25. október 2006
Jón Magnússon skrifar fína grein í Blaðið í dag. Mikið óskaplega er ég sammála Jóni um að engin dæmi eru um meinta aðför að Birni Bjarnasyni. Svo klikkir Jón út með að Geir H. Haarde hafi stillt málinu upp með þeim hætti að fylgi Björns í prófkjörinu verði mælikvarði á stöðu Geirs meðal flokksmanna.
"Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur kosið að persónugera hagsmuni Sjálfstæðisflokksins í Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra og segir eins og sagði í dægurlagatexta forðum, Það er ekkert upp á hann að klaga. Að því leyti sem ég fæ skilið formann Sjálfstæðisflokksins þá sækja andstæðingar flokksins að Birni Bjarnasyni til að ná höggi á Sjálfstæðisflokkinn og því mikilvægt að mati formannsins að Björn fái góða kosningu til að koma í veg fyrir slíkt níðhögg andstæðinganna. Betri prófkjörsauglýsingu hefur enginn frambjóðandi fyrr eða síðar fengið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Svona áskorun formanns flokksins ætti að öðru jöfnu að tryggja forustumanni íhaldssams flokks eins og Sjálfstæðisflokksins, gamaldags rússneska kosningu. Björn Bjarnason hefur verið forustumaður Sjálfstæðisflokksins til margra ára. Sjálfstæðisfólk þekkir hann og veit fyrir hvað hann stendur. Fólk veit að að hann er gáfaður dugnaðarforkur og hefur verið einn helsti sporgöngumaður Davíðs Oddssonar um árabil. Óþarfi ætti að vera fyrir formann Sjálfstæðisflokksins að gefa jafn þekktum stjórnmálamanni sérstakt siðferðisvottorð. Samt sem áður er það gert og því haldið fram að andstæðingar Sjálfstæðisflokksins hlutist til um andróður gegn honum eftir því sem virðist til að hafa áhrif á prófkjör Sjálfstæðisflokksins. Pólitískir andstæðingar Sjálfstæðisflokksins hafa ekki kosningarétt í prófkjöri Sjálfstæðisfokksins. Þeir hafa almennt ekkert með prófkjörið að gera. Það eru flokksmenn í Sjálfstæðisflokknum og sérstakir stuðningsmenn sem kjósa í prófkjörinu og aðrir ekki. Prófkjörið fer fyrir ofan garð og neðan hjá flestum öðrum en innvígðu og innmúruðu Sjálfstæðisfólki. Í hverju er aðför stjórnmálandstæðinga Björns Bjarnasonar að honum fólgin? Hefur einhver vegið að honum persónulega? Hefur rógsherferð verið sett í gang? Er honum ranglega borið eitthvað á brýn? Ég hef ekki orðið var við að neitt af þessu. Satt best að segja verður þess ekki vart að Björn Bjarnason sigli úfnari pólitískan sjó í viðskiptum við pólitíska andstæðinga Sjálfstæðisflokksins en stjórnmálamenn í hans stöðu gera almennt. Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins eru hvorki að gera né reyna að gera aðför að Birni Bjarnasyni persónulega. Aðförin að honum ef hægt er að nefna það því nafni er gerð af Sjálfstæðisfólki sem vill gera breytingar á forustu flokksins. Klaufaleg viðbrögð Sjálfstæðismanna við ásökunum um símahleranir lögregluyfirvalda hafa fært andstæðingum flokksins ákveðin færi. Í lýðræðisríki er eðlilegt að lýðræðissinnar beiti sér fyrir nauðsynlegum rannsóknum og úttektum á því hvort réttarríkið starfar með eðlilegum hætti. Við eigum rétt á að fá að vita hvernig þessum málum er háttað. Ekkert minna en hlutlæg úttekt aðila sem fólkið í landinu getur treyst á símhlerunum lögregluyfirvalda kemur nú til greina. Eðlileg úttekt og umræða um þessi mál og skipan þeirra í núinu er ekki óvinafagnaður heldur mikilvægur hluti eðlilegrar pólitískrar umræðu í lýðræðiþjóðfélagi. Með yfirlýsingu sinni um Björn Bjarnason verður gengi eða gengisleysi Björns í prófkjörinu mál formannsins. Mikilvægasta niðurstaða prófkjörsins gæti þá orðið sú hvort Sjálfstæðisfólk hlustar yfirleitt á formann sinn og tekur tillit til áskorana hans."
25. október 2006
Einar K. Guðfinnsson steig nokkuð sérstök spor þegar hann ákvað að heimila hvalveiðar að nýju. Í fyrsta lagi er merkilegur aðdragandinn að veiðunum. Ráðherrann ákvað að láta hvalfangarann Kristján Loftsson vita af væntanlegri ákvörðun sinni með þokkalegum fyrirvara svo fangarinn gæti gert allt klárt, bæði til sjós og lands. Sennilega hefur Kristján fengið að vita af ákvörðuninni á undan samstarfsráðherrum Einars sjávarútvegsráðherra. Eins getur það ekki talist merkilegt skref að heimila aðeins veiðar á fáum hvölum og með svo litlu skrefi kalla yfir okkur öll þau óþægindi sem Einar ráðherra hefur gert með ákvörðun sinni. Það sem ráðherrann hefur gert með þessu er að upplýsa hvalfangarann um ætlun sína áður en aðrir fengu að vita hvað til stóð, þora ekki alla leið og heimila aðeins veiðar á fáum dýrum og með þessu hænufeti hefur hann kallað yfir óþægindi sem jafnvel geta skaðað Íslendinga hér og þar um heiminn. Hagsmunirnir af veiðunum eru svo litlir miðað við gusuganginn sem fylgir þeim að betur hefði verið heima setið en af stað farið.Þessar sýndarhvalveiðar hafa ekkert með stolt okkar og ákvörðunarrétt yfir eigin auðlindum að gera. Þær eru púkalegar, vanhugsaðar og þjóna engum. Ef það er eindreginn vilji ráðherrans og ríkisstjórnarinnar að heimila hvalveiðar þá ber að gera það almennilega. Ekki þetta hálfkák sem enginn græðir á. Kannski þorði ráðherrann ekki lengra og ákvað að svo takmarkaðar veiðar, sem raun er á, séu fínn prófsteinn á viðbrögð alþjóðasamfélagsins og með þessu litla skrefi sé hægt að forða okkur til baka, gefa ekki út frekari heimildir í von um fyrirgefningu umheimsins.Aðdragandi ákvörðunarinnar hlýtur að færast í sögubækur fyrir einstaka stjórnsýslu. Hvaða vit er í því að uppfræða þann sem hefur mestan fjárhagslegan ávinning af veiðunum um hvað standi til langt á undan öllum öðrum? Kann að vera að fleiri hefðu viljað nýta sér veiðiheimildirnar en Kristján Loftsson? Er það hægt á okkar tímum að vinna með þeim hætti að opna veiðar úr auðlindinni og gera það í samstarfi við einn útgerðarmann, jafnvel þó hann hafi einn staðið að hvalveiðum á sínum tíma, fyrir um tuttugu árum? Getur ekki verið að fullvinnsluskip hefðu getað stundað veiðar og vinnslu með allt öðrum hætti og nútímalegri en Hvalur hf. gerir á minjasafninu Hval 9?Vegna hlerunarmála er talsvert talað um jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Nær hún ekki út á sjó og getur ráðherra heimilað einum veiðar, og það með löngum fyrirvara, án þess að gefa öðrum kost á að nýta sér sameiginlegar auðlindir okkar?Þeir sem eru hvað mest meðmæltir hvalveiðum eru þess fullvissir að markaðir fyrir hvalkjöt séu til staðar, þó þess sjáist ekki merki enn. Ríkið hefur varið tvö hundrað milljónum króna í áróður fyrir hvalveiðum og ómögulegt er að vita hvort þeir peningar hafi með einhverjum hætti dregið úr þeirri óánægju sem Einar K. Guðfinnsson hefur vakið með ákvörðun sinni. Ákvörðun hans er ekki til þess fallin að efla samstöðu þjóðarinnar gegn erlendum óvinum. Frekar verður hún til að skipta þjóðinni í fylkingar. Það sem er verst er að þeir sem eru meðmæltir hvalveiðum geta ekki hrósað sigri. Til þess er skref ráðherrans of stutt, of púkalegt.24. október 2006
Í langan tíma hefur það verið á vitorði margra innan lögreglunnar í Reykjavík að símar fólks hafa verið hleraðir. Og jafnvel í meira mæli en haldið hefur verið fram. Heimildarmenn Blaðsins fullyrða að svo sé, en ábyrgðarmenn lögreglunnar bera af sér sakir. Það er alsiða við vinnslu afhjúpandi frétta, að heimildarmenn sem oftast eru knúnir áfram af réttlætiskennd, staðfesta mál meðan þeir sem ábyrgðina bera gera allt sem þeir geta til að kæfa mál, til að hrekja blaðamenn af leið eða til að koma með einhverjum hætti í veg fyrir að óþægilegar fréttir rati á prent.Við vinnslu frétta um símahleranir í lögreglustöðinni við Hverfisgötu kom svo margt fram sem kemur á óvart. Þeir sem voru fúsir til að ræða við blaðamenn höfðu frá mörgu að segja. Næturvöktum í símstöðinni, sem köllluð var hótel helvíti, og skráningum á félagsmönnum ýmissa félaga og samtaka. Embættismenn sem rætt var við geta ekki útilokað að enn sé fylgst með fólki sem ekki getur talist til afbrotamanna, svo sem eins og mótmælendum hinna ýmsu mála. Þar voru nefnd Falun Gong og mótmæli vegna Kárahnjúka. Einn þeirra sem starfar við að fylgjast með fólki segir ekki rétt að til séu skrár um félagatöl, segir að það myndi stangast á við lög um persónuvernd, meðan aðrir viðmælendur eru sannfærðir að slíkar skrár séu til og þær uppfærðar reglulega.Ég vann í mörg ár við að hlera í fíkniefnamálum. Við fengum afhentar spólur með samtölum í þeim málum sem við vorum að vinna í. Að samtölunum loknum leyndust alls konar samtöl þar fyrir aftan. Samtöl sem við áttum alls ekki að heyra, segir einn heimildarmanna Blaðsins við vinnslu fréttarinnar. Einn þeirra sem starfaði í dularfulla símaherberginu neitar þessu ákveðið: Ég kannast ekki við þessar frásagnir. Hér er einhver misskilningur á ferðinni, segir hann.Þar sem heimildirnar eru traustar og ásakanir þeirra manna, sem rætt er við, eru alvarlegar verður lögreglan að gera betur en neita málinu í einu handtaki. Það er ákvörðun að birta frétt gegn neitun þeirra sem eiga best að þekkja til. Neitunin má þó aldrei verða til þess að frétt birtist ekki, einungis neitunarinnar vegna. Þá verður fjölmiðill að vega og meta fyrirliggjandi gögn, framkomnar fullyrðingar, þá sem tala eða annað sem styður fréttina. Þegar það hefur verið gert er fyrst hægt að taka ákvörðun um birtingu fréttar. Það er þetta sem ábyrgðarmenn fjölmiðla meta hverju sinni.Hleranir á lögreglustöðinni við Hverfisgötu eru staðreyndir. Fullyrt er að oft hafi verið hlerað án dómsúrskurða, að lögreglan hafi brotið lög. Í allri þeirri umræðu sem verið hefur um hleranir og persónunjósnir er hlerunarstöðin við Hverfisgötu sennilega ekki veigaminnsti þátturinn og hlýtur að verðskulda athygli.22. október 2006
Sá Amadeus í Borgarleikhúsinu í gær. Fannst sýningin fín, leikurinn almennt góður og Hilmir Snær er á sviðinu allan tímann og leikur sannfærandi. Sýningin var svo fín að ég var alveg gáttaður þegar ég kom út að henni lokinni og sá að klukkan var að verða hálf tólf. Sýningin hafði sem sagt staðið í meira en þrjá tíma og allan tímann var ég hugfanginn.
Bloggar | 22.10.2006 | 09:57 (breytt kl. 09:58) | Slóð | Facebook
21. október 2006
Blaðið sagði frá í sínum helstu fréttum að kona var bjargarlaus í Hvalfirði meðan eiginmaðurinn hennar lést af áverkum eftir hörmulegt bílslys. Hún gat ekki hringt eftir hjálp þar sem ekkert símasamband var á slysstaðnum. Blaðið sagði frá fjölskyldu með sjónskert börn sem verður að flytja til annars lands svo börnin fái menntun.
Hin blöðin hafa af sama áhuga sagt frá hvalveiðum og breytingum á friðargæslu íslenskri.
Bloggar | 21.10.2006 | 09:18 (breytt kl. 09:44) | Slóð | Facebook