28. ágúst 2006
Valgerður Sverrisdóttir getur ekki annað en hugleitt stöðu sína alvarlega. Það er eitt að hún sé sökuð um að hafa leynt Alþingi mikilvægum gögnum, gögnum sem höfðu mikið að segja þegar meirihluti Alþingis ákvað að ráðist yrði í gerð Kárahnjúkavirkjunar. Hitt er ekki síður alvarlegt að Valgerður sér ekkert að því sem hún gerði, segir þingmenn bara ekkert hafa haft með gögnin að gera, gögn sem fólu í sér varnaðarorð um ágæti stíflugerðarinnar.Það eru gríðarleg ósköp af upplýsingum og sérfræðiálitum sem eru til um þetta mikla mannvirki og þau gögn geta ekki öll komið fyrir Alþingi. Niðurstaðan er sú að það þarf ekki að hafa áhyggjur af þessum atriðum í skýrslu Gríms Björnssonar nema einu atriði og það er atriði sem Alþingi fjallar ekki um, segir Valgerður í Blaðinu í dag. Þingmenn eru sumir hverjir ósáttir við hversu lítið álit Valgerður hefur á þingheimi.Þetta er svo alvarlegt hjá Valgerði að ferill hennar hlýtur að taka breytingum hér með, er jafnvel á enda. Það eru tvennskonar yfirsjónir í sama máli, feluleikurinn með gögnin og svo hitt að tala einsog hún gerir. Ráðherra má aldrei vera svo sjálfumglaður að hann ráði því hvaða gögn Alþingi fær og meti hvað þingheimur fær skilið og hvað þinginu getur gagnast við ákvarðanatöku. Það er svo hrikaleg aðför að þingræðinu að ekki er við það unandi. Þetta var ekki gert í neinu smámáli, Kárahnjúkavirkjun er risavaxið verk og fara verður með málið samkvæmt því.Valgerður var í vondum málum 2002 þegar ákvörðunin var tekin. Framsóknarflokkurinn stóð verulega höllum fæti, ekki síst í kjördæmi Valgerðar. Flokksmaskínan kunni engin ráð önnur en að ganga frá samningum um virkjun og iðjuver. Það var gert í flýti og með þeim ósköpum sem nú eru að koma fram. Flokkurinn átti enga innistæðu, bjó sér í haginn meðal annars með því að fela gagnrýni á stóru fyrirætlanirnar. Nú er komið að öðrum kosningum og að skuldadögum. Hvað nú, Valgerður? Og hvað nú, Framsókn?Stutt er til kosninga og ekki fer Framsókn vel af stað. Formaðurinn hrökklaðist frá, flokksmenn kusu helsta ráðgjafann í hans stað, Valgerður er í nauðvörn og þannig hefur mætti flokksins hefur verið ráðstafað. Valgerður Sverrisdóttir er ekki ein Íslendinga þeirrar skoðunar að Alþingi sé ekki alltaf treystandi. Fullyrðingar á þá leið heyrast víða og oft. En að ráðherrar haldi að hægt sé að skammta þinginu upplýsingar þegar það stendur frammi fyrir eins mikilli ákvörðun og það gerði þegar fallist var á gerð Kárahnjúkavirkjunar er algjörlega galið. Ráðherrann má ekki komast upp um slíkt. Sennilega eru þetta endalokin hjá Valgerði. Kannski hrekst hún heim rétt einsog þeir hinir ráðherrarnir sem frekastir voru.25. ágúst 2006
Prófkjör stjórnmálaflokkanna eru framundan. Þar munu samherjar herja hver á annan og margir bíða ósigra. Það er svo sem allt í lagi. Hitt er annað, að baráttan fyrir þingsætunum mun kosta mikla peninga, peninga sem frambjóðendurnir eiga ekki sjálfir, heldur snapa upp hér og þar. Og í sjálfu sér getur það verið í lagi, en þó ekki, þar sem stjórnmálamenn hafa slegið skjaldborg um sjálfa sig og peningana.Ólíkt stjórnmálamönnum í alvöru ríkjum þurfa þeir íslensku ekki að segja hverjir gefa þeim peninga, hvorki einstaka stjórnmálamenn né stjórnmálaflokkar. Þetta er sérstaða sem íslenskir stjórnmálamenn hafa búið til fyrir sjálfa sig og sem aðrir komast ekki upp með.Vegna þessa háttalags munu kjósendur aldrei fá að vita hvaða fyrirtæki og hvaða einstaklingar munu kosta framadrauma væntanlegra þingmanna og þess vegna verður ómögulegt að benda á ef þau sem ná kjöri munu í störfum sínum launa greiðann. Líklegast er kerfið einsog það er, einmitt vegna þess að ekki þykir heppilegt að fjölmiðlar eða aðrir geti leitað samsvörunar milli gefendanna og þess hvaða afstöðu þingmenn taka í málum sem snerta gefendurna og hagsmuni þeirra. Með því að fela tekjur flokka og gjafir og styrki til flokka og stjórnmálamanna er verið að strá efasemdum, efasemdum sem samtakamáttur stjórnmálamanna ver með krafti. Svo langt er gengið í hagsmunavörslunni að því er haldið fram af krafti að það styrki lýðræðið að mega þegja yfir því hverjir borga styrkina og gefa gjafirnar. Í öðrum löndum dettur fólki bara ekki í hug að bera aðra eins þvælu á borð. Kjósendur eiga ekki að láta þetta viðgangast, heldur krefjast þess að vitað verði hvaðan peningarnir sem kosta stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka koma. Meðan svo er ekki verða kjósendur að efast um starf stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka; meðan svo er verða kjósendur líka að gera ráð fyrir því að ástæðan fyrir því að þeir gefi ekki upp hver borgar kostnaðinn sé sú að það henti engan veginn að gefa það upp; það gæti ekki skaðað lýðræðið en það gæti skaðað gefendur og þiggjendur.Á næstu vikum munu samherjar takast á um hin eftirsóttu þingsæti. Miklu verður til fórnað, bæði af peningum og krafti. Við munum heyra ótal afsakanir og skýringar á fjáraustrinum og allir þeir stjórnmálamenn sem eiga eftir að tjá sig um eigin baráttu munu fullyrða fullum fetum að gjafirnar muni ekki hafa hin minnstu áhrif, engu breyta í huga stjórnmálamanna. Samt mun ekki koma til greina að skýra frá hverjir gefa.Margir þeir sem sækjast eftir endurkjöri á kostnað huldumanna hafa talað fyrir lagasetningu á annað fólk, til dæmis á fjölmiðla. Þá þarf að eignarhaldið að vera gegnsætt og tryggja frelsi fjölmiðlafólks, en á sama tíma þiggja stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar peninga undir borðið, peninga sem hvergi kemur fram hver gefur og hver þiggur.23. ágúst 2006
Það getur ekki verið hátt risið á saksóknaranum í Baugsmálinu eftir að hann varð að játa sig sigraðan með helsta kafla eigin ákæru, kafla sem dómstólar hafa ítrekað vísað á bug, en það tók saksóknarann alltof langan tíma að viðurkenna stöðu sína og gefast upp. Þegar hann gerði það loks varð hann samt að leggjast svo lágt að strá efasemdum um Jón Ásgeir Jóhannesson og hvort hann sé raunverulega sekur eða saklaus af þeirri ákæru sem saksóknarinn er nú neyddur til að viðurkenna að hefur ekkert með refsilög að gera.Hið opinbera hefur rannsakað nóg í Baugsmálinu og hefur gert meira en gott þykir. Eftir alla þá fyrirhöfn og alla þá peninga sem varið hefur verið til málsins er það býsna snautlegt sem eftir stendur og verði saksóknaranum að góðu að berjast með leifarnar af Baugsmálinu í dómsölunum. Verst er að hann getur ekki útkljáð málið einn síns liðs, hann þarf sakborninga og það er verst fyrir þá að þurfa að taka lengur þátt í þessum ótrúlega farsa sem Baugsmálið er.Hvort Baugsmenn hafi tekið lán, flutt inn bíla eða sláttuvélar og svo framvegis er smámál miðað við þörfina á að rannsakað verði hvernig Baugsmálið varð eins stórt og raun ber vitni um og ekki síður hver aðdragandi málsins var og hvers vegna það fékk forgang á flest annað. Frá upphafi hafa fleiri en Baugsmenn fundið að málsmeðferðinni. Dómstólar hafa ítrekað smánað vinnu saksóknaranna beggja og það hlýtur að vera rannsóknarefni hversu lengi málinu var framhaldið, ekki síður en hvers vegna það upphófst.Það er alkunna að upphaf kærunnar á hendur Baugsmönnum er hjá fólki sem síðar hefur ekki komið formlega við sögu málsins. Annað er ómögulegt en að þeir sem hafa verið bornir sökum af hálfu hins opinbera geri allt sem þeir geta til að kanna hvað varð til þess að veik kæra eins manns leiddi til alls þess sem á eftir fylgdi. Það er þörf á að Baugsmálið verði þeim sem fara með hið mikla vald saksóknara minnisvarði um að valdinu fylgir alvara og því verður að beita af varúð og skynsemi.Rannsakendur hafa alla tíð brugðist illa við þegar þeir hafa verið sakaðir um að taka við tilskipunum um framgang Baugsmálsins, en margir hafa sakað lögregluna um að vera undirlægju í málinu. Það er þess vegna óskandi að lögreglan vilji sanna sakleysi sitt og taki þátt í að skýra hvers vegna málið varð að þeim óskapnaði sem raun hefur orðið á.Tilgátur um pólitísk afskipti af Baugsmálinu hafa alltaf verið uppi. Þær verða það þar til annað sannast, þannig er það. Ekki má gleymast að þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, svaraði á þann veg, þegar hann var spurður um hvort pólitík hafi haft áhrif á Baugsmálið, að ef svo væri myndu dómstólar einfaldlega vísa málinu frá. Það hafa þeir gert, ekkert er eftir nema bragðlausar leifar, sem eru nánast níð um þá sem hafa talað fyrir sök í málinu, fórnað ómældum peningum og krafti í mál sem nánast ekkert er og fjöldi manns hefur varað við þeim málalokum sem nú eru orðin að veruleika.23. ágúst 2006
Eftir að hafa varið einum degi með Ómari Ragnarssyni við Kárahnjúka eru nokkrar spurningar uppi. Til dæmis, hvað rekur mann einsog Ómar til að leggja allt það sem hann gerir? Í hvaða tilgangi gerir hann þetta? Og má vera að margt af því sem hann nefnir sé með þeim hætti sem hann segir? Hver er ávinningurinn af virkjuninni? Og er það kannski svo að verið sé að fórna minni hagsmunum fyrir meiri?Ómar Ragnarsson er einstakur maður, það vita allir Íslendingar. En að sjá hann með eigin augum í þessu sérsaka hlutverki er ekki síður merkilegt en það sem hann sýnir. Áhöld eru uppi um hvort er merkilegra, landið sem verður sökkt eða Ómar.Það er merkilegt að ganga um væntanlegan botn á uppistöðulóninu. Vissulega fer þar fallegt land undir vatn, land sem alltof fáir hafa séð, snert eða fundið ilminn af. Einstaklingurinn verður lítill og máttvana í hugsunum sínum þegar hugsaði er til þess sem framundan er. Barátta þeirra sem hafa barist gegn Kárahnjúkavirkjun er merkileg og hún mun sigra, ekki þó á Kárahnjúkum. Andstaðan verður eflaust til þess að hægar verður farið í nánustu framtíð. Það getur bara ekki verið sjálfsagður réttur núlifandi kynslóða að endurtaka hina tröllsegu framkvæmd við Kárahnjúka. Svar þjóðarinnar verður einfalt nei.Aftur að Ómari. Ekki er nokkur í vafa um ást hans á landinu. Ást hans á landinu hefur fangað hann svo mikið að hann fórnar flestu fyrir hugsjónina. Það er einstök upplifun að sjá og vita að hann heldur meira og minna til á hálendinu, sefur þar í gömlum bílskrjóðum og er boðinn og búinn til að kynna fyrir okkur afleiðingar Kárahnjúkavirkjunnar.Ómar er ekki einn um að benda á stórtækar afleiðingar virkjunarinnar. Hann gerir það með kröftugri hætti en flestum öðrum er unnt að gera. Hitt er annað að stjórnmálamenn hafa ráðið ferðinni, þeir ákváðu Kárahnjúkavirkjun, en um leið og þetta er sagt er nokkuð víst að þeim mun ekki veitast eins létt að ráðast í annað eins. Barátta Ómars Ragnarssonar og fleiri sér til þess. Virkjunarsinnar keppast við andstæðinga við að kynna málstað sinn. Eftir að Landsvirkjun bauð ritstjórum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins og Seðlabankastjóra í sérstaka ferð að Kárahnjúkum sendi Ómar opið bréf og bauð nokkrum völdum einstaklingum í kynnisferð. Síðan hefur Landsvirkjun sent boð til þeirra sem ekki fóru í fyrri ferðina, en eru á gestalista Ómars. Landsvirkjun býður ekki allt, þeir sem þiggja verða að borga tuttugu þúsund krónur vegna kosntaðar við flug. Þess vegna þótti þeim sem þetta skrifar ekki annað við hæfi en borga Ómari það sama og Landsvirkjun verður greitt. Vonandi að aðrir geri það líka. Kynnisferðin er að frumkvæði Ómars,en má ekki vera alfarið á hans ábyrgð og á hans kostnað. Það er ekki sanngjarnt.Bloggar | 20.10.2006 | 10:08 (breytt kl. 10:09) | Slóð | Facebook
21. ágúst 2006
Getur verið að flokksþing Framsóknar hafa verið þing um ekkert? Ekkert hafi breyst annað en að Halldór lét af formennsku og við henni tók vildarvinur hans og ráðgjafi í áratugi? Má vera að flokksþingið hafi ekki fært flokkinn eitt fet frá því feni sem hann er í? Má vera að kjarkleysi til breytinga hafi náð völdum af flokksfélögum og að þeir komi frá þinginu í sömu stöðu og þeir komu til þess?Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, var valinn til embættis af Halldóri. Það dylst engum og að flokksþingið lét það yfir sig ganga. Guðni Ágústsson er áfram varaformaður, svo það er engin breyting þar og það er ekki hægt að gera Framsóknarflokknum það til hæfis að tala um stöðu ritara sem alvörupólítiska stöðu. Það skiptir þjóðina bara engu hver gegnir embætti ritara í Framsóknarflokknum. Í forystu Framsóknarflokksins eru tveir karlar, vel á sextugsaldri. Það er sérstaða þeirra meðal stjórnmálaflokka í dag, reyndar lætur nærri að eins sé komið fyrir Frjálslynda flokknum. Aðrir flokkar hafa breidd í sinni forystu.Framsókn er í afleitri stöðu og það veit þjóðin og það vita Framsóknarmenn. Staða þeirra er afleit meðal annars vegna einkavæðingar banka, vegna undirlægjuháttar við Bandaríkjamenn vegna Íraksstríðsins, vegna undirlægjuháttar við Davíð Oddsson vegna fjölmiðlamálsins, vegna stórðiðjustefnu, vegna hryðjuverka gegn náttúrunni og vegna græðgi formannsins fyrrverandi til að verða forsætisráðherra og síðast en ekki síst, vegna hversu illa þeim hefur tekist að flytja mál sitt, verja gjörðir sínar og benda á það sem þeim hefur þó tekist vel með.Kannski átti flokksþingið erfitt val, annar frambjóðandinn til formanns kom úr ráðgjafahirð fyrrverandi formanns, þeirri hirð sem ber mikla ábyrgð á því að æ fleiri kjósa að snúa baki við flokknum og þeirri stefnu sem flokkurinn hefur fylgt. Hinn frambjóðandinn var til dæmis umhverfisráðherra þegar hryðjuverkin gegn náttúrunni voru hvað mest og ber þess vegna mikla ábyrgð. Það þarf kjark til að hafna konu á besta aldri og það þarf kjark til að velja einn af ráðgjöfunum, mann sem er elstur allra til að taka við formennsku í Framsóknarflokknum, aldrei áður hefur flokkurinn valið sér eldri formannn. Það er kjarkleysi að hafa ekki þorað að tala um einkavæðingu, að hafa ekki þorað að tala um Íraksstríðið, að hafa ekki þorað að tala um fjölmiðlaofbeldið, um stóriðjuna og aðförina að náttúrunni. Það eina sem frambjóðendurnir töluðu um og boðuðu breytingar á var að Evrópumálin væru ekki á dagskrá á næstunni. Það er fullyrðing Davíðs Oddssonar og nú Framsóknarflokksins. Þjóðin mun setja Evrópumálin á dagskrá og vel má vera að Framsóknarflokkurinn fylgi þjóðinni ekki, en forræði í Evrópumálunum verður ekki flokkanna, þeir hafa ekki kjarkinn, en þjóðin hefur hann og þjóðin ræðir Evrópumál.