Færsluflokkur: Bloggar
12. október 2006
Björn Bjarnason rær lífróður fyrir áframhaldi í pólitík. Staða hans er erfið, jafnvel afleit. Ráðherrann hefur gert stöðu sína erfiða og eflaust þykir mörgum komið nóg af Birni Bjarnasyni.Það eru ekki nema fimm ár síðan Björn var kallaður fram sem borgarstjóraefni en galt afhroð. Hann hefur lengstum verið í skjóli Davíðs Oddssonar, skjóli sem ekki nýtur lengur við.Björn Bjarnason hefur tekið að sér að vera málsvari persónunjósna og varðveislu hins opinbera á gögnum um skoðanir og orð fólks sem ekkert athugavert fannst við. Björn tekur til varna sem málsvari kuldalegs kerfis og honum rennur blóðið til skyldunnar. Honum finnst hann verða að verja minningu látins föður síns, en hann gegndi embætti dómsmálaráðherra á þeim tíma sem njósnir hins opinbera risu hvað hæst. Það er fallegt af Birni að verja minningu föður síns, en um leið bendir margt til að sú vörn kosti Björn mikið í þeirri baráttu sem hann nú á í til að framlengja pólitískt líf sitt.Það er fleira sem vinnur gegn Birni og sem áður er hann örlagavaldurinn. Baugsmenn hafa sent aðfinnslur við orð og gerðir dómsmálaráðherrans til Mannréttindadómstólsins. Augljóst er að ráðherrann hefur ekki leynt hatri sínu á Baugsmönnum og einkum og sér í lagi þeim fjölmiðlum sem þeir eiga hlut í. Öll þau stóru orð sem Björn hefur viðhaft verða jafnvel skoðuð af erlendum dómstóli og hugsanlega mun Mannréttindadómstóllinn finna að gerðum og orðum ráðherrans.Áður hefur Björn þurft að kyngja áfellisdómi, hann var sagður hafa brotið jafnréttislög. Svar Björns á þeim tíma hjálpar honum ekki, en hann sagði ósköp pent að lögin væru barn síns tíma. Birni hefur tekist að draga upp af sér mynd sem fellur ekki öllum í geð. Hann vildi verða borgarstjóri og var hafnað eftirminnilega, hann hefur skrifað og talað af meiri hörku og óbilgirni um þá sem honum ekki líkar en dæmi eru um í langan tíma. Hann hefur tekið að sér að vera holdgervingur njósna og leyniþjónustu, hann hefur brotið gegn jafnréttislögum og allt þetta og fleira mun reynast honum erfitt á næstu vikum og sennilega verða til þess að hann fái harðan dóm flokksfélaga sinna.Sjálfstæðisflokkurinn er í andlitslyftingu. Þeir sem þóttu harðastir og erfiðastir eru að yfirgefa leikvöllinn hver af öðrum. Þeir leita skjóls, ýmist hjá hinu opinbera eða hverfa af velli í einhvern tíma. Davíð fór í Seðlabankann, Jón Steinar í Hæstarétt, Kjartan er farinn en ekki er vitað hvert og eftir situr Björn og freistar þess að fá að halda áfram. Bakland hans er ekki sterkt í helsta valdakjarna flokksins og varla meðal þeirra yngstu. Þess vegna er ekki fjarri lagi að ætla að Birni Bjarnasyni verði hafnað í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins.10. október 2006
Ríkisstjórnin flutti okkur þegnunum góðar fréttir í gær og við treystum á að staðið verði við fyrirheit um breytingar á matarverði. Þau okkar sem munar hvað mest um hversu mikið matur hefur kostað hér á landi sjá fram á allt annan hag en hingað til. Lækkun matarverðs er stórkostleg kjarabót og sennilega hefði ríkisstjórnin ekki getað gert betur í aðdraganda kosninga. Næst verður þjóðin að andmæla vaxtaokrinu af krafti. Árangur hefur náðst í lækkun matarverðs og það eru ekki endalok baráttunnar um að við fáum að lifa við sambærileg kjör og þær þjóðir sem við viljum vera borin saman við.Mikill léttir er að vita að matarverðið verði leiðrétt. Fátt kemur efnalitlu fólki betur en að verð á helstu nauðsynjum sé sanngjarnt. Sú ákvörðun að breytingarnar taki gildi 1. mars á næsta ári, skömmu fyrir kosningar, kveikir grun um að sú dagsetning hafi verið valin einmitt til að kjósendur verði sem glaðastir þegar þeir ganga að kjörborðinu. Það er aukaatriði, aðalatriðið er að matarverðið verður leiðrétt. Það hversu skammt verður til kosninga þegar verðið á að lækka kemur nánast í veg fyrir að ríkisstjórnin gangi á bak orða sinna.Hliðarverkanir verða eflaust miklar af leiðréttu matarverði, vísitalan mun lækka og ef annað gengur vel þá hefur það áhrif á lánin okkar. Ávinningur almennings verður mikill. Forsætisráðherra sagði fyrir ekki svo löngu að ekki væri unnt að lækka álögur á matvæli þar sem kaupmenn myndu hirða allan ávinninginn. Orðum hans var mótmælt víða og hann hefur greinilega séð að sér, er hættur að gefa sér illan hug fólks sem hefur ekki til þess unnið að um það sé talað einsog ráðherrann gerði. Ómögulegt er að ætla nokkrum það að ekki sé unnt að leiðrétta matarverð vegna þess að lækkunin næði ekki til almennings sökum græðgi fárra. Kannski er ástæðulaust að staldra við fallin orð ráðherrans, heldur horfa til betri tíma, en neytendur mega samt ekki sofna á verðinum. Þeir eru besta eftirlitið með því að boðaðar aðgerðir skili sér til okkar að fullu.Næsta stóra verkefni eru vextirnir. Heyrði til talsmanns KB banka sem skýrði vaxtamun íslenskra viðskiptavina bankans og sænskra með þeim hætti að svona sé þetta bara og verði. Stýrivextir hér á landi eru himinháir, íslenska krónan er örmynt og fleira leggst á eitt. Fjármagn hér dýrara en annars staðar og einstaka bankar segjast ekkert geta gert til að breyta því. Vegna þess hversu íslenska krónan er óstöðug er ekki þorandi fyrir venjulega Íslendinga að taka lán í erlendum gjaldmiðlum. Við þetta búum við og þeir sem mestu ráða segja ekkert hægt að gera til að lækka fjármagnskostnað okkar Íslendinga.Forsætisráðherra sagði fyrir ekki svo löngu að ekki væri unnt að lækka matarskattinn. Hann hefur verið lækkaður og þó sagt sé nú að vaxtamunurinn hjá okkur og öðrum þjóðum sé óbrúanlegur megum við ekki gefast upp. Það er okkar að breyta honum.5. október 2006
Kosningar eru framundan og stjórnmálamenn hafa byrjað undirbúninginn. Forsíður Morgunblaðsins og Fréttablaðsins í gær endurspegluðu þennan raunveruleika. Morgunblaðið sagði stjórnvöld hætt við frestun framkvæmda og Fréttablaðið að matarverð verði lækkað. Þetta hljómar vel, en förum að ráðum landbúnaðarráðherrans og segjum; obbobobb, hinkrum aðeins við. Er ekki einsog þær framkvæmdir sem lofað er að ráðast í hafi áður verið á dagskrá og er ekki rétt munað að þær hafi áður verið settar í bið? Jú, mikil ósköp.Stjórnarflokkarnir hafa völdin og þeir geta lofað einu og öðru þar sem valdið er þeirra. Þeir geta meira að segja lofað aftur því sama og þeir hafa áður gert, einungis sagst ætla að taka til baka það sem þeir áður sögðust ekki ætla að efna af eldri loforðum. Við þetta er erfitt fyrir stjórnandstöðuna að keppa. Það sem hún hefur helst lagt fram er að stefnt skuli að því að allir verði vinir og gangi samstíga til þings og komandi kosningavetrar. Þeir sem mestan áhuga hafa á stjórnmálum segjast heyra að hugur fylgi ekki máli og þvermóðska, pirringur og ósætti hafi þegar tekið yfir fínustu orð um vináttuna.Flestir fjölmiðlar hafa borið að okkur fullfermi af stórum orðum og miklum væntingum stjórnvalda. Þannig verður það á næstu mánuðum og fréttir af þingstörfum í vetur verða þessu marki brenndar. Fjöldi þingmanna tekur þátt í prófkjörum þar sem þeir freista þess að framlengja starf sitt á þingi og þeir þingmenn munu flestir nota sér þau tækifæri sem gefast til að koma sér á framfæri. Vitandi að hægt er að lofa nánast hverju sem er munu þingmennirnir ekki hika við að segja mikið. Hver man til að mynda loforð flokkanna í byggðakosningunum í vor? Fáir.Í trausti þess að kjósendur leggi ekki orð stjórnmálamanna á minnið munu frambjóðendurnir hvergi hika við að segja mikið og lofa miklu. Dæmi um hvernig þetta gengur fyrir sig eru orð forsætisráðherra um að hætt hafi verið við að hætta við áður boðaðar framkvæmdir. Vonandi er að nú verði af endurbótum á vegum, sérstaklega í nágrenni Reykjavíkur þar sem álagið er gríðarlegt, slysin mörg og sá langi tími sem það tekur að ferðast stuttar vegalengdir hlýtur að vera þjóðfélaginu dýr. Sporin hræða og þess vegna ber ekki að fagna strax og ótímabært er að halda að við stóru orðin verði staðið nú, ekkert frekar en síðast og jafnvel þar áður. Varðandi vilyrði um lækkun matarverðs þá vekur það fögnuð. Stjórnarflokkarnir geta ekki beðið með framkvæmdir á því fram yfir kosningar. Þeir eiga þess ekki kost, þjóðin sættir sig ekki við óbreytta stöðu. Það þarf ekki að senda þær fyrirætlanir í umhverfismat, það þarf ekki að hanna þær af verkfræðingum, það þarf ekki að kaupa upp lönd og það þarf ekki að bjóða út framkvæmdirnar. Til að lækka matarverð þarf helst tvennt að koma til, vilji og kjarkur.4. október 2006
Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, sagði í ljósvakaviðtali að mál eiginmanns hennar, Kristins Björnssonar, hefði haft áhrif á að hún hyggst ekki sækjast eftir endurkjöri til Alþingis. Kristinn var einn helsti gerandinn í olíusvikamálinu. Annað sem Sólveig sagði er merkilegt og verður að ná eyrum lögregluyfirvalda og ákæruvalds, en það er sú staðreynd að olíusvikamálið hefur ekki fengið eiginlega afgreiðslu og á meðan verða sakborningar, fjölskyldur þeirra og aðrir sem málið snertir að sæta því að hafa lok málsins yfir sér, án þess að vita hvenær og hvernig málinu lýkur, það er hvort forráðamenn olíufélaganna frá svikatímanum verði sóttir til saka og þá hvernig og hvaða sakir verða hafðar uppi í hugsanlegum refsimálum. Þetta er ekki þolandi, allra vegna. Vegna sakborninganna, vegna fjölskyldna þeirra og okkar hinna vegna, okkar sem erum sannfærð um að illa hafi verið farið með okkur, að á okkur hafi verið brotið, og við viljum að þeir sem bera sakir fái makleg málagjöld.Það er ekki verjandi að hafa mál óútkljáð í áraraðir, síst af öllu mál þar sem fyrir liggur að blekkingum og svikum var beitt til að hafa fé af öllum almenningi í landinu. Þess vegna á allur almenningur óuppgert við það fólk sem fremst fór í þessu mikla svikamáli. Almenningur er ekki dómsvald og getur þess vegna ekki dæmt þá sem sekir eru. Það er hlutverk dómstóla, en þeir geta heldur ekkert gert fyrr en lögregla og ákæruvaldið hafa lokið sínum störfum. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Málið hefur verið alltof lengi í rannsókn og það bitnar á svo mörgum. Ef málalok væru fengin væri andrúmið allt annað, þátttakendur ýmist dæmdir eða sýknaðir og málið tekið frá dómstóli götunnar. Meðan það er þar bitnar það sem fyrr segir á þeim sem ekkert geta gert. Meðal annars á Sólveigu Pétursdóttur sem nánast segir að hún eigi ekki frekari framtíð í stjórnmálum vegna málsins. Það er eina dæmið sem við þekkjum af hliðaráhrifunum, en auðvitað eru þau miklu fleiri.Þegar afbrot er framið er öruggt að fórnarlömb þess verða mörg, þau sem eru svikin eða meidd og aðstandendur glæpamanna verða oftar en ekki þolendur. Svo virðist sem afbrotamenn ýmist geri sér ekki grein fyrir óhamingjunni sem þeir kalla yfir sína nánustu eða að þeim sé bara alveg sama.Enn er bið á að olíusvikamálið verði til lykta leitt. Meðan til þess skipuð yfirvöld ná ekki að ljúka málinu þurfa þolendur þess að búa við óvissu og dómhörku borgaranna. Það er því okkur öllum nauðsynlegt að málinu ljúki og þeir sem sannarlega brutu af sér fái sína dóma og ljúki refsingum og þeir sem eru saklausir verði sýknir saka eða þeim sleppt án eftirmála. Þá mun þjáningum margra linna og þjóðin hættir vonandi að dæma þá sem brutu af sér, og ekki síður ástvini þeirra.3. október 2006
Eitt ár er síðan Fréttablaðið hóf að birta fréttir, sem að mestu voru byggðar á tölvupóstum sem höfðu gengið milli fólks sem kom að aðdraganda Baugsmálsins, og þær fréttir höfðu veruleg áhrif á samfélagið. Í þeim fréttum kom fram að fólk sem ekki var beinn þátttakandi í málinu eða hafði beinna eða sérstakra hagsmuna að gæta hafði setið á fundum og undirbúið kæru til lögreglu. Það er rétt um eitt ár síðan þetta mál skók samfélagið. Flestum er enn í minni allt það sem fylgdi á eftir, svo sem lögbann sýslumanns á gögn blaðamanna, málarekstur Jónínu Benediktsdóttur gegn Fréttablaðinu og ótvíræður sigur vandaðrar blaðamennsku á tveimur dómstigum. Reyndar er ekki að sjá að Fréttablaðið muni þessi tímamót, allavega er þeirra ekki getið í blaðinu.Fjölmiðlum er mikils virði að geta unnið í friði fyrir ofbeldi hins opinbera, sama hver fær valdið í lið með sér, og þess vegna er tölvupóstsmálið og eftirmál þess mikilsvert í sögu nútímafjölmiðlunar. Lögbanni sýslumannsins var hafnað á tveimur dómstigum. Þó Fréttablaðið kjósi að láta sig þessi tímamót engu skipta er ekki sjálfgefið að aðrir geri það. Oft hefur verið sótt að fjölmiðlum og þeim sem þar starfa. Í þessu máli var það gert og upp risu allskyns málsverjendur þeirra sem við sögu komu. Það gáfu sig líka fram málsverjendur sem sögðu ekkert að því að helstu trúnaðarmenn þáverandi forsætisráðherra hafi átt fundi um Baugsmálið nokkru áður en það var kært til lögreglu og það risu upp verjendur sem fannst ekkert merkilegt þótt þáverandi forsætisráðherra hafi verið nefndur sérstaklega og ekki heldur þó núverandi forsætisráðherra og þáverandi fjármálaráðherra hafi einnig komið til tals hjá þeim sem mest og best unnu að því að gera Baugsmálið að opinberu refsimáli.Þrátt fyrir að vönduð og góð blaðamennska hafi farið með sigur af hólmi fyrir dómstólum eimir enn eftir af hinni sérstöku vörn þeirra sem stýrðu aðdraganda kærumálsins, að í tölvupóstsmálunum hafi ekkert sérstakt komið fram. Það er rangt að halda því fram. Einkum og sér í lagi þegar skoðað er hvaða útreið þetta sérstaka mál, það er Baugsmálið sjálft, hefur fengið hjá dómstólum. Málið hefur nánast verið berstrípað fyrir dómstólum og tölvupóstsmálið reyndist þegar upp er staðið vera minnisvarði um getu, kjark og festu fjölmiðils til að halda áfram með gott fréttamál, þrátt fyrir ótrúlegan andbyr og ónot.Í fyllingu tímans mun Baugsmálið verða rannsakað með öðrum hætti en gert hefur verið, það verður gert af opinberum yfirvöldum eða öðrum, og þá mun skýrast betur hvernig var staðið að kærunni sem varð að þessu stóra og sérstaka máli, þá mun skýrast hver aðdragandi Baugsmálsins var og þá munu fleiri staðreyndir um undirbúning málsins verða staðfestar og þær munu hafa áhrif. Þá verður gott að hafa fjölmiðla sem hafa kjark.29. september 2006
Virkjunarsinnar hafa náð sínu fram. Hálslón er að verða til og í það rennur eyðilegging á hverri sekúndu. Við erum mörg sem vöknuðum of seint, gerðum okkur ekki grein fyrir hversu tröllslegar framkvæmdirnar voru fyrr en um seinan. Í upphafi voru fáir mótmælendur sem stóðu með spjöld en sögðu fátt. Leikurinn hefur æst, fleiri hafa bæst við og þunginn er mikill. En sennilegast er allt um seinan. Hálslón fyllist, landið breytir um svip og rafmagn mun flæða í fabrikkuna á Reyðarfirði. Einhverjir verða ríkir, en það verður ekki allt. Áhrifin verða mikil.Þessi mesta framkvæmd Íslandssögunnar mun halda uppi minningu þeirra sem mest börðust til að allt þetta yrði að veruleika og líka þeirra sem mest hafa lagst gegn framkvæmdunum. Trúlega munu komandi kynslóðir minnast andstæðinga virkjunarinnar af meiri lotningu en þeirra sem vildu virkja. Það segir talsvert um þjóð að hún skuli ekki eiga annars úrkosti til að verða ríkari, en að leggja jafn mikið undir og raun er á.Ekki er laust við að efast verði um framsýni þeirra stjórnmálamanna sem mest áhrif höfðu á að virkjunin og álverið verða að veruleika.Aðrir atvinnuvegir hafa liðið fyrir skekkjuna sem varð í efnahag þjóðarinnar, ekkert hefur gengið eftir af þeim vætningum sem voru um atvinnu fyrir Íslendinga við gerð virkjunarinnar og álversins. Og Hagstofan segir Íslendingum fækka á Austurlandi. Vissulega mun þjóðin fá tekjur af álverinu í langan tíma, en það eitt getur ekki lengur réttlætt allt sem gert hefur verið. Þau rök dugðu áður fyrr, rétt einsog áður viðgekkst að mengun væri urðuð í jörðu og altalað var að lengi tæki sjórinn við og í hann var settur allur fjandinn. Nú eru aðrar kröfur og þær munu meðal annars verða til þess að aldrei aftur verður leitað lausna til að bæta fjárhag þjóðarinnar eða einstakra byggða með öðru eins og gert var á Kárahnjúkum.Með afli þeirra sem hafa frá upphafi mótmælt virkjuninni og því afli sem því fólki hefur bæst á leiðinni hefur orðið til stífla, stífla sem stjórnmálamenn framtíðarinnar komast ekki yfir. Aldrei aftur skal verða gripið til eins róttækra aðgerða til reddingar, ekki til að bæta þjóðarhag, ekki til að bæta hag einstakra sveitarfélaga og ekki til að auka fylgi stjórnmálaflokka, jafnvel þó ömurlega standi á hjá þeim.Það sem lærist af því sem gert hefur verið verður vonandi að hér eftir verði farið hægar, gert minna og litið meir til framtíðar. Fari svo að andmælin nú komi í veg fyrir fleiri svo stórtækar aðgerðir má segja að stríðið vinnist en orrustan hafi tapast. Fórnarkostnaður verður mikill en hugsanlega verður ávinningur fyrir aðrar perlur í náttúru Íslands einnig mikill. Þeir sem njóta munu mest í efnalegu tilliti af tröllslegum framkvæmdum á Austurlandi geta ekki látið einsog tugþúsundir Íslendinga hafi ekkert um málið að segja, að þeim komi þetta ekkert við.28. september 2006
Þau tímamót hafa orðið að varnir Íslands eru óþekktar. Áður gátum við deilt um nauðsyn þeirra varna sem voru, en ekki lengur. Aðeins tveir Íslendingar eru sagðir vita hvaða varnir eru til staðar eftir að bandaríski herinn fór héðan, að mestu. Hann er ekki farinn að fullu, heldur eftir landspildu í Grindavík og hefur áskilið sér rétt til að koma hingað endrum og sinnum til æfinga. Og herinn fékk sínu framgengt.Það er ekki beint notalegt tilhugsunar að framundan er samstarf íslensku löggunnar og bandaríska hersins, jafnvel svo náið að af og til verði skipst á mönnum. Bandaríkjaher hefur ekki það orðspor að hann sé endilega heppilegur félagsskapur. Herinn hefur stundað miklar símahleranir án dómsúrskurða og starfrækir vond fangelsi, svo sem Abu Ghraib og Guantanamo. Um mestallan heim óttast fólk bandaríska herinn og með fullri virðingu fyrir íslensku löggunni er þessi her sennilegast ekki sá félagsskapur sem við viljum að löggan okkar sæki í.Það er eðlilegt að Íslendingum standi ekki á sama. Ef leita verður samstarfs við aðrar þjóðir er mýkri ásýnd og vinalegri víðast annars staðar. Þegar þarf að endurgera varnir landsins, bæði hvað varðar hernað og ekki síður aðgengi að landinu í flughöfnum og við strendur landsins, er ekkert eðlilegra en að almenningur efist um framferði stjórnmálamanna og embættismanna. Nýleg dæmi um persónunjósnir fyrri ára kalla á að heimildir til handa yfirvöldum á hverjum tíma verða að vera þröngar og tryggja verður að ekki sé mögulegt að misnota þær heimildir. Það er ekkert að því að efast um heilindi þeirra sem munu fara með heimildir til að fylgjast með náunganum. Og það er enn frekar ástæða til að hafa áhyggjur ef lærimeistarar íslenskrar leyniþjónustu koma frá þeim her sem nýverið var tekinn í bólinu fyrir að hafa stundað meiri persónunjósnir en áður þekktust, og allt án þess að hafa dómsúrskurði til verkanna.Við verðum að fara varlega á þessum tímamótum. Það er vandaverk að spila úr þannig að traust haldist og ekki verði ástæða til frekari efasemda. Um árabil hefur hluti þjóðarinnar ekki borið traust til lögreglu og saksóknara og nýverið bættist Davíð Oddsson við, og bætti reyndar um betur og sagði dómskerfinu hér svo ábótavant að það ráði aðeins við gæsluvarðhaldsúrskurði og sjoppurán. Meðan sá maður sem mest völd hefur haft hér í áraraðir talar þannig er eðlilegt að aðrir Íslendingar hafi efasemdir. Þess vegna er mikil ábyrgð lögð á stjórnvöld að fara varlega í að breyta lögum á þá leið að leiðir hins opinbera, hvaða nafni sem það nefnist, verði þannig að persónunjósnir verði stundaðar hér. Uppljóstranir um áratuga eftirlit með einstaka þegnum eiga það sameiginlegt, að aldrei var ástæða til aðgerða, hvorki til að handtaka menn eða ákæra. Leyniþjónustan var rekin áfram af þrjósku og án nokkurs árangurs. Það er saga sem ekki má endurtaka.26. september 2006
Forsætisráðherra þjóðarinnar, Geir H. Haarde, hefur tekið upp nýja og áður óþekkta siði í samskiptum við fjölmiðla. Þjóðsögur segja reyndar að ámóta viðhorf hafi verið meðal ráðamanna um og eftir miðja síðustu öld. Forsætisráðherrann núverandi veitir helst ekki viðtöl nema vita nákvæmlega um hvað verður spurt og hvernig. Hann gengst jafnvel undir að hafa viðtal við fjölmiðlamenn með þeim skilyrðum að einungis verði spurt um það sem hann hefur samþykkt og ekki um annað. Undir þetta gangast íslenskir fjölmiðlamenn, hver af öðrum. Því miður.Reyndar hafa samskipti fjölmiðla og stjórnmálamanna tekið miklum breytingum á löngum tíma ríkisstjórna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Áður var aðgengi að æðstu embættismönnum allt annað og betra. Þegar Steingrímur Hermannsson var forsætisráðherra var Steingrímur skráður í símaskrá, rétt einsog flestir þeir sem höfðu síma. Ef ég man rétt var heimasími Steingríms á þeim tíma 41809. Ráðamenn síðustu ára hafa almennt fært sig fjær fjölmiðlum, þó hafa margir þeirra gefið kost á viðtölum, ýmist á vettvangi, á blaðamannafundum og einkum að loknum ríkisstjórnarfundum, þó þeir séu ekki viljugir til að virða óskir fjölmiðlamanna og svari helst ekki skilaboðum.Geir H. Haarde hefur tekið upp nýja siði. Almennir fjölmiðlar ná undantekningarlítið ekki sambandi við ráðherrann. Síðast þegar Blaðið freistaði þess að ná tali af forsætisráðherra var blaðamaður í stjórnarráðinu að loknum ríkisstjórnarfundi og óskaði eftir samtali við ráðherrann. Úr varð að aðstoðarkona ráðherrans spurði við hverju blaðamaður vildi fá svör, sneri inn til fundar og kom út aftur með afsvör. Spurningarnar voru þess efnis að forsætisráðherra vildi ekki svara. Hann beitti ritskoðun, hann hafnaði að eiga samskipti við fjölmiðil sem fjallaði um mál sem var ráðherranum ekki þóknanlegt þá stundina. Í þessu tilfelli þyrsti blaðamanninn í að fá svör við því hvort forsætisráðherra gæti svarað hverjar varnir Íslands væru nú eftir þær breytingar sem orðið hafa á háttum Bandaríkjahers á Miðnesheiði. Flóknara var það ekki.Á sama tíma og ráðherra leyfir sér að reyna að stjórna því hvað sé í fréttum og hvað ekki segir Baldur Þórhallsson prófessor frá því að hann hafi sætt hótunum vegna starfa sinna, eða öllu heldur vegna þess að einstaka stjórnmálamönnum hefur ekki líkað niðurstöður úr rannsóknum fræðimannsins og þess vegna hafi hann verið varaður við. Ekki eru það bara munnmæli, því Baldur á bréf frá háttsettum embættismanni sem spurði hvernig Baldur vogaði sér að fjalla um Ísland og Evrópusambandið og að hann væri kominn út í helmyrkur öfga. Í helgarviðtali við Blaðið sagði Baldur: Ég held líka að margir stjórnmálamenn á Íslandi séu haldnir þeim misskilningi að bæði fræðimenn og blaðamenn hafi pólitískan tilgang með öllu sem þeir gera. Það er eðlilegt að stjórnmálamenn hafi pólitísk markmið en það er misskilingur að halda að aðrir hafi það. Þetta eru góð orð og lýsa svo vel því andrúmi sem nú er ráðandi.22. september 2006
Senn líður að því að þing komi saman eftir sumarfrí. Þingmenn eiga enn eftir tvær vikur í eirðarleysi eða til annarrar ráðstöfunar, að eigin vali. Sumir þeirra eru duglegir og þurfa undirbúning áður en þingstörfin hefjast. Aðrir eru það ekki og taka lífinu því rólega þessar tvær vikur sem enn lifa af fríinu, rétt einsog þeir hafa gert í svo margar vikur. Þingið hætti óvenju snemma í vor vegna byggðakosninganna og kom saman í fáa daga að þeim loknum. Þannig hefur sumarfrí þingmanna varað í mánuði.Þingmenn munu eflaust verða á einu máli um að hafa þingstörfin í vetur í styttra lagi. Nýtt þing verður kosið í vor og kosninganna vegna munu þingmenn samþykkja að fara snemma heim, sennilega seint í mars eða snemma í apríl. Með jólaleyfi, páskafríi og öðrum hléum mun þingið starfa í um hálft ár að þessu sinni. Það hefur svo sem oft gerst áður.Við sem ekki eigum sæti á Alþingi veltum fyrir okkur hvað þingmenn aðhafist mánuð eftir mánuð án þess að hafa neinar starfsskyldur. Sumir þeirra hafa haft mörg orð um allskyns undirbúning og að stjórnmálamenn eigi helst aldrei frí; aðrir þingmenn tala bara ekkert um starfið í frítímanum og aðrir hafa játað að ekki sé við margt að vera drjúgan hluta ársins. Löngu er tímabært að færa starfstíma Alþingis að nútímanum. Enn er miðað við sauðburð og réttir. Sú var tíðin að fjöldi bænda sat á þingi; eignaðist bóndi sæmilegt bú var leiðin greið. Hann varð Framsóknarmaður og síðan þingmaður. Þá varð þingið að taka mið af aðstæðum fjölda þingmanna. Þetta hefur gjörbreyst. Í svipinn kemur aðeins einn þingmaður í hugann sem jafnframt er alvöru bóndi, en það er Drífa Hjartardóttir sem ólíkt bændum og þingmönnum fyrri ára er hvorki karl né framsóknarmaður. Ekki er mögulegt að sættast á að þingstörfin taki mið af aðstæðum Drífar einnar, enda ótrúlegt að hún ætlist til þess. Kannski kunna þingmenn því vel að fara í frí snemma vors og mæta aftur snemma vetrar. Sauðburður og sláturtíð hafa hvort eð er lengi ekki skipt máli hjá þingheimi. Þarfir þingmanna virðast bara vera þær að þeir kjósa að vera utan starfsskyldna í langan tíma ár hvert.Prófkjör og aðrar leiðir til að velja frambjóðendur fyrir þingkosningarnar eru framundan. Þá munu margir stíga fram og sækjast eftir þingsetu. Sumir frambjóðendanna vilja láta til sín taka, aðrir ekki, hugsa frekar um þingstarfið sem huggulega vinnu. Lottóið hefur búið til persónu, Lýð Oddsson, sem er fullur iðjuleysis. Hann á að hafa unnið mikið í lottóinu og veit ekki hvað hann á af sér að gera. Stundum minnir hann á þingmann, einkum og sér í lagi þingmann að sumri. Lýður vaknar snemma á morgnana, bara af því að honum þykir svo gott að sofna aftur. Ef hægt væri að kjósa sumarþingmenn og vetrarþingmenn væri Lýður kjörinn.21. september 2006
Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, hefur ákveðið að vera ekki í kjöri til Alþingis næsta vor. Hún ætlar að draga sig út úr stjórnmálunum. Sjálf segir hún best að hætta meðan eftirsjá sé að sér. Ekki skýrði hún hver sæi eftir henni né hvers vegna. Sólveig hefur aldrei risið hátt sem stjórnmálamaður. Bara alls ekki og þess vegna er engin eftirsjá að henni. En best er að hún haldi að svo sé.Það má segja um fleiri sem nú ætla að láta af afskiptum af stjórnmálum eða hafa hætt á liðnum mánuðum. Jóhann Ársælsson er einn þeirra. Hann hefur setið á Alþingi í sextán ár og eftir þetta langan tíma er hann samt ekki þjóðþekktur maður. Svo lítið hefur farið fyrir Jóhanni og hans málstað að þjóðin hefur almennt ekki veitt honum athygli. Þannig að ekki er víst að eftirsjá sé að Jóhanni.Svipað er ástatt um marga aðra þingmenn, frá þeim hefur fátt eftirtektarvert komið og margir þeirra ná aldrei að verða þjóðþekktir, þrátt fyrir að sitja árum saman á Alþingi. Segja má að það sé svo sem ekki endilega rétti mælikvarðinn. Þeir eru ekki endilega bestir sem hæst láta, en samt er sérstakt að gegna veigamiklu embætti í langan tíma án þess að vekja athygli. Staða hins almenna þingmanns er sennilega ekkert sérstök. Verði hann ekki vinsæll í spjallþætti og sé hann ekki þess duglegri að leggja fram mál, spyrjast fyrir og gera annað sem vekur eftirtekt, dagar hann uppi einsog hver annar embættismaður. Án allrar athygli og án þess að honum sé veitt eftirtekt.Sólveig Pétursdóttir náði ekki að spila vel úr þeim spilum sem hún fékk á höndina. Hennar verður minnst sem ráðherrans sem lét innrétta fyrir sig einkasalerni og ráðherrans sem lét gera pappalöggurnar. Vel má vera að Sólveig hafi gert annað og merkara, en sennilega muna það fáir nema hún og hennar nánustu. Olíusvikamál eiginmannsins hefur eflaust skemmt fyrir Sólveigu og ráðið mestu um að hún hafi metið stöðuna þannig að engir möguleikar væru á endurkjöri og frekari þátttöku í stjórnmálum. Það er örugglega rétt mat, hitt er örugglega ekki rétt mat, að eftirsjá sé að Sólveigu. Henni hefur ekki tekist að mynda eftirspurn og þess vegna er engin eftirsjá. Það er heldur engin eftirsjá að Jóhanni Ársælssyni og það var engin eftirsjá að Tómasi Inga Olrich þegar hann var gerður að sendiherra í París. Sama er hægt að segja um marga aðra þingmenn sem hafa látið af störfum. Sumra er saknað, ekki endilega vegna þess hversu miklir þingskörungar þeir hafa verið, heldur vegna einhvers annars. Kannski vegna framkomu, greindar, orðheppni eða vegna annarrar skemmtilegrar framgöngu. Það verður ekki sagt um Sólveigu Pétursdóttur, ekki um Jóhann Ársælsson og ekki um svo marga aðra þingmenn. Að þeim hefur ekki verið nein eftirsjá og engin eftirspurn.