Flatreka á versta tíma

Samfylkingin er flatreka þegar síst skyldi og þegar flokkurinn hefur haft öll tækifæri til að sækja fram, til að styrkjast og til að verða virkilegt afl í íslensku samfélagi. En hvað hefur farið úrskeiðis, hvað hefur orðið til þess að Samfylkinguna rekur stjórnlaust og bjargarvana?
Andstæðingar flokksins hafa alla tíð sótt fast að honum og þeim hefur tekist að búa til þá mynd að ekkert mark sé takandi á Samfylkingunni, hún segi eitt í dag og annað á morgun og jafnvel eigi hún til verri hliðar, þær að ekki sé sama hvaða forystumaður tali hverju sinni. Fullyrt er að Samfylkingin sé sem vindhani. Staksteinar Morgunblaðsins og aðrir nafnleysingjar kölluðu Össur Skarphéðinsson ótt og títt vindhana meðan hann var formaður flokksins. Það var sama hvað Össur reyndi að má af sér stimpil vindhanans og það var sama hvað flokksfélagar lögðu honum mikið lið í þeirri baráttu. Samfylkingunni tókst ekki að má stimpilinn af formanninum og flokknum. Eftir að Össur féll í formannskjöri er hann ekki lengur kallaður vindhani, hann er ágætlega liðinn og vel um hann talað. En ekki flokkinn.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sóttist eftir formennsku og fékk. Hún felldi sitjandi formann nokkuð örugglega. Flokksmenn væntu mikils af henni og töldu bjartari tíma fram undan. Þær væntingar hafa ekki gengið eftir og nú þegar komið er að lokaspretti í kosningabaráttunni er ljóst að Samfylkingin hefur ekki einu sinni farið í þjálfunarbúðir og baráttan verður flokknum erfið.
Andstæðingar Samfylkingarinnar hafa ekkert gefið eftir. Með réttu og með röngu er hún úthrópuð sem sundurlaus hjörð sem ekki sé á byggjandi. Enn og aftur finnur Samfylkingin engar varnir og er flatreka, nýja formanninum tekst jafnvel verr en þeim fyrri að stýra flokknum í skjól undan gagnrýninni og árásunum. Sú er staða Samfylkingarinnar fáum mánuðum fyrir kosningar.
Það sjást brestir í hinum ýmsu stoðum flokksins. Jón Baldvin Hannibalsson sem í langan tíma talaði um Ingibjörgu Sólrúnu sem mestu framtíðarvon íslenskra stjórnmála hefur fengið nóg af vandræðaganginum. Samfylkigin er sökuð um að hafa haft uppi óþarfa og óþolandi málþóf á Alþingi. Samt er það svo að það eru þingmenn vinstri grænna sem tala mest. Stjórnarflokkarnir hafa hins vegar, af einhverjum ástæðum, varist að gagnrýna vinstri græna í líkingu við það sem þeir gera með Samfylkinguna, með þeim árangri að Vinstrihreyfingin - grænt framboð mælist nú sem annar stærsti flokkurinn.
Hugsanlega verður sú staða uppi eftir kosningar að í fyrsta sinn verði hægt að mynda meirihlutastjórn á Alþingi án þátttöku Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, að aðrir flokkar en þessir miklu valdaflokkar geti myndað meirihlutastjórn. Ef svo fer verða úrslit kosninganna söguleg og vissulega spennandi. En til að það gangi eftir verður Samfylkingin að komast úr brimgarðinum og á siglingu. Ábyrgðin er þess flokks og þess fólks sem honum stýrir. Til að það gangi eftir verður forystan að ná áttum. Sú kenning er í stjórnmálum að sá sem er stór og sterkur hefur sjálfstraust og óttast ekki, sá talar ekki mikið, ruggar ekki bátnum, lætur minni flokka og framboð um hamaganginn. Nýjasta útspil formanns Samfylkingarinnar um misnotkun valds stjórnarflokkanna er dæmi um taugaveiklun, ekki vegna þess að það stenst ekki, heldur vegna þess að málflutningurinn var ekki nógu góður, ekki nógu trúverðugur. Það vantaði borðleggjandi dæmi og það vantaði sjálft höggið.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Sigurjón, Þetta er ágæts pistill en mér er bara spurn. Hafa andstæðingar Samfylkingar verið eitthvað verri við hana en hún við þá?
 Held ekki. Finnst stundum eins og Lúðvík Bergvins gerði mest gagn með því að halda sér saman. En það er líka ljóst að stærsta vandamál  SF er þessi "vindhanaháttur" Fólk veit ekki hvers konar flokkur þetta er. Á meðan formaðurinn er að predika Fagra Ísland eru aðrir í flokknum að skipuleggja stóriðju annarssataðar. Hafnafjörður-Húsavík Auk þess sem flokkurinn samþykkti Kárahnjúkavirkjun á Alþingi á sínum tíma. Miðað við þetta þíðir ekkert fyrir Ingibjörgu að breyta ímynd flokksins í einhvern umhverfisflokk. fólk einfaldlega kaupir það ekki auk þess lítur þetta út eins og að flokkurinn sé að skreyta sig með stolnum fjöðrum. VG fjöðrum. Vinstri grænir hafa það fram yfir SF Að þeir hafa alltaf verið sjálfum sér samkvæmir í stóriðjumálum og hvort sem fólk er sammála þeim eða ekki veit það alltént hvar það hefur þá. Þetta virkar þannig að sá sem er umhverfisverndarsinni í hjarta sínu styður Vg  Það eru mörg svona mál sem fylgja Samfylkingunni, hver man t.d. ekki eftir  eftirlaunafrumvarpinu fræga sem Sf ætlaði að styðja en stökk svo frá borði á ögurstundu allir nema Guðmundur Árni. Það eru svona mál sem eru vandamál Samfylkingar. Sigurjón, Þegar þú talar um að mynda ríkisstjórn án Framsóknar og Sjálfsstæðisflokks veistu jafnvel og ég að það er ekki fræðilegur möguleiki. Ef þessi ríkisstjórn fellur verður mynduð stjórn með Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu. Samfylkingin selur sig ódýrt, hún sýndi það best þegar Össur hringdi í Halldór forðum og bauð honum forsætisráðherrastólinn.

Gamall skipsfélagi (IP-tala skráð) 4.2.2007 kl. 10:52

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband