Samheldinn og ákveðinn hópur fólks hefur setið við þá fáu virku daga sem liðnir eru á árinu 2007 með það markmið að endurgera DV, stíga fyrsta skrefið til að hefja elsta dagblað landsins til vegs og virðingar á ný. Á þremur vinnudögum hefur hópnum tekist að gera blað, sem er fyrsta skrefið á langri vegferð, og vonandi hefur tekist að sýna lesendum hvert DV stefnir.
Fyrir rúmum fimmtán árum var DV sennilega mest spennandi fréttafjölmiðillinn á Íslandi. Þá var enn til staðar gagnrýnt hugarfar, andi efasemda um gerðir landsfeðranna og annarra kjörinna fulltrúa þjóðarinnar, þá hafði DV það að markmiði að veita aðhald, að vera stöðugt á vaktinni. Umfram allt var DV alþýðlegt blað sem sinnti neytendamálum og öðrum upplýsingum til hins almenna lesanda.
Síðar breyttist DV og varð mjög pólitískt sem leiddi útgáfu þess í gjaldþrot. Við tók misheppnuð tilraun, DV var gert að götublaði með helstu göllum þess konar fjölmiðla. Þjóðin hafnaði DV og blaðinu hefur verið haldið gangandi síðan, það kemur aðeins út einu sinni í viku. Svo verður í einhvern tíma enn, en ekki lengi. Innan fárra vikna verður DV aftur að dagblaði, en hvers konar dagblaði?
Við sem höfum ráðið okkur til starfa á DV vitum hvað við viljum. Við kappkostum að færa hugann aftur að þeim tíma þegar DV var og hét og ímyndum okkur hvernig það blað væri í dag hefði það fengið að vera í friði, hefði það fengið að þroskast með eðlilegum hætti. Þar ætlum við að byrja. Við tókum ekki þátt í niðurlægingu síðustu ára og viljum ekki fara í þá djúpu dali.
Dagblöðin á Íslandi eru nokkuð einslit, þrjú morgunblöð sem öll virðast hafa það að leiðarljósi að gæta hófs í allri framsetningu. Dreifiblöðin tvö gjalda þess rekstrarforms sem þau lúta, það er að koma óumbeðin inn á heimili margra og þess vegna verða þau að gæta sín í allri framsetningu. Morgunblaðið hefur löngum sett sér skýrar og þröngar reglur um nafnbirtingar dæmdra manna og eins hefur komið fram að einstaka mál lúta annarri fréttastjórn en almennt gerist á því blaði. DV mun skilja sig frá hinum dagblöðunum þremur, ekki vegna þess að DV ætli að vera með dónaskap eða hroka. Frekar vegna þess að DV mun velta við steinum sem hin blöðin gera ekki og eins mun starfsfólkið gæta þess að allar fréttir lúti sömu lögmálum. Engir fá forgang og engir fá afslátt.
DV mun einnig hafa þá sérstöðu, þegar það verður aftur dagblað, að verða prentað snemma að morgni og það gefur blaðinu aukin færi á að vera ferskari en hin blöðin. Það tækifæri er einhugur um að nýta til að hafa blaðið sem ferskast og best þegar það berst lesendum.
Það þarf enginn að óttast DV, DV mun ekki skrapa botn mannlegrar eymdar, DV mun ekki ganga erinda stjórnmálasamtaka eða flokka og DV mun heldur ekki ganga erinda eigenda sinna. DV hefur skýr markmið, þar fer fremst trú og hollusta við lesendur. DV byggir tilveru sína á lesendum og hún styrkist því aðeins að DV standi í ístaðinu gegn öllu áreiti og þóknun við menn og málefni. Til þess erum við tilbúin. Í DV í dag er birt siðaskrá blaðsins og hún gefur tóninn um vinnubrögðin.
Fyrsta tölublað ársins 2007 er vísir að dagblaði.
Þá er fyrsta DV nýs árs, nýtt DV, komið út. Þetta var törn, höfðum í raun aðeins rúma tvo sólarhringa til alls, skrifa og breyta útliti. Frábær hópur fólks sem var tilbúið að vinna mikið og hratt.
Getum betur og gerum betur. Merkilegt verkefni framundan.
Ríkisendurskoðandi hefur skorað á félagsmálaráðherra að stöðvar greiðslur úr almannasjóðum til Byrgisins. Ekkert eftirlit hefur verið með ráðstöfun almannafjár í rekstri Byrgisins. Það er fjarri nógu gott og ráðherra varð við áskorun ríkisendurskoðanda. Ekki verður meira borgað til Byrgisins að óbreyttu.
Áfram er fólk í Byrginu, jafnvel fólk sem á ekki annað verustað. Hver á að taka við vanda þess fólks? Er endilega rétt að stöðva greiðslur, má ekki fylgjast með hvernig þeim er varið, rétt á meðan þar er fólk sem hefur jafnvel engin ráð, fólk sem getur ekki borið ábyrgð á hvernig komið er? Er ekki líka merkilegt að stjórnmálamenn skilji ekki eftirlitsleysi opinbera peninga, sama hvort þeir renna til Byrgisins eða einhverra annarra?
Stjórnmálaflokkarnir hafa til þessa ekki þurft að gera grein fyrir margfalt meiri peningum en runnið hafa til Byrgisins. Það leysir ekki forráðamenn Byrgisins undan ábyrgð, að benda má á annað verra.
Undirbúningur að fyrsta tölublaði DV undir minni ritstjórn hefst í dag. Á næsta ári, það er 2007, verður DV, eða réttara sagt Vísir sem er undanfari DV, 97 ára. Þannig styttist í aldarafmælið. Það er von okkar sem vinnum á DV að áður en að þeim merkum tímamótum kemur verði DV búið að öðlast fyrri reisn.
Verið er að ráða inn nýja blaðamenn og aðra starfsmenn þar sem innan ekki langs tíma verður DV aftur að dagblaði og mun þá keppa af afli við dreifiblöðin, Moggann og Viðskiptablaðið sem þá verður væntanlega orðið að dagblaði, en það blað mun eiga að koma út fimm daga vikunnar, frá þriðjudegi til laugardags og mun helgarblaðið verða nokkuð frábrugðið blöðum virka daga.
Það eru sérstaklega spennandi tímar framundan og ljóst að enginn er banginn þrátt fyrir tröllslega dreifingatilburði tveggja blaða. Hér á DV ríkir trú og sjálfstraust á að vel takist til að færa DV til betri vegar.
Það er hverjum nauðsyn að efast og efast aftur. Kjararáð hækkaði laun æðstu Íslendinganna og lítið sem ekkert hefur verið fjallað um gjörninginn. Alþýðusambandið lagðist yfir málið og komst að þeirri niðurstöðu að um ofrausn sé að ræða. Á vef ASÍ segir þetta meðal annars:
"Það vekur hins vegar bæði furðu og einnig vissar áhyggjur, þegar rökstuðningur Kjararáðs er skoðaður, að ráðið skuli telja það eðlilegt að sérstök krónutöluhækkun fyrir þá lægstlaunuðu, sem samið var um í sumar fyrir þá lægst launuðu eigi að færast nú yfir til kjörinna fulltrúa, dómara og æðstu embættismanna sem prósentuhækkun. Alþýðusamband Íslands ætlast til þess að til framtíðar eigi Kjararáð að taka tillit til slíkra sértækra aðgerða til að hækka lægstu launin án þess að það flæði yfir alla."
Þessa nálgun hefur vantað til þessa og það sem mestu skiptir er það vantar að fjölmiðlar efist, efahyggjan er nauðsyn.