Eiríkur Bergman Einarsson skrifar forvitnilega grein í Blaðið í dag. Þar segir:
"Þeir eru af sama meiði en heita mismunandi nöfnum í ólíkum löndum. Í Danmörku er það Pia Kærsgaard sem fer fyrir Danska þjóðarflokknum, í Noregi fór Carl I Hagen fyrir Framfaraflokknum svokallaða áður en hin svipfríða Siv Jensen tók við keflinu. Í Frakklandi var það Þjóðarframvarðahreyfing Le Pen, í Hollandi hinn myrti Pim Fortuyn, í Austurríki fór Jörg Haider fyrir Frelsisflokknum. Í Belgíu kenna þeir sig við flæmska blokk og í Bretlandi er Sjálfstæðisflokkur Stóra-Bretlands að störfum. Á Íslandi er það Fjálslyndi flokkurinn með Magnús Þór Hafsteinsson fremstan í flokki. Ísland fyrir Íslendinga?Það var á tíunda áratug nýliðinnar aldar sem þjóðernisöfgaflokkar fóru á nýjan leik að ná fótfestu í stjórnmálalífi víða í Evrópu, eftir að hafa tekið sér stöðu gegn innflytjendum. Þjóðernishugmyndir hafa löngum fallið í frjóan jarðveg víða í Evrópu og hafa jafnframt fundið sér farveg í stjórnmálalífi víða í álfunni, þótt misjafnt geti verið í tíma og rúmi hvernig og hvar um lönd farvegur kynþáttahyggjunnar liggur. Einhverra hluta vegna hefur slíkur stjórnmálaflokkur ekki komið fram á sjónarsviðið á Íslandi, fyrr en nú að Frjálslyndi flokkurinn virðist ætla að helga sér þetta svið stjórnmálanna. Hér er auðsjáanlega um markvissa stefnubreytingu að ræða. Í síðustu viku ritaði Jón Magnússon, lögmaður og vonarpeningur flokksins, grein hér í blaðið þar sem hann boðaði að Ísland ætti að vera fyrir Íslendinga. Síðan hefur Magnús Þór Hafsteinsson haldið úti sama málflutningi í svo til öllum fjölmiðlum. Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem álíka þjóðernishugmyndir koma fram í stjórnmálaumræðu hér á landi. Fyrir tæpum tuttugu árum var hér starfandi félagsskapurinn Norrænn kynstofn sem barðist gegn því að Íslendingar myndu blandast fólki af erlendum uppruna. Félag íslenskra þjóðernissinna sem stofnað var á Suðurlandi skömmu fyrir aldamótin var svo næst í röðinni til að halda uppi merkjum kynþáttahyggjunnar hér á landi. Félagið var aldrei fjölmennt og lognaðist út af eftir að einn forsprakki þess var dæmdur fyrir niðrandi ummæli um fólk af afrískum uppruna sem hann viðhafði í forsíðuviðtali við DV í febrúar 2001 undir heitinu Hvíta Ísland. Félag framfarasinna, undir forystu Hjartar J. Guðmundssonar, tók þá við málinu og hélt til skamms tíma úti álíka málflutningi á vefsíðunni www.framfarir.net. Nú hefur Frjálslyndi flokkurinn (sem þá er orðið andheiti) semsé tekið við keflinu. Breytir flokkakerfinuEftir að kvótamálið datt út úr stjórnmálaumræðunni hér á landi hefur Frjálslyndi flokkurinn verið í nokkurri tilvistarkreppu og virðist ætla að finna sér tilverugrundvöll með andstöðu við innflytjendur. Með því móti færir flokkurinn sig inn í þekkt mengi stjórnmálaviðhorfa í Evrópu, sem byggir á hugmyndum um sérstöðu þjóðarinnar. Viðhorfið gengur út á að innstreymi fólks af erlendum uppruna grafi á einhvern hátt undan þjóðinni og því verði að girða landið af, einnig í menningarlegu tilliti. Slíkir flokkar hafa átt ógnvænlegu fylgi að fagna víða um álfuna á undanförnum árum og því gæti þessi breyting á stefnu flokksins haft afdrifaríkar afleiðingar í för með sér fyrir flokkakerfið hér á landi. Til að mynda hlýtur útspilið að útiloka samstarf við Samfylkingu og Vinstri græna eftir næstu kosningar."
Athugasemdir
Heill og sæll, Sigurjón. Ég ætla að kenna þér það, sem enginn nennti að kenna mér hérna á Moggablogginu. Til að skipta á milli lína notarðu táknið < og svo (án stafabils) p og svo (aftur án stafabils) >. Þessi tákn eiga að vera á lykli einna lengst til vinstri í neðstu stafaröð á lyklaborðinu (> er með því að ýta líka á hástafalykilinn). Ég set þessi tákn (og stafinn p) með þessum hætti hér, því að ef ég færi að setja þetta upp í röð án slaga á milli, færi þessi skipun að virka í þessum texta og yrði ósýnileg! En fyrrgreinda skipun seturðu á undan hverjum málslið (klausu) og strax á eftir klausunni sömu skipun, en með / á undan p-inu. Þá fer texti þinn að vera miklu árennilegri. Með kveðju, Jón.
Jón Valur Jensson, 7.11.2006 kl. 23:00
Sigurjón, ég er ósammála þessari grein þinni, það er t.d. ekki rétt að blanda þessum viðvörunum Magnúsar Þórs við hreinræktunarhugmyndir þess félagsskapar sem kallaði sig Norrænn kynstofn -- Magnús er ekki rasisti frekar en þú eða ég.
En í stað þess að ræða viðhorf mitt frekar hér, vísa ég þér og þínum á viðbragð mitt við öðrum vefsíðuskrifum á Moggabloggi Stebba Fr.
Jón Valur Jensson, 7.11.2006 kl. 23:09
Illa hraðlas ég þennan pistil, auðvitað berðu ekki ábyrgð á greinarskrifum Eiríks Bergmanns (sem ég var rétt í þessu að rekast á í Fréttablaðinu!).
Jón Valur Jensson, 8.11.2006 kl. 00:28
Sæll Sigurjón.
Grein Eiríks kemur mér nú ekki mjög á óvart, að öðru leyti en því að greinarhöfundur gefur sér það að útiloka samstarf við Sf og Vg sem er í sjálfu sér stórfurðulegt viðhorf satt best að segja.
Guðrún María Óskarsdóttir., 8.11.2006 kl. 01:06