Eiríkur kærir Blaðið

Eiríkur Hjálmarsson, sem nú er launamaður hjá Orkuveitu Reykjavíkur, hefur kært ritstjóra, fréttastjóra og blaðamann á Blaðinu til siðanefndar Blaðamannafélagsins. Eiríkur fer gegn staðfestingum heimildarmanna Blaðsins um að samningur Orkuveitunnar og sveitarfélagsins Ölfuss sé metinn á um 500 milljónir króna. Viðmælendur Blaðsins voru almennt sammála um að í samningi sem inniheldur til dæmis; lýsingu við Þrengslaveg, uppgræðslu sanda við Þorlákshöfn, háhraðatengingu í Þorlákshöfn, byggingu fjárréttar, byggingu hesthúss, greiðslur fyrir jarðhitaréttindi og eflaust fleira telji um 500 milljónir að verðmæti. Vissulega varð Orkuveitan að leggja af framkvæmdir við Hellisheiðarvirkjun eftir skrif Blaðsins þar sem ekki hafði verið veitt löglegt leyfi til framkvæmdanna, en það er kannski ekkert sem tengir kæru Eiríks og áhrif skrifa Blaðsins á framkvæmdirnar.Eiríkir finnur að því að ekki hafi verið farið að hans vilja og leiðrétt að í fyrirsögn var stuðst við fulltrúa hjá Skipulagsstofnun, hann sagði í fréttum Blaðsins, að veiting bráðabirgðaleyfis til framkvæmda samræmist ekki lögum. “Samkvæmt bygginga- og skipulagslögum er ekki hægt að veita bráðabirgðaleyfi til þessara framkvæmda.”  Eirkíkur fann að því að í fyrstu fréttinni var talað um virkjunarleyfi en ekki framkvæmdaleyfi. Viðmælendur Blaðsins, aðrir en formælendur Orkuveitunnar, sögðu hins vegar virkjunarleyfi, en bæjarstjórinn sagði hins vegar; “okkar niðurstaða er sú að þar sem sem landssvæði var raskað fyrir þá mætti veita leyfi til rannsókna. Það er ekki víst að þarna komi til framkvæmda, aðeins er verið að rannsaka svæðið.” Þannig fór að framkvæmdum var hætt eftir að fréttirnar birtust og nú kærir upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar og efast um, gegn mati viðmælenda Blaðsins, að hægt sé að verðleggja greiðslur Orkuveitunnar á hálfan milljarð.Þessu verður vinnandi fólk að una og taka til varna.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hér er kæran:

Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands
Síðumúla 23
108 Reykjavík


Reykjavík, 28. nóvember 2006

K Æ R A

Kærðu:  Blaðið, Sigurjón M. Egilsson, Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir og Trausti Hafsteinsson.
Kærandi: Orkuveita Reykjavíkur


Kærð skrif
Kærð eru þessi ummæli í Blaðinu 25. nóvember 2006: „Hálfur milljarður milli vina,“ (fyrirsögn leiðara á bls. 20), „Hvað með fimm hundruð milljónirnar? Ætlar sveitarfélagið Ölfus að skila þeim til Orkuveitu Reykjavíkur? Milljónirnar fengust með sérstökum samningi þeirra á milli,“ og „Blaðamennirnir umdeildu leituðu að svona fúski. Hafa bara ekkert fundið. Nei, til að finna slíkt þurfum við að líta okkur aðeins nær, ofan í buddu sveitarfélagsins Ölfuss, sem hefur bólgnað, og á reikningsyfirlit Orkuveitunnar, sem átti hálfan milljarð. Fyrirtækið er í eigu borgarinnar, þar sem kjörnir fulltrúar ríflega þriðjungs þjóðarinnar sitja. Ekki heyrist múkk frá þeim þó að svo virðist sem ákveðið hafi verið að kaupa sér leyfi fyrir fimm hundruð milljónir fram hjá ríkisvaldinu; sérfræðingum á Skipulagsstofnun.“ (blaðsíða 20) og þessi ummæli í Blaðinu 20. október sl. „Gerður var sérstakur samningur sem metinn er á fimm hundruð milljónir króna sem renna í sjóði sveitarfélagsins“ (bls. 1), „Samningurinn jaðrar við mútur“ (undirfyrirsögn bls. 6), „Gerður var sérstakur samningur sem metinn er á fimm hundruð milljónir króna sem renna í sjóði sveitarfélagsins “ (bls 6), „samningur milli aðila jaðrar við mútur,“ (myndatexti bls. 6).
Málavextir
Þegar Blaðið þ. 20. október barst Orkuveitu Reykjavíkur var þegar haft samband við blaðamanninn Trausta Hafsteinsson og farið fram á leiðréttingu vegna rangfærslu í aðalfyrirsögn á forsíðu blaðsins og vegna rangra fullyrðinga um samning Orkuveitu Reykjavíkur og Sveitarfélagsins Ölfuss. Bauðst upplýsingafulltrúi OR til að útvega blaðamanninum samninginn og útgefið virkjunarleyfi Hellisheiðarvirkjunar. Sagðist blaðamaðurinn hafa samninginn undir höndum, enda hefði birst grein úr honum í Blaðinu, en að leiðréttingar yrðu að fara í gegnum fréttastjóra. Var upplýsingafulltrúa OR bent á að ræða við fréttastjórann Gunnhildi, sem einnig var bent á rangfærslurnar. Sagðist hún í símtalinu myndu koma athugasemdum á framfæri við ritstjórann, sem ábyrgð bæri á fyrirsögninni. Rætt var við ritstjórann símleiðis síðdegis sama dag þar sem ábendingunum var komið á framfæri munnlega ásamt kröfu um leiðréttingu.
Í umfjöllun Blaðsins 21. október koma sjónarmið Orkuveitu Reykjavíkur varðandi téðan samning ekki fram og rangfærsla í aðalfyrirsögn á forsíðu daginn áður er leiðrétt, án þess þó að fram sé tekið að um leiðréttingu sé að ræða, í einni setningu í síðari hlutar fréttar neðst á blaðsíðu 6.
Í ljósi árangursleysis símatalanna við blaðamanninn, fréttastjórann og ritstjórann var ritstjóra Blaðsins sendur tölvupóstur mánudaginn 23. október (sjá fylgiskjal) þar sem krafist var leiðréttinga á fréttaflutningi Blaðsins í tveimur liðum; annars vegar m.t.t. athugasemda sem birtar höfðu verið á vef Orkuveitu Reykjavíkur (sjá fylgiskjal) og hinsvegar var sérstaklega beðið um leiðréttingu á rangfærslum varðandi samning OR og Sveitarfélagsins Ölfuss.
Þrátt fyrir að beiðni þessari hafi verið með formlegum hætti komið á framfæri við ritstjórann er sagt í leiðara Blaðsins 25. nóvember að 500 milljónir króna hafi gengið á milli Orkuveitu Reykjavíkur og Sveitarfélagsins Ölfuss og látið að því liggja með ýmsum hætti í leiðaranum að hinn opinberi samningur lykti af spillingu, sbr. þau skrif sem kært er vegna og rakin eru hér að ofan.
Krafa
Það er mat Orkuveitu Reykjavíkur að blaðamaðurinn, fréttastjórinn, ritstjórinn eða Blaðið, hafi brotið með mjög alvarlegum hætti 3. grein Siðareglna Blaðamannafélags Íslands. Ábyrgð einstakra aðila á brotinu er Orkuveitunni ekki ljós.
Þetta mat Orkuveitu Reykjavíkur er byggt á því að...
• Orkuveita Reykjavíkur hefur í samtölum við þrjá starfsmenn Blaðsins – blaðamann, fréttastjóra og ritstjóra – bent á rangfærslur varðandi samning fyrirtækisins við Sveitarfélagið Ölfus og því mátti þeim öllum vera ljóst að fréttaflutningur Blaðsins væri vafasamur.
• Téður samningur er opinbert gagn, sem Blaðið virðist hafa undir höndum og á því að geta gengið úr skugga um hvort ákvæði hans svari til 500 milljóna króna fjár- eða verðmætaflutnings frá Orkuveitunni til sveitarfélagsins.
• Blaðið hefur hunsað beiðni um leiðréttingu dags. 23. október sl., sbr. 6. gr. siðareglna Blaðamannafélags Íslands.
• Þrátt fyrir beiðni um leiðréttingu og enga tilburði Blaðsins til að réttlæta fullyrðingar sínar um verðmæti samningsins, er því haldið fram í leiðara Blaðsins 25. nóvember að 500 milljónir króna hafi skipt um hendur og af þeirri upphæð dregnar mjög alvarlegar ályktanir varðandi starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur og ýjað að ólöglegu athæfi.
• Þrátt fyrir símtöl upplýsingafulltrúa OR við blaðamann, fréttastjóra og ritstjóra Blaðsins hefur engin tilraun verið gerð af hálfu blaðsins til að afla nánari upplýsinga frá OR um áætlað raunverulegt verðmæti samningsins.
Af þessu er dregin sú ályktun að um vísvitandi rangfærslu sé að ræða 25. nóvember af hálfu leiðarahöfundarins fréttastjórans en að blaðamaðurinn, fréttastjórinn og ritstjórinn hafi algerlega látið undir höfuð leggjast með að verða við beiðni Orkuveitu Reykjavíkur um leiðréttingar á rangfærslum í fréttaflutningi blaðsins 20. október. Hvorttveggja er skýlaust brot á 3. gr. Siðareglna Blaðamannafélags Íslands, þar sem segir að blaðamaður vandi  upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu svo sem kostur er.
Í lokin er rétt að benda á tölvupóst til fréttastjórans og ritstjórans sendan 25. nóvember sl. (sjá fylgiskjal) þar sem farið er fram á leiðbeiningar við að koma leiðréttingu á framfæri við fjölmiðilinn. Þann 28. nóvember hafði honum ekki verið svarað, frekar en fyrri tölvupósti undirritaðs til ritstjórans.
Telji Siðanefndin sig þurfa frekari upplýsingar frá Orkuveitu Reykjavíkur til að geta tekið afstöðu til kæru þessarar, er henni velkomið að hafa samband við undirritaðan.

Virðingarfyllst,


_________________
Eiríkur Hjálmarsson
Upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur


Fylgiskjöl:
Útprentun af síðu 20 í Blaðinu 25. nóv 2006, úr pdf-skjali sótt á vefinn www.bladid.net 27. nóv. 2006.
Útprentun af síðu 1 í Blaðinu 20. okt 2006, úr pdf-skjali sótt á vefinn www.bladid.net 27. nóv. 2006.
Útprentun af síðu 6 í Blaðinu 20. okt 2006, úr pdf-skjali sótt á vefinn bladid.net 27. nóv. 2006.
Útprentun af síðu 6 í Blaðinu 21. okt 2006, úr pdf-skjali sótt á vefinn bladid.net 27. nóv. 2006.
Tölvupóstur EHj til Sigurjóns M. Egilssonar 23. október 2006, kl. 12:21.
Tölvupóstur EHj til Sigurjóns M. Egilssonar og Gunnhildar Örnu Gunnarsdóttur 25. nóvember 2006 kl. 9:07.
„Vegna fréttar í Blaðinu í morgun,“ útprentun af athugasemd sem birt var á vef OR og vísað er til með slóð í tölvupóstinum frá 23. okt.
„Samkomulag milli Orkuveitu Reykjavíkur og sveitarfélagsins Ölfuss um ýmis mál sem tengjast virkjun á Hellisheiði.“ Afrit af samningi undirrituðum 28. apríl 2006 lagður fram og samþykktur í bæjarstjórn Ölfuss sama dag.

Eiríkur Hjálmarsson (IP-tala skráð) 12.12.2006 kl. 23:29

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband