Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra beið mikinn ósigur þegar Alþingi ákvað að afgreiða ekki frumvarp hennar um Ríkisútvarpið. Með því að fresta afgreiðslu frumvarpsins fram yfir áramót segja kunnugir að það þýði aðeins það eitt, að frumvarpið verði ekki að lögum fyrir kosningar, og þá aldrei eftir kosningar. Þetta er pólitískur ósigur menntamálaráðherrans og varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Enginn vilji er til þess innan þingsins að styðja ráðherrann og nú hefur komið í ljós að samráðherrar og þingflokkur Sjálfstæðisflokksins leggja ekkert á sig til að leiða ráðherrann út úr pólitísku öngstræti. Þar er Þorgerður Katrín í vanda og það skömmu fyrir kosningar.Útvarpsstjórinn og aðrir sem hafa mikinn hag af þeim breytingum sem átti að gera á rekstri Ríkisútvarpsins verða að sætta sig við að ráðherra útvarpsins hefur ekki styrk til að láta drauma þeirra rætast. Sú er niðurstaða gærdagsins. Það er ekki almennur vilji til að auka enn á forskot ríkisfjölmiðilsins og það er þess vegna sem málið fær ekki framgang á Alþingi. Með þessum málalokum kemur í ljós hversu miklu stjórnarandstaða getur fengið framgengt á góðum degi. Þess vegna getur verið mikill munur að vera óbreyttur þingmaður í stjórn og í stjórnarandstöðu. Frjálshyggjumennirnir, sem tilheyra stjórnarliðinu, ætluðu sennilegast allir sem einn að greiða götu ríkisfjölmiðilsins í samkeppni við frjálsa fjölmiðla, þar sem þeim er sagt að gera svo. Ekki vegna þess að þeir séu þeirrar skoðunar að vegur ríkisfjölmiðils eigi með lögum að vera tryggður langt umfram það sem aðrir fjölmiðla kunna að geta, heldur vegna þess að þeim er sagt að segja já.Nú hafa stjórnarandstæðingar skorið frjálshyggjumennina úr ríkissnörunni og veitt þeim frelsi, komið í veg fyrir að þeir gengju gegn eigin lífsskoðunum. Stjórnarandstæðingar höfðu sigur og helst vegna þess að frumvarpið um Ríkisútvarpið, sem er gamalt fyrirheit ráðherrans, hefur ekki fengið hljómgrunn, það hefur hinsvegar veikt stöðu menntamálaráðherrans og varaformanns Sjálfstæðisflokksins verulega.