Tímamót verða um áramót þegar greiningardeild lögreglu verður að veruleika. Svo merkilega vill til að á sama tíma eru um tíu ár frá því fjörutíu lögreglumenn voru taldir hafa brotið lög með starfsháttum sínum. Þeir beittu óhefðbundnum aðferðum, en greiningardeildin fær væntanlega heimildir til þess sama og verður gert heimilt að notast við það sem kallast óhefðbundnar aðferðir.Er ekki rétt að staldra við og athuga hvort lögreglan hér sé undir það búin að fá víðtækari heimildir en hún hefur nú? Það er ekki sjálfgefið að svo sé, og það er ekki heldur sjálfsagt mál að treysta því sem sagt er um ágæti lögreglunnar og starfshátta hennar. Lögreglan hefur fengið ákúrur frá dómstólum vegna vinnubragða og verið gerð afturreka með stór mál. Fyrir tíu árum er talið að sannast hafi að lögreglumenn hafi brotið af sér í starfi þrátt fyrir að saksóknari hafi ekki treyst sér til að ákæra sökum þess að vafi lék á um hvort lögreglumennirnir yrðu sakfelldir. Þannig varúðarsjónarmið ákæruvaldsins eru ekki alltaf notuð í dag, en það er annað mál.Í rannsókninni sem gerð var fyrir áratug um starfshætti lögreglunnar, það er óhefðbundnar aðferðir, sagði Arnar Jensson, sem var yfirmaður fíkniefnalögreglunnar, í skýrslu: Mjög algengt var að skýrslur sem innihéldu upplýsingar um alvarleg brot, jafnvel stóran innflutning eða dreifingu fíkniefna, hafi verið lagðar í skjalaskáp án nokkurrar rannsóknar vegna anna við aðrar rannsóknir, fjárskorts eða mannfæðar. Rannsóknin laut ekki síst að vitneskju um að Franklín Steiner, afkastamikill fíkniefnasali, nyti sérréttinda lögreglu. Í því ljósi er merkilegt að rýna í texta Arnars Jenssonar. Lögreglan forgangsraðaði samkvæmt því sem Arnar sagði og kaus að rannsaka ekki upplýsingar um alvarleg brot, jafnvel stóran innflutning og dreifingu fíkniefna. Ekki er unnt að taka undir að það hafi verið gert vegna fjárskorts einsog Arnar segir. Önnur mál voru valin til rannsóknar meðan stórmálin gleymdust. Þetta gerðist þegar lögreglan beitti óhefðbundnum aðferðum. Erum við viss um að lögreglan, sem fær auknar heimildir, stundi ekki lengur aðferðir einsog Arnar Jensson lýsti hér að ofan? Erum við viss um að þeir sem fara með lögregluvaldið séu undir aukna ábyrgð og auknar heimildir búnir? Nei, það erum við ekki.Nýverið sagði frá því hér í Blaðinu, að lögreglan segðist hafa verið að prófa langdrægni eigin talstöðvarkerfis í hesthúsahverfi að kvöldi til. Lögregluþjónninn sem var að prófa kerfið er eiginkona sóknarprests og í næsta hesthúsi var sóknarnefnd að funda um eiginmann lögregluþjónsins, það er sóknarprestinn. Fulltrúar í sóknarnefndinni voru þess fullvissir áður að fundir þeirra væru hleraðir og um kvöldið í hestahúsahverfinu styrktist trú þeirra á að svo hafi verið. Talið er víst að lögreglan hafi þá beitt óhefðbundnum aðferðum, ekki til að upplýsa glæp, nei, heldur til að hlera sóknarnefnd að störfum. Lögreglan vísar öllu á bug, segist ekki einu sinni eiga hlerunarbúnað. Er það svo? Nauðsynlega vantar svör.