Ráðherrar hafa falast eftir ábyrgð. Með störfum sínum hafa þeir óskað eftir að bera ábyrgð. Þess vegna bera þeir ábyrgð og það er alvara að takast á við það sem ráðherrar hafa tekið að sér. Þess vegna eru þeim borguð fín laun og þess vegna hafa þeir sjálfir getað réttlætt ofureftirlaun. Það er alvara að bera ábyrgð. Og þar sem ráðherrar hafa beinlínis óskað eftir ábyrgðinni er ekki úr vegi að benda þeim á það sem okkur hinum þykir á vanta til að ráðherrarnir standi undir þeirri ábyrgð sem þeir hafa sóst eftir og fengið.Hörmuleg banaslys í umferðinni eru alltof tíð. Sú sára staðreynd kallar á aðgerðir til að lágmarka mannskaða og í sorginni er líka hægt að spyrja, hvers vegna? Hvers vegna var ákveðið að verja óhemju af peningum til að gera Héðinsfjarðargöng þegar mest eknu þjóðvegir landsins eru lífshættulegir, svo hættulegir að á þeim hafa á skömmum tíma orðið svo hörmuleg slys, að flesta Íslendinga setur hljóða. Það er eitt að fá ekki þægindi, annað að fá að aka með sem minnstri lífshættu. Þess vegna er æskilegt að ráðherrar hafi dómgreind til að raða rétt, láta neyðina ráða, óþægindi og tímaeyðsla komi þar á eftir. Fleiri spurningar koma fram, til að mynda hvað megi afleggja margar einbreiðar brýr fyrir þá peninga sem brenndir eru upp í vonlausri umsókn að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Sama er að segja um sendiráðin öll, sendiherrana sautján sem Davíð Oddsson skipaði og svo margt og svo margt í okkar samfélagi sem okkur þegnana varðar ekkert um, en ráðamennirnir okkar kjósa að brenna peningum í hluti sem okkur hinum er fyrirmunað að skilja hvers vegna.Ráðherrar hafa kallað eftir ábyrgð og þeir verða þá að bera hana. Kosningar eru framundan og þær skulu sko ekki snúast um rekstrarform Ríkisútvarpsins, og þær skulu ekki snúast um einstaka dekurmál ráðherra eða þingmanna. Það er margt sem betur má gera og stjórnmálamenn skulu ekki sleppa frá ákvörðunum um bætta þjóðvegi. Íslendingar vilja ekki lengur búa við það óöryggi sem nú er. Dauði eins okkar er sorg okkar allra og það verður að ráðast að vandanum, framkvæma og gera okkur kleift að ferðast af meira öryggi en nú er. Hvað sem hver segir er vandinn mestur hér næst höfuðborginni. Umferð um vegina er eflaust langtum meiri en þeir hafa verið hannaðir til að bera. Deilur um ágæti tveir plús tveir-vega eða tveir plús einn-vega mega ekki tefja aðgerðir. Þess vegna gerir ráðherrann best með því að hefjast handa strax þannig að þingið geti samþykkt framkvæmdir á þeim fáu vikum sem þingmenn mæta til vinnu eftir áramót.
Athugasemdir
Hvað með þá ábyrgð sem við ökumenn köllum eftir þegar við þreytum bílpróf? Hvernig væri að við prófuðum að haga akstri okkar eftir þeim vegum sem eru hér á landi? Það er ekki endalaust hægt að skella skuldinni á ráðamenn, það erum við sem höldum um stýrið á bílunum okkar.
SSH (IP-tala skráð) 12.12.2006 kl. 10:00
"[...] þess vegna hafa þeir sjálfir getað réttlætt ofureftirlaun."
Þetta er ekki rétt Sigurjón. Þeim hefur EKKI tekist að réttlæta eftirlaunasamsærið. Þeir hafa komist upp með að halda ránsfengnum - en með herkjum.
Almenningi og fjölmiðlum ber að standa vörð um löggjafarsamkomuna.
Búið er að afhjúpa forystumenn stjórnarandstöðunnar og ríkisstjórnarinnar. Eftir er að þvinga þá til að opna skoltinn og skila því sem þeir hafa með rangindum tekið.
Eftirlaunamálið er svartur blettur á Alþingi: MISBEITING LÖGGJAFARVALDSINS.Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 12.12.2006 kl. 10:17