Færsluflokkur: Bloggar
25. október 2006
Jón Magnússon skrifar fína grein í Blaðið í dag. Mikið óskaplega er ég sammála Jóni um að engin dæmi eru um meinta aðför að Birni Bjarnasyni. Svo klikkir Jón út með að Geir H. Haarde hafi stillt málinu upp með þeim hætti að fylgi Björns í prófkjörinu verði mælikvarði á stöðu Geirs meðal flokksmanna.
"Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur kosið að persónugera hagsmuni Sjálfstæðisflokksins í Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra og segir eins og sagði í dægurlagatexta forðum, Það er ekkert upp á hann að klaga. Að því leyti sem ég fæ skilið formann Sjálfstæðisflokksins þá sækja andstæðingar flokksins að Birni Bjarnasyni til að ná höggi á Sjálfstæðisflokkinn og því mikilvægt að mati formannsins að Björn fái góða kosningu til að koma í veg fyrir slíkt níðhögg andstæðinganna. Betri prófkjörsauglýsingu hefur enginn frambjóðandi fyrr eða síðar fengið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Svona áskorun formanns flokksins ætti að öðru jöfnu að tryggja forustumanni íhaldssams flokks eins og Sjálfstæðisflokksins, gamaldags rússneska kosningu. Björn Bjarnason hefur verið forustumaður Sjálfstæðisflokksins til margra ára. Sjálfstæðisfólk þekkir hann og veit fyrir hvað hann stendur. Fólk veit að að hann er gáfaður dugnaðarforkur og hefur verið einn helsti sporgöngumaður Davíðs Oddssonar um árabil. Óþarfi ætti að vera fyrir formann Sjálfstæðisflokksins að gefa jafn þekktum stjórnmálamanni sérstakt siðferðisvottorð. Samt sem áður er það gert og því haldið fram að andstæðingar Sjálfstæðisflokksins hlutist til um andróður gegn honum eftir því sem virðist til að hafa áhrif á prófkjör Sjálfstæðisflokksins. Pólitískir andstæðingar Sjálfstæðisflokksins hafa ekki kosningarétt í prófkjöri Sjálfstæðisfokksins. Þeir hafa almennt ekkert með prófkjörið að gera. Það eru flokksmenn í Sjálfstæðisflokknum og sérstakir stuðningsmenn sem kjósa í prófkjörinu og aðrir ekki. Prófkjörið fer fyrir ofan garð og neðan hjá flestum öðrum en innvígðu og innmúruðu Sjálfstæðisfólki. Í hverju er aðför stjórnmálandstæðinga Björns Bjarnasonar að honum fólgin? Hefur einhver vegið að honum persónulega? Hefur rógsherferð verið sett í gang? Er honum ranglega borið eitthvað á brýn? Ég hef ekki orðið var við að neitt af þessu. Satt best að segja verður þess ekki vart að Björn Bjarnason sigli úfnari pólitískan sjó í viðskiptum við pólitíska andstæðinga Sjálfstæðisflokksins en stjórnmálamenn í hans stöðu gera almennt. Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins eru hvorki að gera né reyna að gera aðför að Birni Bjarnasyni persónulega. Aðförin að honum ef hægt er að nefna það því nafni er gerð af Sjálfstæðisfólki sem vill gera breytingar á forustu flokksins. Klaufaleg viðbrögð Sjálfstæðismanna við ásökunum um símahleranir lögregluyfirvalda hafa fært andstæðingum flokksins ákveðin færi. Í lýðræðisríki er eðlilegt að lýðræðissinnar beiti sér fyrir nauðsynlegum rannsóknum og úttektum á því hvort réttarríkið starfar með eðlilegum hætti. Við eigum rétt á að fá að vita hvernig þessum málum er háttað. Ekkert minna en hlutlæg úttekt aðila sem fólkið í landinu getur treyst á símhlerunum lögregluyfirvalda kemur nú til greina. Eðlileg úttekt og umræða um þessi mál og skipan þeirra í núinu er ekki óvinafagnaður heldur mikilvægur hluti eðlilegrar pólitískrar umræðu í lýðræðiþjóðfélagi. Með yfirlýsingu sinni um Björn Bjarnason verður gengi eða gengisleysi Björns í prófkjörinu mál formannsins. Mikilvægasta niðurstaða prófkjörsins gæti þá orðið sú hvort Sjálfstæðisfólk hlustar yfirleitt á formann sinn og tekur tillit til áskorana hans."
25. október 2006
Einar K. Guðfinnsson steig nokkuð sérstök spor þegar hann ákvað að heimila hvalveiðar að nýju. Í fyrsta lagi er merkilegur aðdragandinn að veiðunum. Ráðherrann ákvað að láta hvalfangarann Kristján Loftsson vita af væntanlegri ákvörðun sinni með þokkalegum fyrirvara svo fangarinn gæti gert allt klárt, bæði til sjós og lands. Sennilega hefur Kristján fengið að vita af ákvörðuninni á undan samstarfsráðherrum Einars sjávarútvegsráðherra. Eins getur það ekki talist merkilegt skref að heimila aðeins veiðar á fáum hvölum og með svo litlu skrefi kalla yfir okkur öll þau óþægindi sem Einar ráðherra hefur gert með ákvörðun sinni. Það sem ráðherrann hefur gert með þessu er að upplýsa hvalfangarann um ætlun sína áður en aðrir fengu að vita hvað til stóð, þora ekki alla leið og heimila aðeins veiðar á fáum dýrum og með þessu hænufeti hefur hann kallað yfir óþægindi sem jafnvel geta skaðað Íslendinga hér og þar um heiminn. Hagsmunirnir af veiðunum eru svo litlir miðað við gusuganginn sem fylgir þeim að betur hefði verið heima setið en af stað farið.Þessar sýndarhvalveiðar hafa ekkert með stolt okkar og ákvörðunarrétt yfir eigin auðlindum að gera. Þær eru púkalegar, vanhugsaðar og þjóna engum. Ef það er eindreginn vilji ráðherrans og ríkisstjórnarinnar að heimila hvalveiðar þá ber að gera það almennilega. Ekki þetta hálfkák sem enginn græðir á. Kannski þorði ráðherrann ekki lengra og ákvað að svo takmarkaðar veiðar, sem raun er á, séu fínn prófsteinn á viðbrögð alþjóðasamfélagsins og með þessu litla skrefi sé hægt að forða okkur til baka, gefa ekki út frekari heimildir í von um fyrirgefningu umheimsins.Aðdragandi ákvörðunarinnar hlýtur að færast í sögubækur fyrir einstaka stjórnsýslu. Hvaða vit er í því að uppfræða þann sem hefur mestan fjárhagslegan ávinning af veiðunum um hvað standi til langt á undan öllum öðrum? Kann að vera að fleiri hefðu viljað nýta sér veiðiheimildirnar en Kristján Loftsson? Er það hægt á okkar tímum að vinna með þeim hætti að opna veiðar úr auðlindinni og gera það í samstarfi við einn útgerðarmann, jafnvel þó hann hafi einn staðið að hvalveiðum á sínum tíma, fyrir um tuttugu árum? Getur ekki verið að fullvinnsluskip hefðu getað stundað veiðar og vinnslu með allt öðrum hætti og nútímalegri en Hvalur hf. gerir á minjasafninu Hval 9?Vegna hlerunarmála er talsvert talað um jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Nær hún ekki út á sjó og getur ráðherra heimilað einum veiðar, og það með löngum fyrirvara, án þess að gefa öðrum kost á að nýta sér sameiginlegar auðlindir okkar?Þeir sem eru hvað mest meðmæltir hvalveiðum eru þess fullvissir að markaðir fyrir hvalkjöt séu til staðar, þó þess sjáist ekki merki enn. Ríkið hefur varið tvö hundrað milljónum króna í áróður fyrir hvalveiðum og ómögulegt er að vita hvort þeir peningar hafi með einhverjum hætti dregið úr þeirri óánægju sem Einar K. Guðfinnsson hefur vakið með ákvörðun sinni. Ákvörðun hans er ekki til þess fallin að efla samstöðu þjóðarinnar gegn erlendum óvinum. Frekar verður hún til að skipta þjóðinni í fylkingar. Það sem er verst er að þeir sem eru meðmæltir hvalveiðum geta ekki hrósað sigri. Til þess er skref ráðherrans of stutt, of púkalegt.24. október 2006
Í langan tíma hefur það verið á vitorði margra innan lögreglunnar í Reykjavík að símar fólks hafa verið hleraðir. Og jafnvel í meira mæli en haldið hefur verið fram. Heimildarmenn Blaðsins fullyrða að svo sé, en ábyrgðarmenn lögreglunnar bera af sér sakir. Það er alsiða við vinnslu afhjúpandi frétta, að heimildarmenn sem oftast eru knúnir áfram af réttlætiskennd, staðfesta mál meðan þeir sem ábyrgðina bera gera allt sem þeir geta til að kæfa mál, til að hrekja blaðamenn af leið eða til að koma með einhverjum hætti í veg fyrir að óþægilegar fréttir rati á prent.Við vinnslu frétta um símahleranir í lögreglustöðinni við Hverfisgötu kom svo margt fram sem kemur á óvart. Þeir sem voru fúsir til að ræða við blaðamenn höfðu frá mörgu að segja. Næturvöktum í símstöðinni, sem köllluð var hótel helvíti, og skráningum á félagsmönnum ýmissa félaga og samtaka. Embættismenn sem rætt var við geta ekki útilokað að enn sé fylgst með fólki sem ekki getur talist til afbrotamanna, svo sem eins og mótmælendum hinna ýmsu mála. Þar voru nefnd Falun Gong og mótmæli vegna Kárahnjúka. Einn þeirra sem starfar við að fylgjast með fólki segir ekki rétt að til séu skrár um félagatöl, segir að það myndi stangast á við lög um persónuvernd, meðan aðrir viðmælendur eru sannfærðir að slíkar skrár séu til og þær uppfærðar reglulega.Ég vann í mörg ár við að hlera í fíkniefnamálum. Við fengum afhentar spólur með samtölum í þeim málum sem við vorum að vinna í. Að samtölunum loknum leyndust alls konar samtöl þar fyrir aftan. Samtöl sem við áttum alls ekki að heyra, segir einn heimildarmanna Blaðsins við vinnslu fréttarinnar. Einn þeirra sem starfaði í dularfulla símaherberginu neitar þessu ákveðið: Ég kannast ekki við þessar frásagnir. Hér er einhver misskilningur á ferðinni, segir hann.Þar sem heimildirnar eru traustar og ásakanir þeirra manna, sem rætt er við, eru alvarlegar verður lögreglan að gera betur en neita málinu í einu handtaki. Það er ákvörðun að birta frétt gegn neitun þeirra sem eiga best að þekkja til. Neitunin má þó aldrei verða til þess að frétt birtist ekki, einungis neitunarinnar vegna. Þá verður fjölmiðill að vega og meta fyrirliggjandi gögn, framkomnar fullyrðingar, þá sem tala eða annað sem styður fréttina. Þegar það hefur verið gert er fyrst hægt að taka ákvörðun um birtingu fréttar. Það er þetta sem ábyrgðarmenn fjölmiðla meta hverju sinni.Hleranir á lögreglustöðinni við Hverfisgötu eru staðreyndir. Fullyrt er að oft hafi verið hlerað án dómsúrskurða, að lögreglan hafi brotið lög. Í allri þeirri umræðu sem verið hefur um hleranir og persónunjósnir er hlerunarstöðin við Hverfisgötu sennilega ekki veigaminnsti þátturinn og hlýtur að verðskulda athygli.22. október 2006
Sá Amadeus í Borgarleikhúsinu í gær. Fannst sýningin fín, leikurinn almennt góður og Hilmir Snær er á sviðinu allan tímann og leikur sannfærandi. Sýningin var svo fín að ég var alveg gáttaður þegar ég kom út að henni lokinni og sá að klukkan var að verða hálf tólf. Sýningin hafði sem sagt staðið í meira en þrjá tíma og allan tímann var ég hugfanginn.
Bloggar | 22.10.2006 | 09:57 (breytt kl. 09:58) | Slóð | Facebook
21. október 2006
Blaðið sagði frá í sínum helstu fréttum að kona var bjargarlaus í Hvalfirði meðan eiginmaðurinn hennar lést af áverkum eftir hörmulegt bílslys. Hún gat ekki hringt eftir hjálp þar sem ekkert símasamband var á slysstaðnum. Blaðið sagði frá fjölskyldu með sjónskert börn sem verður að flytja til annars lands svo börnin fái menntun.
Hin blöðin hafa af sama áhuga sagt frá hvalveiðum og breytingum á friðargæslu íslenskri.
Bloggar | 21.10.2006 | 09:18 (breytt kl. 09:44) | Slóð | Facebook
20. október 2006
Merkilegt að hugsa til baka og rifja upp kjörtímabilið 1987 til 1991. Þá myndaði Þorsteinn Pálsson ríkisstjórn með Framsóknarflokki og Alþýðuflokki. Formenn þeirra flokka, Steingrímur Hermannsson og Jón Baldvin Hannibalsson, voru augljóslega aldrei sælir í samstarfinu. Steingrímur vakti til að mynda þjóðarathygli þegar hann, þá starfandi utanríkisráðherra, boðaði til almenns stjórnmálafundar þar sem hann sagði ástand efnahagsmála vera í uppnámi, sagði Róm brenna. Enda fór svo að þeir félagar Steingrímur og Jón Baldvin sprengdu ríkisstjórnina, fóru á bakvið forsætisráðherrann og mynduðu nýja ríkisstjórn.Til að það tækist fengu þeir Alþýðubandalagið, undir forystu Ólafs Ragnars Grímssonar, og Borgaraflokkinn í lið með sér. Svavar Gestsson varð ráðherra í nýrri ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar. Fáir þingmenn hafa verið harðari og mælskari í átökum við andstæðinga sína en Svavar. Hann var andstæðingum sínum erfiður. Nú hefur verið upplýst að Streingrímur og Jón Baldvin sprengdu ekki aðeins ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar, heldur gerðu þeir gott betur. Þeir fyrirskipuðu rannsóknir á meintum tengslum Svavars, sem þá var orðinn samráðherra þeirra í nýju ríkisstjórninni, við austurþýsku leyniþjónustuna, Stasi, sem var hrikaleg og vond. Þeir félagarnir fengu engar upplýsingar um landráð eða aðrir sakir Svavars. Ekkert hefur komið fram sem bendir til að Svavar hafi á nokkurn hátt unnið fyrir erlend ríki. Ekki frekar en í öðrum málum fyrri tíma. Allar þær símahleranir og persónunjósnir sem sannarlega voru stundaðar hér eiga það sammerkt að hafa engu skilað, enga sekt sannað og aðeins verið byggðar á ótta ráðandi afla hverju sinni. Rannsóknir að beiðni Steingríms og Jón Baldvins eru svo nærri okkur í tíma að réttast er að byrja á að leiða fram allan sannleika um þær. Er það svo að ráðherrar geti fengið embættismönnum það verk að fara um heiminn og tína saman gögn fyrri ára í von um að þau komi pólitískum andstæðingum illa? Þarf ekki sérstakar heimildir til þannig skítverka, eða geta einstaka ráðherrar fyrirskipað slíkt og látið ríkið borga kostnaðinn án þess að það komi fram í reikningsbókum eða öðrum skrám? Gerist þetta jafnvel enn?Jón Baldvin uppástendur að sími hans hafi verið hleraður meðan hann var utanríkisráðherra. Við verðum að trúa manninum og ganga út frá því sem vísu að hann sé þess fullviss að svo hafi verið. Opinber rannsókn mun væntanlega leiða fram sannleikann í því máli. Við bíðum spennt. Hvers vegna Jón Baldvin gerði ekkert með þessa vitneskju á sínum tíma er annað mál og sérstakt. Þá vissi hann af rannsókinni sem hann fyrirskipaði um meint tengsl Íslendinga, og sérstaklega Svavars Gestssonar, við leyniþjónustu Austur-Þýsklands. Getur verið að það hafi dregið úr vilja Jóns Baldvins á að láta rannsaka hugsanlegar símahleranir fáum árum síðar? Kann að vera, en auðvitað verður þetta allt rannsakað og niðurstöðurnar munu ýmist hreinsa gerendur af ásökunum eða sanna sektir.19. október 2006 Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri Alþýðusambandsins, hefur dregið framboð sitt í prófkjöri Samfylkingarinnar til baka. Þessari ákvörðun Gylfa ber að fagna. Hann hefur veigameira hlutverki að gegna sem framkvæmdastjóri Alþýðusambandsins en sem einn af sextíu og þremur þingmönnum þjóðarinnar. Hjá Alþýðusambandinu hafa verk skipast þannig að Gylfi hefur verið helsti talsmaður þess og eflaust þýðingarmesti starfsmaðurinn.Sennilega hefur aldrei verið meiri þörf en nú á því að Alþýðusambandið verði hafið yfir alla flokkadrætti. Alþýðusambandið hefur tekið algjöra forystu í verðlagseftirliti og framlag þess er stórkostlegt. Vegna væntanlegra leiðréttinga á matarverði er þörfin fyrir verðlagsvakt brýnni nú en nokkru sinni. Þess vegna skiptir allan almenning svo miklu að Alþýðusambandið standi sig í þeirri vinnu sem framundan er og gefi ekki á sér höggstað. Hér á þessum stað var vikið að þessu fyrir fáum dögum. Þá stóð eftirfarandi. Alþýðusambandið hefur staðið sig vel á verðlagsvaktinni síðustu ár. Sá hængur er á að framkvæmdastjóri sambandsins og helsti talsmaður þess er sjálfur í framboði og hann getur ekki gegnt báðum hlutverkum samtímis og fyrir það geldur Alþýðusambandið næstu vikur og næstu mánuði nái framkvæmdastjórinn árangri í prófkjöri. Ekkert hefur komið fram sem bendir til að Alþýðusambandið hyggist bregðast við skertum trúverðugleika. Þetta er alvont þar sem Alþýðusambandið er nauðsynlegur þátttakandi í eftirliti komandi vikna og mánaða.Nú hefur Gylfi Arnbjörnsson stigið til baka og vonandi tekst honum að leiða sinn hóp áfram í krefjandi verkefnum næstu mánaða. Svo miklu skiptir að eftirgjöf ríkisvaldsins skili sér til þeirra sem eiga að njóta ávinningsins, en hverfi ekki til framleiðenda og seljenda. Takist Alþýðusambandinu og öðrum sem málið varðar að gæta þess að ávinningurinn skili sér alla leið verður hagur fjölskyldnanna í landinu svo miklu betri. Verðtryggð lán verða hagstæðari á sama tíma og nauðsynlegustu vörur hvers heimilis, það er maturinn, verða á öðru og betra verði.Það skiptir svo miklu máli að allir leggist á eitt, líka að Gylfi Arnbjörnsson geri það af fullu afli. Það munar um minna. Það eru nægir til að berjast um fá þingsæti, og völd og áhrif einstakra þingmanna eru ekki mikil. Þingræðið hefur stórskaðast og framkvæmdavaldið hefur eflst að sama skapi. Meðan svo er skiptir miklu að þeir Íslendingar utan þings, sem geta haft áhrif á þróun samfélagsins með störfum sínum og áhrifum, standi í ístaðinu og veiti aðhald, ekki bara ríkisstjórninni, heldur einnig atvinnulífinu. Það eru meiri og krefjandi störf sem bíða utan þings en innan.
18. október 2006
Landbúnaðarráðherra hefur kveðið upp dóm, sem verður ekki áfrýjað fyrr en í vor þegar kosið verður til Alþingis. Landbúnaðarráðherra útilokar að mjólkurframleiðendur hagi sér einsog aðrir seljendur vöru og þjónustu verða að gera á okkar dögum. Landbúnaðarráðherra mærir mjólkurframleiðendur og vegna þess hversu góðir menn ráða þar komi ekki til greina að þeir lúti nútímalögmálum.Enda ganga mjólkurframleiðendur á lagið og forstjóri MS segir í Blaðinu í dag að mjólkuriðnaðurinn sé ekki undir samkeppni búinn. Við þurfum nokkurra ára undirbúning. Ég hef verið hér í eitt ár og hef meðal annars verið að búa fyrirtækið undir samkeppni. Áður var ég í sjávarútveginum í 20 ár og þekki þess vegna samkeppni vel, segir Guðbrandur Sigurðsson forstjóri. Hann var að svara athugasemdum Finns Árnasonar forstjóra Haga sem hann viðhafði í Blaðinu í gær.,,Þegar litla mjólkurfyrirtækið Mjólka fór að framleiða fetaost fóru afurðastöðvar að greiða bændum hærra verð fyrir mjólkina og verð á fetaosti lækkaði til neytenda. Það er ljóst hvað samkeppni hefur í för með sér fyrir neytendur, sagði Finnur. Verðlagning á mjólkurvörum er nú opinber með þátttöku BSRB og ASÍ. ,,Annaðhvort ættu fyrirtækin í mjólkuriðnaðinum að vera undir sömu lögum og reglum og önnur fyrirtæki í landinu eða sameinast í eitt sterkt fyrirtæki og takast þá á við erlenda samkeppni, leggur hann áherslu á. Samkvæmt breytingum á búvörulögum frá 2004 er mjólkursamlögum heimilt að hafa með sér verðsamráð, skipta með sér markaði og sameinast án afskipta samkeppnisyfirvalda. Forstjóri MS horfir meira fram á við en ráðherrann og segist gera ráð fyrir að forréttindunum ljúki. ,,Það er mat mitt að við eigum eftir að standa frammi fyrir samkeppni við mjög stóra aðila í framtíðinni.Þegar Samkeppniseftirlitið fann að sérréttindunum var svar ráðherrans hefðbundið, ein eða tvær setningar sem hafa ekki mikið gildi. Hann kaus að segja að Samkeppniseftirlitið hefði brugðið sér í stjórnmál og fannst það bara ekkert fínt, að sett væri út á löggjöf sem hann sjálfur hefur eflaust lagt meira á sig en aðrir til að láta verða að veruleika. Það hefur ekki dregið úr vilja og krafti ráðherrans, þegar hann vildi að mjólkurseljendur lifðu við önnur kjör en aðrir Íslendingar, að forréttindin eru greidd af fólkinu í landinu, ekki af ráðherranum eða ríkisstjórninni og ekki af þeim sem njóta forréttindanna.Vegna fjarlægðar má halda að íslenskur landbúnaður hafi mikið forskot, einkum í mjólkuriðnaði. Nýmjólk og fleiri afurðir eru því marki brennd að ferskleiki skiptir hvað mestu máli og þess vegna er nokkuð víst að ekki stendur til hörð samkeppni í sölu nýmjólkur, frekar í ostum og öðrum þannig vörum. Þess vegna eru hagsmunir seljendanna ekki nærri eins miklir og ef hægt væri að keppa við þá um allar vörur.17. október 2006
Aðeins eru liðnir rúmir þrír mánuðir frá því miklar breytingar voru gerðar á Blaðinu. Útlit þess og innihald var endurskoðað og því nánast gjörbreytt. Fram að þeim tíma hafði Blaðið mælst umtalsvert minna en hin dagblöðin þrjú og margir voru þess fullvissir að útgáfa Blaðsins ætti sér varla framtíð. Nú, fáum vikum eftir breytingarnar sem voru gerðar í byrjun júlí í sumar, er staðan allt önnur. Landslag dagblaða á Íslandi hefur tekið stakkaskiptum. Það sýnir nýjasta könnunin um lestur dagblaða. Ekki er lengur hægt að tala um að eitt dagblað sé minna en önnur.Blaðið hefur sérstöðu frá hinum dagblöðunum tveimur. Það er stefnan að hafa Blaðið alþýðlegt og neytendavænt. Það virðist hafa gengið eftir, allavega er staðreyndin sú að fólk sem ekki las Blaðið áður en því var breytt les það nú alla útgáfudaga. Aukning í lestri Blaðsins er mikil og hún er alls staðar. Hvar sem er á landinu, hjá báðum kynjum og í öllum aldurshópum. Sennilega eru engin dæmi um eins stórt stökk í lestri nokkurs blaðs og hjá Blaðinu frá könnuninni sem gerð var í vor og svo þeirri sem gerð var í september. Mikil og gleðileg vinna fjölda starfsfólks liggur að baki breyttu blaði og það fagnar nú.Eitt af því sem sett var á oddinn við breytingarnar í júlí var að gera Blaðið að kosti fyrir yngri lesendur. Sem dæmi má nefna að í könnun sem gerð var í vor voru lesendur á aldrinum tuttugu til tuttugu og níu ára aðeins um sautján prósent. Nú hefur þeim fjölgað mikið, meira en tvöfaldast og mælist nú rétt innan við fjörutíu prósent. Þessi aukning hlýtur að teljast sérstök, ef ekki einstök.Framundan er mikil vinna við að byggja Blaðið enn frekar upp, auka það að gæðum og lesefni. Þrátt fyrir að Blaðið sé oftast aðgangsharðara en önnur blöð, gangi lengra en þau, á það ekki í útistöðum við neinn og engin klögumál hafa komið upp. Haft er að leiðarljósi að gæta sanngirni og hófsemi án þess að slá af kröfum sem aðgangshörð blaðamennska gerir til upplýsts fréttamiðils. Þessari nálgun hafa lesendur tekið vel og aukið lestur Blaðsins svo eftir er tekið.Blaðið hefur kappkostað að auka umfjöllun um menningu og sérstaklega lesefni fyrir yngri lesendur. Hvort tveggja hefur mælst vel fyrir og niðurstöður síðustu rannsókna sýna að fínar undirtektir eru byggðar á miklum lestri fólks. Vitandi af því eru næstu skref ekki aðeins eitthvað sem þarf að vinna, heldur verk sem tekist verður á við af gleði og vissu. Hefjast verður handa strax og bæta við það sem vel hefur verið gert. Ritstjórn Blaðsins veit hvaða skref á að taka næst og lesendurnir verða þeirra varir strax á næstu vikum. Blaðið mun aukast og eflast. Síðustu rannsóknir eru sem byr í seglin.13. október 2006
Alþýðusambandið, hin svefnsæknu Neytendasamtök, fjölmiðlar, ríkisvaldið og allur almenningur verða að byrja að undirbúa eftirlit með matvælaverði, en breytingar á tollheimtu og skattheimtu ríkisins taka gildi 1. mars. Ekki má bíða stundinni lengur með að hefja undirbúning þess að tryggja að ávinningurinn sem á að koma til almennings með breytingunum skili sér þangað. Uppi er totryggni í garð verslunarmanna og ef þeir vilja verjast henni með sóma eiga þeir að óska þess að vera með í því verðlagseftirliti sem brýnt er að fari af stað strax.Alþýðusambandið hefur staðið sig vel á verðlagsvaktinni síðustu ár. Sá hængur er á að framkvæmdastjóri sambandsins og helsti talsmaður þess er sjálfur í framboði og hann getur ekki gegnt báðum hlutverkum samtímis og fyrir það geldur Alþýðusambandið næstu vikur og næstu mánuði nái framkvæmdastjórinn árangri í prófkjöri. Ekkert hefur komið fram sem bendir til að Alþýðusambandið hyggist bregðast við skertum trúverðugleika. Þetta er alvont þar sem Alþýðusambandið er nauðsynlegur þátttakandi í eftirliti komandi vikna og mánaða.Neytendasamtökin eru annað hvort lífs eða liðin, ef þau eru lífs þá er máttur þeirra lítill og allt annar en var fyrir fáum árum. Það er þörf fyrir öflug samtök neytenda. Talsmaður neytenda er allt annað en frjáls félagsskapur fólks. Ef lítið líf er í Neytendasamtökunum þarf annað hvort að blása lífi í þau eða að neytendur, það er allur almenningur, finni sér annan farveg til að gæta hagsmuna sinna. Þörfin er mikil.Fjölmiðlarnir eru misvel undir það búnir að veita það aðhald sem þarf til að tryggja að upplýsingar um hvernig vöruverð breytist, þegar ríkið slakar á klónum, skili sér til fólks og það geti þá myndað sér skoðanir og tekið afstöðu til þess sem kann að gerast. Hver og einn verður að gera það sem hann getur, það munar svo sem um allt. Ríkisvaldið hlýtur að bera ábyrgð þó það sé ekki fyrsti kostur í vaktskipan almennings. Þar skiptir hver og einn meira máli, það er hvert og eitt okkar. Við, neytendur, verðum að nota það besta sem Alþýðusambandið gerir og Neytendasamtökin og fjölmiðlar til að standa vaktina og gæta þess að ávinningur breytinganna verði okkar, ekki framleiðenda eða seljenda. Það er okkar að kalla eftir að verslunin og framleiðendur taki ekki til sín það sem er ekki þeirra. Það er þeirra og okkar að reka til baka fullyrðingar efasemdafólks um að ekki sé hægt að lækka, eða réttara sagt að leiðrétta matarverð á Íslandi, vegna þess að hér komi vont fólk að, fólk sem tekur til sín það sem því ekki ber. Stöndum vaktina og sjáum til þess að hér verði enn betra að búa eftir 1. mars.