31. október 2006
Hvorki Samfylkingu né Sjálfstæðisflokki tókst að gera konum eins hátt undir höfði í prófkjörum helgarinnar og körlum. Kannski er ekkert athugavert við að konur fóru almennt halloka í prófkjörunum. Kannski var framboð kvenna ekki nógu gott og kannski gátu kjósendur ekki veitt þeim konum, sem sóttust eftir þingsætum, meiri stuðning en raun varð á. Ef það er svo, þá verður að skoða betur og endurmeta þá aðferð sem er notuð við að velja á framboðslista flokkanna. Það gengur ekki, kosningar eftir kosningar, að slíkur ójöfnuður sé með kynjunum.Hvað sem sagt er þá er staða kvenna í Sjálfstæðisflokki afleit. Flokkurinn hefur nú níu þingmenn í Reykjavík og takist flokknum að halda sínu verða tveir þingmenn af níu í Reykjavík konur og sjö karlar. Það er afleit staða og þess vegna er ómögulegt að taka undir með þeim sem segja stöðu kvenna í Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík viðunandi. Það er verið að blekkja með þannig fullyrðingum. Eina konan sem gegnir þingmennsku í Norðvesturkjördæmi fékk falleinkunn hjá flokkssystkinum sínum í Samfylkingunni og á líkast til enga möguleika á að ná þingsæti. Af þeim tveimur prófkjörum sem hafa verið haldin nú hefur staða kvenna lítið eða ekkert batnað. Það á að vera áhyggjuefni.Sé það svo að almennt séu konur sem sækjast eftir þingsæti eitthvað lakari kostur en þeir karlar sem sækjast eftir sömu sætum þá verður að bregðast við því. Engin rök segja okkur að konur séu almennt og fyrirfram síðri kostur en karlar til að gegna störfum við stjórnsýslu. Ef við gerum ráð fyrir að kjósendur í prófkjörum velji frambjóðendur út frá því sem þeir telja best fyrir flokk og þjóð með þessum árangri þarf að finna aðra leið en prófkjör til að velja á listana. Einsog allt stefnir í nú fer því fjarri að Alþingi spegli þjóðina. Aftur verðum við með þingheim þar sem karlar eru í miklum meirihluta.Forysta stjórnmálaflokkanna hlýtur að hafa áhyggjur af þróuninni. Prófkjörin hafa meðal annars hafnað sitjandi þingmönnum. Björn Bjarnason fékk slæma kosningu, sama er að segja um Pétur Blöndal og Sigurð Kára Kristjánsson og Birgi Ármannsson og auðvitað Samfylkingarkonuna Önnu Kristínu Gunnarsdóttur. Kannski er það jákvæða við prófkjörin að þeir þingmenn sem ekki standa sig nógu vel, að mati kjósenda, fá að vita af því með eftirtektarverðum hætti.Þrátt fyrir að prófkjör geti verið áminning fyrir einstaka þingmenn og jafnvel brottrekstur þá er vandinn stærri og meiri en kostirnir. Þingræðið hefur látið á sjá og það er verk að vinna því virðingu og stöðu á ný. Það verður best gert með því að á þingi sé þverskurður af þjóðinni, ekki aðeins þeir sem nenna og geta barist fyrir sjálfan sig í prófkjörum, það þarf líka þau sem hafa hugsjónir og langanir til að láta til sín taka, láta gott af sér leiða.29. október 2006
Mikið ósköp varð ég undrandi þegar ég las nýtt tímarit þeirra feðga Reynis Traustasonar og Jóns Trausta. Reyndar er varla hægt að tala um lestur, því þegar ég sá mynd af mér þar sem var verið að fjalla um sértakt mál í sögu Fréttablaðsins tók ég að lesa hvað var til umfjöllunar og eftir þann lestur hafði ég fengið nóg. Meira hirði ég ekki um að lesa í blaðinu og ætla að segja hvað það er sem gekk svona fram að mér.
Ísafold er að fjalla um samskipti eigenda og fjölmiðla og þar er rakinn hluti af sögu frá því í júlí í fyrra. Búið var að ákæra í Baugsmálinu og allir fjölmiðlar gerðu allt sem þeir gátu til að komast yfir ákærurnar. Enginn hafði náð árangri. Ég fór í sumarfrí og hafði verið á Jótlandi í nokkra daga þegar einn af meðstjórnendum mínum á Fréttablaðinu hringir til mín og spyr mig í fyrstu hvernig standi á því hann eigi sérstakt erindi við mig. Ég var í akstri svo ég stoppaði bílinn og fékk fréttir að heiman. Meðan ég var í burtu höfðu aðrir stjórnendur Fréttablaðsins gengist inn á samkomulag við Baug, eða þá ákærðu, um birtingu ákæra, skýringa með þeim og viðtöl við Jón Ásgeir Jóhannesson og Jóhannes Jónsson. Það sem meira var að búið var að taka á móti efninu, taka viðtöl við þá feðga og senda þau til yfirlestrar, sem stangaðist algjörlega á við siðaskrá Fréttablaðsins, og aðeins var beðið þess að Baugsmenn gæfu heimild til birtingar. Ég brást reiður við og sagðist koma heim strax til að stöðva samkomulagið, koma í veg fyrir að vandi okkar, vegna þessa, ykist enn. Þá kom í ljós að samskonar samkomulag hafði verið gert við breska blaðið The Guardian. Skilyrði var að Bretarnir réðu hvaða dag efnið birtist og það myndi birtast sama dag í The Guardian og Fréttablaðinu. Þá var mér sagt að Bretarnir hefðu frestað birtingu svo ég gat lokið Danmerkurferðinni og látið málið til mín taka þegar ég kæmi heim. Sem ég og gerði.
Daginn sem ég kom heim boðaði ég meðstjórnendur mína á fund og sagði þeim að ég myndi rjúfa samkomulagið strax. Þeir mótmæltu ekki, ég fékk fund strax með stjórnarformanni Baugs þar sem ég tilkynnti honum að ekkert samkomulag væri lengur milli Baugs og Fréttablaðsins. Ástæðan var einföld og er einföld. Fjölmiðlar semja ekki um fréttir, fjölmiðlar semja ekki um fréttir.
Af tillitsemi við meðstjórnendur mína féllst ég á, illu heilli, að eyða ekki efninu sem var búið að vinna. Sagði þeim að ég myndi ekki snerta það, ekki skoða einn staf fyrr en daginn sem Guardian birti fréttirnar og sagði frá ákærunni. Fréttablaðið var því ekki fyrsti fjölmiðillinn til að birta fréttir af ákærunum og viðbrögðum við þeim. Eðlilegast hefði verið að eyða öllu efninu og sennilega gerði ég mistök að gera það ekki.
Baugsmenn gerðu ekki annað en bjóða efnið með skilyrðum. Það er eitt, hitt er verra og er ófyrirgefanlegt að fjölmiðill þáði efnið.
Vandinn var ekki að baki. Ég lagði áherslu á að fram kæmi í Fréttablaðinu að viðtölin við Jón Ásgeir og Jóhannes hefðu verið lesin yfir. Það kom ekki til greina að fela það, þar sem önnur viðtöl eða annað efni var ekki sent úr húsi til yfirlestrar. Ég leitaði raka til að sannfæra sjálfan mig og fann þau ein að þar sem talað var við ákærða menn í mjög viðkvæmri stöðu var réttlætanlegt að víkja frá siðaskrá blaðsins. Kannski var það ekki rétt og þetta leitar á mig af til, var þetta rétt eða ekki. Ég er ekki viss.
Greinina í Ísafold skrifar Jóhann Hauksson, en hann tók viðtalið við Jóhannes Jónsson, viðtal sem ég setti í geymslu vegna þess hvernig það varð til. Sagan af samskiptum Baugsmanna og Fréttablaðsins segir mér það að Baugsmenn höfðu ágæt rök, Fréttablaðið var víðlesnasta og blað landsins, og er enn, og því ekkert athugavert að leita til þess með mál sem þetta, en það er ekki þar með sagt að fjölmiðill eigi að þiggja efnið. Það gerði Fréttablaðið, það samdi um fréttir. Ég rauf samkomulagið og það gekk eftir, nema að hluta, það sem gekk eftir, var að Fréttablaðið réði sjálft hvenær efnið birtist og hvað af því birtist. Daginn sem Guardian birti fréttina las ég efnið í fyrsta sinn og þá var tekin ákvörðun um með hvaða hætti við birtum þetta. Úr varð að setja efnið á nokkrar síður og ekki veitti af. En það sem mér þótti merkilegast var að Fréttablaðið afþakkaði þar með forskot á aðra íslenska fjölmiðla um birtingartíma, en hafði vissulega minna fyrir efnisvinnslu þennan dag en t.d. Morgunblaðið.
Mér var legið á hálsi að láta sjónarmið ákærðu koma eins skýrt fram í fyrirsögnum og raun var á. Í mörg ár skrifaði ég fréttir af dómsmálum og fréttamat mitt var það eftir lestur ákæranna í Baugsmálinu sumarið 2005 að mikið var að og efasemdir ákærðu væru meira fréttaefni en annað, sem reyndist svo vera hárrétt.
Bloggar | 29.10.2006 | 22:47 (breytt kl. 23:06) | Slóð | Facebook
29. október
Björn Bjarnason fær ekki góða kosningu í prófkjörinu og það er vita vonlaust að reyna að telja okkur trú um að svo sé. Útreið Björns er mesta fréttin í prófskjörsúrslitunum og næst koma svo fínar kosningar Guðfinnu Bjarnasdóttur og Illuga Gunnarssonar. Góð kosning þeirra hlýtur að vera áfelli yfir þingmönnunum sem koma þeim nokkuð langt að baki í stuðningi flokksmanna, hvers vegna fá nýliðar svona langtum betri kosningu en starfandi þingmenn?
Björn fær einungis stuðning þriðjungs þátttakenda í annað sætið, sætið sem hann sóttist fast eftir og fékk stuðning formanns flokksins í þeirri baráttu, og það sem er ekki síður merkilegt er að þriðjungur þeirra sem greiddu atkvæði veittu Birni ekki stuðningi í nokkurt sæti, þannig að þriðjungur flokksmanna í Reykjavík hafnaði Birni ákveðið þrátt fyrir allt sem lagt var undir og hvatningarorð Geirs H. Haarde um að veita Birni stuðning.
Þetta eru merkustu fréttirnar.
Varðandi gengi kvenna, þá eru þær þrjár í tíu efstu sætum og fyrsta konan er í fjórða sæti, önnur í sjöunda og þriðja í tíunda.
Bloggar | 29.10.2006 | 09:23 (breytt kl. 09:25) | Slóð | Facebook
26. október 2006
Samfélagið færir sumum þegnum sínum mikið vald. Ráðherrar hafa vald, stundum Alþingi, dómstólar og svo lögreglur ýmiskonar. Sama er að segja um ákærendur. Sumt af þessu valdi er öflugt og það er mikils virði að þeir sem er treyst fyrir því fari varlega með það. Ill eða röng meðferð á valdi er ofbeldi gegn þeim sem henni sæta. Þess vegna er brýnt að þeir einir fái vald sem geta beitt því af varúð og réttlæti.Athugasemdir Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs, vegna erindis ríkislögreglustjóra til lögreglunnar í Lúxemborg er eftirtektarverðar. Hafi Jón Ásgeir rétt fyrir sér er komin upp alvarleg staða. Þá skiptir engu hvaða skoðun hvert og eitt okkar hefur á Jóni Ásgeiri, Baugsmálinu, ríkislögreglsutjóra, dómurum eða hverju sem er. Það er ekki heppilegt að í krafti valds sé leitað til lögreglu í öðrum löndum og beðið um aðstoð á fölskum forsendum. Við það má ekki una. Þess vegna er ómögulegt að þeir sem framkvæmdu komist upp með það. Þá hafa þeir misbeitt valdi sem við hin treystum þeim til að fara með og þá er aðeins eitt í stöðunni, það er að afturkalla valdið. Fela einhverjum öðrum það. Reyndar er Baugsmálið allt að þróast á þann veg að svipta ætti þá öllu valdi sem mest beittu því í málinu.Lögreglu er falið mikið vald, meðal annars til að fylgjast með okkur hinum, og ráðherrar virðast hafa getað fengið heimildir dómstóla til hlerunar þó rök þeirra fyrir njósnunum hafi verið engin eða verulega veik. Þessum er falið mikið vald og vandmeðfarið. Það er alvarlegt að njósna um annað fólk og þess þá heldur þegar handhafar valdsins eru ráðherrar og lögregla. Venjulegir borgarar mega sín lítils gegn slíku afli. Þess vegna verða kröfurnar á þá sem fara með valdið að vera sérlega miklar og allt sem miður fer í beitingu valdsins verður að teljast til alvarlegra brota og leiða til afturköllunar valdsins.Ríkissaksóknari hefur heimildir til að hefja rannsóknir á málum að eigin frumkvæði. Það hefur hann gert með meint hlerunarmál Jóns Baldvins Hannibalssonar. Kannski má ríkissaksóknari láta frekar til sín taka. Hann gæti til að mynda látið rannsaka upphaf Baugsmálsins, grun og fullyrðingar um ólögmætar hleranir og njósnir lögreglunnar og eflaust fleira og þá hvort rétt sé að lögregla haldi skrár yfir félagsmenn einstakra samtaka og félaga, sem stenst varla lög um persónuvernd, sé rétt að slíkar skrár séu til og þær notaðar í leyniherbergjum í lögreglustöðinni.Hafi Jón Ásgeir rétt fyrir sér og hafi lögreglan borið á hann allt aðrar og meiri sakir en efni stóðu til, til þess að afla gagna erlendis, er ljóst að lögreglan hefur gengið of langt í meðferð valdsins sem við höfum falið henni. Samfélagið getur aldrei sæst á að þeir sem er falið vald beiti því að eigin geðþótta og hirði ekkert um þá sem fyrir verða. Stangist gerðir lögreglu ekki á við lög, réttlætir það samt ekki aðgerðirnar. Valdið er vandmeðfarið.Bloggar | 26.10.2006 | 08:10 (breytt kl. 08:12) | Slóð | Facebook
25. október 2006
Það er rétt sem Pétur Gunnarsson segir á bloggsíðu sinni, Elín Albertsdóttir, fyrrverandi ritstjóri Vikunnarm, hefur verið ráðin til starfa á Blaðinu. Hún byrjar 1. nóvember. Lesendur mun verða varir við störf hennar á næstu dögum. Mikil reynsla Elínar mun styrkja Blaðið.