31. október 2006
Hvorki Samfylkingu né Sjálfstæðisflokki tókst að gera konum eins hátt undir höfði í prófkjörum helgarinnar og körlum. Kannski er ekkert athugavert við að konur fóru almennt halloka í prófkjörunum. Kannski var framboð kvenna ekki nógu gott og kannski gátu kjósendur ekki veitt þeim konum, sem sóttust eftir þingsætum, meiri stuðning en raun varð á. Ef það er svo, þá verður að skoða betur og endurmeta þá aðferð sem er notuð við að velja á framboðslista flokkanna. Það gengur ekki, kosningar eftir kosningar, að slíkur ójöfnuður sé með kynjunum.Hvað sem sagt er þá er staða kvenna í Sjálfstæðisflokki afleit. Flokkurinn hefur nú níu þingmenn í Reykjavík og takist flokknum að halda sínu verða tveir þingmenn af níu í Reykjavík konur og sjö karlar. Það er afleit staða og þess vegna er ómögulegt að taka undir með þeim sem segja stöðu kvenna í Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík viðunandi. Það er verið að blekkja með þannig fullyrðingum. Eina konan sem gegnir þingmennsku í Norðvesturkjördæmi fékk falleinkunn hjá flokkssystkinum sínum í Samfylkingunni og á líkast til enga möguleika á að ná þingsæti. Af þeim tveimur prófkjörum sem hafa verið haldin nú hefur staða kvenna lítið eða ekkert batnað. Það á að vera áhyggjuefni.Sé það svo að almennt séu konur sem sækjast eftir þingsæti eitthvað lakari kostur en þeir karlar sem sækjast eftir sömu sætum þá verður að bregðast við því. Engin rök segja okkur að konur séu almennt og fyrirfram síðri kostur en karlar til að gegna störfum við stjórnsýslu. Ef við gerum ráð fyrir að kjósendur í prófkjörum velji frambjóðendur út frá því sem þeir telja best fyrir flokk og þjóð með þessum árangri þarf að finna aðra leið en prófkjör til að velja á listana. Einsog allt stefnir í nú fer því fjarri að Alþingi spegli þjóðina. Aftur verðum við með þingheim þar sem karlar eru í miklum meirihluta.Forysta stjórnmálaflokkanna hlýtur að hafa áhyggjur af þróuninni. Prófkjörin hafa meðal annars hafnað sitjandi þingmönnum. Björn Bjarnason fékk slæma kosningu, sama er að segja um Pétur Blöndal og Sigurð Kára Kristjánsson og Birgi Ármannsson og auðvitað Samfylkingarkonuna Önnu Kristínu Gunnarsdóttur. Kannski er það jákvæða við prófkjörin að þeir þingmenn sem ekki standa sig nógu vel, að mati kjósenda, fá að vita af því með eftirtektarverðum hætti.Þrátt fyrir að prófkjör geti verið áminning fyrir einstaka þingmenn og jafnvel brottrekstur þá er vandinn stærri og meiri en kostirnir. Þingræðið hefur látið á sjá og það er verk að vinna því virðingu og stöðu á ný. Það verður best gert með því að á þingi sé þverskurður af þjóðinni, ekki aðeins þeir sem nenna og geta barist fyrir sjálfan sig í prófkjörum, það þarf líka þau sem hafa hugsjónir og langanir til að láta til sín taka, láta gott af sér leiða.