Jón Magnússon hæstaréttarlögmaður skrifar í Blaðíð í dag fína grein sem birtist hér í fullri legnd:
Frá því hefur verið skýrt að kjör aldraðra hafi í raun rýnað frá árinu 1988. Á sama tíma hafa kjör flestra annarra landsmanna batnað verulega. Þó liggur fyrir að raunveruleg fátækt er of mikil. Það er skrýtið hvað það gengur illa að búa til raunverulegt velferðarþjóðfélag á Íslandi. Velferðarþjóðfélag fyrir alla. Allir stjórnmálaflokkar hafa á stefnuskrá sinni að vinna að bættum hag þeirra sem lökust hafa kjörin og minnst fyrir sig að leggja. Það er þjóðarsátt um að hér sé virkt velferðarkerfi. Á sumum sviðum er svonefnd velferð þó komin út í slíkar öfgar að manni dettur einna helst í hug að meint velferðarvinna sé aðallega hönnuð fyrir þá sem starfa við hana vegna þess að þörfin er ekki fyrir hendi heldur tilbúin. Á sama tíma vantar á að þjóðfélagið sinni þeim sem mest þurfa á samfélagslegri aðstoð að halda. Af hverju eiga margir aldraðir ekki peninga fyrir mat út mánuðinn. Af hverju búa margir aldraðir við kjör þar sem mannleg reisn er frá þeim tekin. Sú kynslóð sem hefur tileinkað sér öðrum Íslendingum fremur sparsemi, nýtni og nægjusemi. Umræðan og útreikningar stjórnvalda eru komin á flækjustig í stað þess að greitt sé úr vandanum. Er það ásættanlegt í þjóðfélagi sem kallar sig velferðarþjóðfélag? Ég lít á það sem frumskyldu hvers siðaðs velferðarþjóðfélags að sjá til þess að enginn borgari líði skort. Vissulega þarf að einbeita sér að því að hjálpa fólki til sjálfshjálpar. En þeir sem eiga við varanlega fötlun að stríða og/eða geta ekki aflað sér tekna verða að eiga þess kost að lifa með reisn og þurfa ekki að hafa endalausar áhyggjur af frumþörfum sínum. Eitt af því sem verður að gæta að í velferðarþjóðfélagi er að fólk festist ekki í fátæktargildrum og þar getur skattkerfið gegnt mikilvægu hlutverki. Ég hef lengi haldið því fram að það brýnasta í skattamálum okkar sé að hækka skattleysismörkin verulega. Með því að hækka skattleysismörkin er komið til móts við þá tekjulægstu í þjóðfélaginu. Það þjónar bæði hagsmunum ungs fólks sem er að koma sér fyrir í þjóðfélaginu og eldri borgurum til að takmarkaðar tekjur þeirra séu ekki frá þeim teknar. Skattastefna ríkisstjórnarinnar hefur miðast við að hanna skattkerfi fyrir stórfyrirtæki og þá sem eiga mestar eignir og hefur stuðlað að vaxandi ójöfnuði í þjóðfélaginu eins og Stefán Ólafsson prófessor hefur sýnt skilmerkilega fram á. Það er mikilvægt að stuðla að raunverulegri velferð og að ráðamenn okkar séu ekki í dúkkulísuleikjum, forsetinn eða sendifulltrúarnir 96, vítt og breitt um veröldina. Stjórnmálamennirnir hafa tryggt sér áhyggjulaust ævikvöld og búið til sérreglur fyrir sig. Fyrst þeir leyfa sér að gera það fyrir sjálfa sig þá er það hneyksli að þeir geri ekki það sama fyrir alla landsmenn. Slíkt er ekki bara reginhneyksli heldur spilling. Það er spilling þegar alþingismenn skammta sér betri eftirlaun og lífeyri en þeir gera öðrum kleift að fá. Það er raunar algjört siðleysi að þeir skuli búa aðra og betri velferðarumgjörð um sjálfa sig en venjulegt fólk í landinu. Þeir alþingismenn sem tóku þátt í því að skammta sjálfum sér sérkjör hafa svikið þá meginhugsjón jafnaðar og bræðralags sem þjóðarsátt ætti að vera um í þjóðfélaginu. Það verður að vera almennt öryggisnet í þjóðfélaginu um velferð allra borgara þannig að okkar minnstu bræður líði ekki skort. Sumir kalla það sósíalisma en það hefur ekkert með sósíalisma að gera. Það er mannkærleikur í samræmi við þá kristilegu lífsskoðun sem þjóðfélagið byggir á. Í því felast þau siðalögmál og viðmiðanir sem gert hafa Vesturlönd að forustulöndum mannréttinda og manngildis í veröldinni. Slík siðræn forusta er nú á undanhaldi hér á landi.