Það er enginn varnarsamningur við Bandaríkjamenn, aðeins minnispunktar og fyrirheit, kannski eitthvert samkomulag. Annað er ekki til eftir samningaviðræður íslenskra valdamanna og bandarískra. Þess vegna leita íslenskir ráðamenn nú samstarfs eða réttara sagt verktaka í loftvörnum eða lofteftirliti víða. Leggjast jafnvel á hnén fyrir framan ráðamenn ríkja sem eiga herþotur sem gagnast myndu til flugs yfir landið okkar og nágrenni þess af og til. Minnispunktar íslenskra og bandarískra ráðamanna ná víst aðeins yfir það ástand sem skapast eftir að til ófriðar kemur, einsog okkur hefur svo oft verið sagt; ef ráðist er á eina Natóþjóð jafngildir það árás á þær allar. Þannig að kannski bæta minnispunktarnir bara engu við.Eftir að Bandaríkjamenn tilkynntu að herinn yrði kallaður heim hefur margt breyst. Áður var til að mynda nokkrum hermönnum gert að sitja við ratsjár og fylgjast með flugferðum í lofthelginni. Hermennirnir eru farnir, en ekki skjáirnir sem þeir horfðu á allan sólarhringinn og ekki heldur lofthelgin. Herinn er hættur að borga einsog hann gerði og herinn er hættur að fylgjast með einsog hann gerði. Annað hefur ekki breyst, heimsmyndin er hin sama og áður var. Athygli vakti þegar rússneskri herflugvél var flogið inn í lofthelgina án þess að við yrðum þess vör. Þeir sem mest unnu með hernum og best þekktu til þess búnaðar og þeirra handtaka sem varð að vinna eru hættir og farnir annað. Það fólk beið ekki, lífið heldur áfram þó herinn fari.Ratstjárnar eru enn í gangi, allavega milli átta á morgnana og fimm á daginn, frá mánudegi til föstudags. Nú eru það ekki hermenn sem sitja við skjáina og stunda þannig loftvarnir okkar Íslendinga. Enda ekkert um það í minnispunktum íslenskra og bandarískra ráðamanna. Þeir sem best þekkja til segja Ratsjárstofnun nú sjá til þess að horft sé á myndir ratsjánna á virkum dögum á hefðbundnum vinnutíma, en þar fyrir utan er víst lítið um eftirlit. Starfsfólkið sem nú fylgist með rastjánum var áður í allt öðrum og borgaralegri verkum, það er meðan herinn var hér. Starfsfólk sem áður gegndi störfum á lagerum og öðrum fínum störfum er núna að fylgjast með loftförum meintra ógnvalda.Varnir Íslands eru að verða með furðulegasta hætti. Það er að vonum að þeir sem gengu frá málum með þeim hætti sem þeir gerðu reyni nú að redda þessu, bara einhvern veginn. Kannski helst vegna stórra orða um að varnirnar séu svo mikilvægar og að þær verði að vera sýnilegar. Eftir stendur að varnirnar eru kannski engar, allavega ekki hér á landi og þá eru þær alls ekki sýnilegar. Þess vegna fara ráðamenn um heiminn, tala við hvern af öðrum í von um að finna verktaka í loftvörnum. Vissulega eru varnarmál alvörumál og ef það er svo að okkur vanti flugvélar til að fljúga yfir okkur af og til er vonandi að verktaki finnist og gengið verði frá samningi sem inniheldur meira og verði skýrari en minnispunktarnir sem gerðir voru.
Athugasemdir
Það eru ýmsar staðreyndavillur í þessu hjá þér þó svo ég geti tekið undir að samningaviðræður Íslendinga og Bandaríkjanna hafi verið algert klúður.
Til dæmis eru eftirfarandi staðhæfingar ekki réttar:
"Athygli vakti þegar rússneskri herflugvél var flogið inn í lofthelgina án þess að við yrðum þess vör." Þetta er einfaldlega ekki rétt.
"Þeir sem mest unnu með hernum og best þekktu til þess búnaðar og þeirra handtaka sem varð að vinna eru hættir og farnir annað. Það fólk beið ekki, lífið heldur áfram þó herinn fari." Starfsmenn Ratsjárstofnunar þekkja þennan búnað vel og eru þarna enn. Aðrir sem komu að rekstri loftvarnakerfisins fóru ekki í einum vettvangi heldur uppfylltu gerða samninga sem voru síðan ekki endurnýjaðir vegna breyttra aðstæðna.
"Ratstjárnar eru enn í gangi, allavega milli átta á morgnana og fimm á daginn, frá mánudegi til föstudags " Kerfið er í gangi allan sólarhringinn, alla daga.
"Starfsfólk sem áður gegndi störfum á lagerum og öðrum fínum störfum er núna að fylgjast með loftförum meintra ógnvalda." Er það eitthvað verra fólk fyrir vikið? Þú ert að gera lítið úr fólki sem þekkir þetta kerfi vel. Það vita það allir sem vilja, að þetta er tímabundin staða sem þetta fólk er í. Ákvarðanir hafa ekki verið teknar um annað.
Að mínu mati ertu bara að pikka upp einhverjar staðreyndir, réttar sem rangar, og hnoðar þær saman í einhvað ádeilu-blogg. Varnarmál er alvörumál, ég get verið sammála því, en hafðu staðreyndir á hreinu áður en þú ert með yfirlýsingar um einhver mál.
Björn Símonarson
Björn Símonarson (IP-tala skráð) 1.12.2006 kl. 14:50