Merkilegur maður, varaþingmaðurinn Valdimar Leó Friðriksson, sem hefur sagt skilið við Samfylkinguna. Það er ekkert merkilegt við að Valdimar Leó fari frá Samfylkingunni, það gera eflaust margir fleiri og aðrir koma í staðinn, einsog gengur. Það sem er merkilegt við brotthvarf Valdimars Leós er það að hann tekur með sér eitt þingsæti, þingsæti sem hann var aldrei kjörinn til og fékk til ráðstöfunar þar sem tveir aðrir vildu ekki eða gátu ekki setið í því. Þess vegna er merkilegt að heyra varamanninn segja að sér hafi verið hafnað í prófkjöri, hann hafði í raun aldrei verið kjörinn. Náði sjötta sæti fyrir fjórum árum, sem seint telst sérstaklega merkur árangur. Þar sem Valdimar Leó komst á þing eftir krókaleiðum og umboðslítill er kannski eins gott að hann hefur ekki teljandi áhrif, hvort sem hann er í Samfylkingunni eða ekki. Staðan væri önnur ef landsstjórnin stæði eða félli með afstöðu varamannsins.Það er ekkert nýtt að þingmenn yfirgefi flokka sína og kjósi ýmist að róa einir eða ganga til liðs við aðra flokka. Það er ekki sama hvernig það er gert eða af hvaða ástæðum. Gunnar Örlygsson hætti í Frjálslynda flokknum fyrr á þessu kjörtímabili og gekk í Sjálfstæðisflokkinn, hætti í stjórnarandstöðu og gerðist stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins tók Gunnari fegins hendi, en almennir flokksmenn ekki og hann fékk slæma útreið í prófkjöri og pólitísk framtíð hans virðist engin vera. Svipað gerðist með Valdimar Leó Friðriksson. Hann var kallaður inn á þing sem annar varamaður og hafði þess vegna veikt umboð. Valdimar Leó virtist ekki hafa neitt við samstarfið við flokksfélaga sína á þingi að athuga. Hann kolféll í prófkjöri og eftir það komu skýringar, til dæmis um gagnsleysi prófkjöra. Allt sem varamaðurinn hefur sagt lýsir því einu að hann er í fýlu, fékk slæma kosningu og gat ekki tekið niðurstöðunni.Kristinn H. Gunnarsson er enn í Framsóknarflokknum, sem reyndar er mjög athyglisvert þegar tekið er tillit til alls sem hann hefur sagt um þann flokk og fólkið sem stýrir honum og stefnuna sem flokkurinn fylgir. Af þeim fáu dæmum sem hér hafa verið tekin er munur á Gunnari Örlygssyni og Valdimar Leó Friðrikssyni. Gunnar var kjörinn á þing, en Valdimar Leó ekki. Enn meiri munur er á Kristni H. Gunnarssyni og Valdimar Leó. Kristinn hefur lengi talað á þeim nótum sem hann nú gerir og hefur sótt umboð til félaga í Framsóknarflokknum, þar sem hann starfar enn, eða réttara sagt er enn.Það er ekki hægt að trúa Valdimar Leó Friðrikssyni um neitt annað en að hann er í fýlu og hún kemur fram með þessum hætti. Þingmenn ráða för sinni úr flokkum og í flokka. Hér hefur það gerst að einn maður, sem hefur ekki einu sinni beint umboð kjósenda, kýs að starfa einn sökum þess að honum var hafnað. Hvorki Gunnar Örlygsson né Valdimar Leó Friðriksson breyta neinu með vistaskiptunum, ekki frekar en þeir gerðu með veru sinni þar sem þeir voru. Það er kannski það merkilega.