveig Pétursdóttir náði ekki að spila vel úr þeim spilum sem hún fékk á höndina. Hennar verður minnst sem ráðherrans sem lét innrétta fyrir sig einkasalerni og ráðherrans sem lét gera pappalöggurnar. Vel má vera að Sólveig hafi gert annað og merkara, en sennilega muna það fáir nema hún og hennar nánustu. Olíusvikamál eiginmannsins hefur eflaust skemmt fyrir Sólveigu og ráðið mestu um að hún hafi metið stöðuna þannig að engir möguleikar væru á endurkjöri og frekari þátttöku í stjórnmálum. Það er örugglega rétt mat, hitt er örugglega ekki rétt mat, að eftirsjá sé að Sólveigu. Henni hefur ekki tekist að mynda eftirspurn og þess vegna er engin eftirsjá. Það er heldur engin eftirsjá að Jóhanni Ársælssyni og það var engin eftirsjá að Tómasi Inga Olrich þegar hann var gerður að sendiherra í París. Sama er hægt að segja um marga aðra þingmenn sem hafa látið af störfum. Sumra er saknað, ekki endilega vegna þess hversu miklir þingskörungar þeir hafa verið, heldur vegna einhvers annars. Kannski vegna framkomu, greindar, orðheppni eða vegna annarrar skemmtilegrar framgöngu. Það verður ekki sagt um Sólveigu Pétursdóttur, ekki um Jóhann Ársælsson og ekki um svo marga aðra þingmenn. Að þeim hefur ekki verið nein eftirsjá og engin eftirspurn.