1. nóvember 2006
Þar sem prófkjör kosta mjög mikið og frambjóðendur hafa úr milljónum að spila er eðlilegt að spyrja, hver borgar? Íslenskir stjórnmálamenn hafa komið sér upp sérstöku kerfi þar sem þeir geta falið fyrir kjósendum hver borgar baráttu þeirra, bæði þingmannsefnanna sjálfra og eins hvernig flokkarnir afla sér tekna, það er annarra en ríkisstyrkja og framlaga flokksfélaga.Öllum er ljóst að einstaka frambjóðendur kosta miklu til, bæði með auglýsingum og skrifstofuhaldi. Lágmarkskrafa er að þingmannsefnin gefi upp hversu mikið baráttan kostar og ekki langt undan er krafan um upplýsingar um greiðendurna. Lýðræðislega kjörnir fulltrúar þjóðarinnar verða að vera hafnir yfir allan vafa um hvort þeir standi í þakkarskuld eða fjárskuldum við greiðendur baráttunnar.Sama á við um stjórnmálaflokkana. Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, var helsti hemillinn á að flokkarnir opnuðu bókhald sitt og sættu sömu lögmálum og aðrir verða að gera. Nú þvælist hann ekki lengur fyrir og þess vegna er tækifæri fyrir stjórnmálamenn nútímans að hætta leyniaðgerðum og sýna þjóðinni sannleikann. Eflaust er ekki hægt að fletta upp fjárreiðum flokkanna í fortíðinni, þar sem bókahaldsgögn eru eflaust af skornum skammti.Fullyrðingar fólks um að bæði frambjóðendur og flokkar lofi svörtum greiðslum eru svo annað mál og ekki síður alvarlegra. Ekki er ástæða til að efast um sannleiksgildi þeirra sem segjast hafa þegið svarta peninga frá flokkum og frambjóðendum vegna vinnu við kosningabaráttu. Trúlega munu flokkarnir allir standa fast gegn þeim sem uppljóstra. Hagur flokka og þjóðar fer ekki alltaf saman. Ef samskiptin væru fyrirvaralaus hefðu flokkar og frambjóðendur ekkert að fela. Mest nota stjórnmálamenn þau rök að upplýsingar um greiðendur flokka og frambjóðenda skekki lýðræðið. Þessi rök eru haldlaus, því er öfugt farið. Leyndin er ávísun á tortryggni, efasemdir og trú á að ekki sé allt með felldu. Aðrar þjóðir hafa fjárreiður flokkanna aðgengilegar og erlendir stjórnmálamenn komast bara ekki upp með það sama og okkar.Enn og aftur eru tímamót þar sem kosningar eru í nánd með öllu tilheyrandi. Á þessum tímamótum væri fínt að frambjóðendur legðu spilin á borðið og leyfðu okkur að sjá hvaðan þeir fá aflið og styrkinn til allra auglýsinganna, til skrifstofuhaldsins og sanni þannig fyrir okkur að þeir standi ekki í þakkarskuld eða peningaskuld við nokkurn og að þeir geti starfað áfram án þess að eiga eftir að gera upp við gefendurna. Til að kjósendur viti hvort uppgjör fari fram verða þeir að vita hverjir gefendurnir eru, jafnvel hvort réttara sé að tala um kaupendur en gefendur.
Athugasemdir
International Institute for Democracy and Electoral Assistance er með ágætis gagnagrunn um hvernig þessum málum er háttað víðs vegar um veröldina. Þar má sjá að á meðal vesturevrópulnda er íslendingar í hópi sex annarra þjóða (Kýpur, Danmörk, Malta, Noregur, Svíþjóð og Sviss) sem ekkert eftirlit hafa með styrkjum til stjórnmálaflokka. Það er merkilegt að sjá að það eru norðurlöndin sem hafa minnsta eftirlitð.
Broddi, 2.11.2006 kl. 17:46