Bloggfærslur mánaðarins, október 2006
31. október 2006
Hvorki Samfylkingu né Sjálfstæðisflokki tókst að gera konum eins hátt undir höfði í prófkjörum helgarinnar og körlum. Kannski er ekkert athugavert við að konur fóru almennt halloka í prófkjörunum. Kannski var framboð kvenna ekki nógu gott og kannski gátu kjósendur ekki veitt þeim konum, sem sóttust eftir þingsætum, meiri stuðning en raun varð á. Ef það er svo, þá verður að skoða betur og endurmeta þá aðferð sem er notuð við að velja á framboðslista flokkanna. Það gengur ekki, kosningar eftir kosningar, að slíkur ójöfnuður sé með kynjunum.Hvað sem sagt er þá er staða kvenna í Sjálfstæðisflokki afleit. Flokkurinn hefur nú níu þingmenn í Reykjavík og takist flokknum að halda sínu verða tveir þingmenn af níu í Reykjavík konur og sjö karlar. Það er afleit staða og þess vegna er ómögulegt að taka undir með þeim sem segja stöðu kvenna í Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík viðunandi. Það er verið að blekkja með þannig fullyrðingum. Eina konan sem gegnir þingmennsku í Norðvesturkjördæmi fékk falleinkunn hjá flokkssystkinum sínum í Samfylkingunni og á líkast til enga möguleika á að ná þingsæti. Af þeim tveimur prófkjörum sem hafa verið haldin nú hefur staða kvenna lítið eða ekkert batnað. Það á að vera áhyggjuefni.Sé það svo að almennt séu konur sem sækjast eftir þingsæti eitthvað lakari kostur en þeir karlar sem sækjast eftir sömu sætum þá verður að bregðast við því. Engin rök segja okkur að konur séu almennt og fyrirfram síðri kostur en karlar til að gegna störfum við stjórnsýslu. Ef við gerum ráð fyrir að kjósendur í prófkjörum velji frambjóðendur út frá því sem þeir telja best fyrir flokk og þjóð með þessum árangri þarf að finna aðra leið en prófkjör til að velja á listana. Einsog allt stefnir í nú fer því fjarri að Alþingi spegli þjóðina. Aftur verðum við með þingheim þar sem karlar eru í miklum meirihluta.Forysta stjórnmálaflokkanna hlýtur að hafa áhyggjur af þróuninni. Prófkjörin hafa meðal annars hafnað sitjandi þingmönnum. Björn Bjarnason fékk slæma kosningu, sama er að segja um Pétur Blöndal og Sigurð Kára Kristjánsson og Birgi Ármannsson og auðvitað Samfylkingarkonuna Önnu Kristínu Gunnarsdóttur. Kannski er það jákvæða við prófkjörin að þeir þingmenn sem ekki standa sig nógu vel, að mati kjósenda, fá að vita af því með eftirtektarverðum hætti.Þrátt fyrir að prófkjör geti verið áminning fyrir einstaka þingmenn og jafnvel brottrekstur þá er vandinn stærri og meiri en kostirnir. Þingræðið hefur látið á sjá og það er verk að vinna því virðingu og stöðu á ný. Það verður best gert með því að á þingi sé þverskurður af þjóðinni, ekki aðeins þeir sem nenna og geta barist fyrir sjálfan sig í prófkjörum, það þarf líka þau sem hafa hugsjónir og langanir til að láta til sín taka, láta gott af sér leiða.29. október 2006
Mikið ósköp varð ég undrandi þegar ég las nýtt tímarit þeirra feðga Reynis Traustasonar og Jóns Trausta. Reyndar er varla hægt að tala um lestur, því þegar ég sá mynd af mér þar sem var verið að fjalla um sértakt mál í sögu Fréttablaðsins tók ég að lesa hvað var til umfjöllunar og eftir þann lestur hafði ég fengið nóg. Meira hirði ég ekki um að lesa í blaðinu og ætla að segja hvað það er sem gekk svona fram að mér.
Ísafold er að fjalla um samskipti eigenda og fjölmiðla og þar er rakinn hluti af sögu frá því í júlí í fyrra. Búið var að ákæra í Baugsmálinu og allir fjölmiðlar gerðu allt sem þeir gátu til að komast yfir ákærurnar. Enginn hafði náð árangri. Ég fór í sumarfrí og hafði verið á Jótlandi í nokkra daga þegar einn af meðstjórnendum mínum á Fréttablaðinu hringir til mín og spyr mig í fyrstu hvernig standi á því hann eigi sérstakt erindi við mig. Ég var í akstri svo ég stoppaði bílinn og fékk fréttir að heiman. Meðan ég var í burtu höfðu aðrir stjórnendur Fréttablaðsins gengist inn á samkomulag við Baug, eða þá ákærðu, um birtingu ákæra, skýringa með þeim og viðtöl við Jón Ásgeir Jóhannesson og Jóhannes Jónsson. Það sem meira var að búið var að taka á móti efninu, taka viðtöl við þá feðga og senda þau til yfirlestrar, sem stangaðist algjörlega á við siðaskrá Fréttablaðsins, og aðeins var beðið þess að Baugsmenn gæfu heimild til birtingar. Ég brást reiður við og sagðist koma heim strax til að stöðva samkomulagið, koma í veg fyrir að vandi okkar, vegna þessa, ykist enn. Þá kom í ljós að samskonar samkomulag hafði verið gert við breska blaðið The Guardian. Skilyrði var að Bretarnir réðu hvaða dag efnið birtist og það myndi birtast sama dag í The Guardian og Fréttablaðinu. Þá var mér sagt að Bretarnir hefðu frestað birtingu svo ég gat lokið Danmerkurferðinni og látið málið til mín taka þegar ég kæmi heim. Sem ég og gerði.
Daginn sem ég kom heim boðaði ég meðstjórnendur mína á fund og sagði þeim að ég myndi rjúfa samkomulagið strax. Þeir mótmæltu ekki, ég fékk fund strax með stjórnarformanni Baugs þar sem ég tilkynnti honum að ekkert samkomulag væri lengur milli Baugs og Fréttablaðsins. Ástæðan var einföld og er einföld. Fjölmiðlar semja ekki um fréttir, fjölmiðlar semja ekki um fréttir.
Af tillitsemi við meðstjórnendur mína féllst ég á, illu heilli, að eyða ekki efninu sem var búið að vinna. Sagði þeim að ég myndi ekki snerta það, ekki skoða einn staf fyrr en daginn sem Guardian birti fréttirnar og sagði frá ákærunni. Fréttablaðið var því ekki fyrsti fjölmiðillinn til að birta fréttir af ákærunum og viðbrögðum við þeim. Eðlilegast hefði verið að eyða öllu efninu og sennilega gerði ég mistök að gera það ekki.
Baugsmenn gerðu ekki annað en bjóða efnið með skilyrðum. Það er eitt, hitt er verra og er ófyrirgefanlegt að fjölmiðill þáði efnið.
Vandinn var ekki að baki. Ég lagði áherslu á að fram kæmi í Fréttablaðinu að viðtölin við Jón Ásgeir og Jóhannes hefðu verið lesin yfir. Það kom ekki til greina að fela það, þar sem önnur viðtöl eða annað efni var ekki sent úr húsi til yfirlestrar. Ég leitaði raka til að sannfæra sjálfan mig og fann þau ein að þar sem talað var við ákærða menn í mjög viðkvæmri stöðu var réttlætanlegt að víkja frá siðaskrá blaðsins. Kannski var það ekki rétt og þetta leitar á mig af til, var þetta rétt eða ekki. Ég er ekki viss.
Greinina í Ísafold skrifar Jóhann Hauksson, en hann tók viðtalið við Jóhannes Jónsson, viðtal sem ég setti í geymslu vegna þess hvernig það varð til. Sagan af samskiptum Baugsmanna og Fréttablaðsins segir mér það að Baugsmenn höfðu ágæt rök, Fréttablaðið var víðlesnasta og blað landsins, og er enn, og því ekkert athugavert að leita til þess með mál sem þetta, en það er ekki þar með sagt að fjölmiðill eigi að þiggja efnið. Það gerði Fréttablaðið, það samdi um fréttir. Ég rauf samkomulagið og það gekk eftir, nema að hluta, það sem gekk eftir, var að Fréttablaðið réði sjálft hvenær efnið birtist og hvað af því birtist. Daginn sem Guardian birti fréttina las ég efnið í fyrsta sinn og þá var tekin ákvörðun um með hvaða hætti við birtum þetta. Úr varð að setja efnið á nokkrar síður og ekki veitti af. En það sem mér þótti merkilegast var að Fréttablaðið afþakkaði þar með forskot á aðra íslenska fjölmiðla um birtingartíma, en hafði vissulega minna fyrir efnisvinnslu þennan dag en t.d. Morgunblaðið.
Mér var legið á hálsi að láta sjónarmið ákærðu koma eins skýrt fram í fyrirsögnum og raun var á. Í mörg ár skrifaði ég fréttir af dómsmálum og fréttamat mitt var það eftir lestur ákæranna í Baugsmálinu sumarið 2005 að mikið var að og efasemdir ákærðu væru meira fréttaefni en annað, sem reyndist svo vera hárrétt.
Bloggar | 29.10.2006 | 22:47 (breytt kl. 23:06) | Slóð | Facebook
29. október
Björn Bjarnason fær ekki góða kosningu í prófkjörinu og það er vita vonlaust að reyna að telja okkur trú um að svo sé. Útreið Björns er mesta fréttin í prófskjörsúrslitunum og næst koma svo fínar kosningar Guðfinnu Bjarnasdóttur og Illuga Gunnarssonar. Góð kosning þeirra hlýtur að vera áfelli yfir þingmönnunum sem koma þeim nokkuð langt að baki í stuðningi flokksmanna, hvers vegna fá nýliðar svona langtum betri kosningu en starfandi þingmenn?
Björn fær einungis stuðning þriðjungs þátttakenda í annað sætið, sætið sem hann sóttist fast eftir og fékk stuðning formanns flokksins í þeirri baráttu, og það sem er ekki síður merkilegt er að þriðjungur þeirra sem greiddu atkvæði veittu Birni ekki stuðningi í nokkurt sæti, þannig að þriðjungur flokksmanna í Reykjavík hafnaði Birni ákveðið þrátt fyrir allt sem lagt var undir og hvatningarorð Geirs H. Haarde um að veita Birni stuðning.
Þetta eru merkustu fréttirnar.
Varðandi gengi kvenna, þá eru þær þrjár í tíu efstu sætum og fyrsta konan er í fjórða sæti, önnur í sjöunda og þriðja í tíunda.
Bloggar | 29.10.2006 | 09:23 (breytt kl. 09:25) | Slóð | Facebook
26. október 2006
Samfélagið færir sumum þegnum sínum mikið vald. Ráðherrar hafa vald, stundum Alþingi, dómstólar og svo lögreglur ýmiskonar. Sama er að segja um ákærendur. Sumt af þessu valdi er öflugt og það er mikils virði að þeir sem er treyst fyrir því fari varlega með það. Ill eða röng meðferð á valdi er ofbeldi gegn þeim sem henni sæta. Þess vegna er brýnt að þeir einir fái vald sem geta beitt því af varúð og réttlæti.Athugasemdir Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs, vegna erindis ríkislögreglustjóra til lögreglunnar í Lúxemborg er eftirtektarverðar. Hafi Jón Ásgeir rétt fyrir sér er komin upp alvarleg staða. Þá skiptir engu hvaða skoðun hvert og eitt okkar hefur á Jóni Ásgeiri, Baugsmálinu, ríkislögreglsutjóra, dómurum eða hverju sem er. Það er ekki heppilegt að í krafti valds sé leitað til lögreglu í öðrum löndum og beðið um aðstoð á fölskum forsendum. Við það má ekki una. Þess vegna er ómögulegt að þeir sem framkvæmdu komist upp með það. Þá hafa þeir misbeitt valdi sem við hin treystum þeim til að fara með og þá er aðeins eitt í stöðunni, það er að afturkalla valdið. Fela einhverjum öðrum það. Reyndar er Baugsmálið allt að þróast á þann veg að svipta ætti þá öllu valdi sem mest beittu því í málinu.Lögreglu er falið mikið vald, meðal annars til að fylgjast með okkur hinum, og ráðherrar virðast hafa getað fengið heimildir dómstóla til hlerunar þó rök þeirra fyrir njósnunum hafi verið engin eða verulega veik. Þessum er falið mikið vald og vandmeðfarið. Það er alvarlegt að njósna um annað fólk og þess þá heldur þegar handhafar valdsins eru ráðherrar og lögregla. Venjulegir borgarar mega sín lítils gegn slíku afli. Þess vegna verða kröfurnar á þá sem fara með valdið að vera sérlega miklar og allt sem miður fer í beitingu valdsins verður að teljast til alvarlegra brota og leiða til afturköllunar valdsins.Ríkissaksóknari hefur heimildir til að hefja rannsóknir á málum að eigin frumkvæði. Það hefur hann gert með meint hlerunarmál Jóns Baldvins Hannibalssonar. Kannski má ríkissaksóknari láta frekar til sín taka. Hann gæti til að mynda látið rannsaka upphaf Baugsmálsins, grun og fullyrðingar um ólögmætar hleranir og njósnir lögreglunnar og eflaust fleira og þá hvort rétt sé að lögregla haldi skrár yfir félagsmenn einstakra samtaka og félaga, sem stenst varla lög um persónuvernd, sé rétt að slíkar skrár séu til og þær notaðar í leyniherbergjum í lögreglustöðinni.Hafi Jón Ásgeir rétt fyrir sér og hafi lögreglan borið á hann allt aðrar og meiri sakir en efni stóðu til, til þess að afla gagna erlendis, er ljóst að lögreglan hefur gengið of langt í meðferð valdsins sem við höfum falið henni. Samfélagið getur aldrei sæst á að þeir sem er falið vald beiti því að eigin geðþótta og hirði ekkert um þá sem fyrir verða. Stangist gerðir lögreglu ekki á við lög, réttlætir það samt ekki aðgerðirnar. Valdið er vandmeðfarið.Bloggar | 26.10.2006 | 08:10 (breytt kl. 08:12) | Slóð | Facebook
25. október 2006
Það er rétt sem Pétur Gunnarsson segir á bloggsíðu sinni, Elín Albertsdóttir, fyrrverandi ritstjóri Vikunnarm, hefur verið ráðin til starfa á Blaðinu. Hún byrjar 1. nóvember. Lesendur mun verða varir við störf hennar á næstu dögum. Mikil reynsla Elínar mun styrkja Blaðið.
25. október 2006
Jón Magnússon skrifar fína grein í Blaðið í dag. Mikið óskaplega er ég sammála Jóni um að engin dæmi eru um meinta aðför að Birni Bjarnasyni. Svo klikkir Jón út með að Geir H. Haarde hafi stillt málinu upp með þeim hætti að fylgi Björns í prófkjörinu verði mælikvarði á stöðu Geirs meðal flokksmanna.
"Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur kosið að persónugera hagsmuni Sjálfstæðisflokksins í Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra og segir eins og sagði í dægurlagatexta forðum, Það er ekkert upp á hann að klaga. Að því leyti sem ég fæ skilið formann Sjálfstæðisflokksins þá sækja andstæðingar flokksins að Birni Bjarnasyni til að ná höggi á Sjálfstæðisflokkinn og því mikilvægt að mati formannsins að Björn fái góða kosningu til að koma í veg fyrir slíkt níðhögg andstæðinganna. Betri prófkjörsauglýsingu hefur enginn frambjóðandi fyrr eða síðar fengið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Svona áskorun formanns flokksins ætti að öðru jöfnu að tryggja forustumanni íhaldssams flokks eins og Sjálfstæðisflokksins, gamaldags rússneska kosningu. Björn Bjarnason hefur verið forustumaður Sjálfstæðisflokksins til margra ára. Sjálfstæðisfólk þekkir hann og veit fyrir hvað hann stendur. Fólk veit að að hann er gáfaður dugnaðarforkur og hefur verið einn helsti sporgöngumaður Davíðs Oddssonar um árabil. Óþarfi ætti að vera fyrir formann Sjálfstæðisflokksins að gefa jafn þekktum stjórnmálamanni sérstakt siðferðisvottorð. Samt sem áður er það gert og því haldið fram að andstæðingar Sjálfstæðisflokksins hlutist til um andróður gegn honum eftir því sem virðist til að hafa áhrif á prófkjör Sjálfstæðisflokksins. Pólitískir andstæðingar Sjálfstæðisflokksins hafa ekki kosningarétt í prófkjöri Sjálfstæðisfokksins. Þeir hafa almennt ekkert með prófkjörið að gera. Það eru flokksmenn í Sjálfstæðisflokknum og sérstakir stuðningsmenn sem kjósa í prófkjörinu og aðrir ekki. Prófkjörið fer fyrir ofan garð og neðan hjá flestum öðrum en innvígðu og innmúruðu Sjálfstæðisfólki. Í hverju er aðför stjórnmálandstæðinga Björns Bjarnasonar að honum fólgin? Hefur einhver vegið að honum persónulega? Hefur rógsherferð verið sett í gang? Er honum ranglega borið eitthvað á brýn? Ég hef ekki orðið var við að neitt af þessu. Satt best að segja verður þess ekki vart að Björn Bjarnason sigli úfnari pólitískan sjó í viðskiptum við pólitíska andstæðinga Sjálfstæðisflokksins en stjórnmálamenn í hans stöðu gera almennt. Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins eru hvorki að gera né reyna að gera aðför að Birni Bjarnasyni persónulega. Aðförin að honum ef hægt er að nefna það því nafni er gerð af Sjálfstæðisfólki sem vill gera breytingar á forustu flokksins. Klaufaleg viðbrögð Sjálfstæðismanna við ásökunum um símahleranir lögregluyfirvalda hafa fært andstæðingum flokksins ákveðin færi. Í lýðræðisríki er eðlilegt að lýðræðissinnar beiti sér fyrir nauðsynlegum rannsóknum og úttektum á því hvort réttarríkið starfar með eðlilegum hætti. Við eigum rétt á að fá að vita hvernig þessum málum er háttað. Ekkert minna en hlutlæg úttekt aðila sem fólkið í landinu getur treyst á símhlerunum lögregluyfirvalda kemur nú til greina. Eðlileg úttekt og umræða um þessi mál og skipan þeirra í núinu er ekki óvinafagnaður heldur mikilvægur hluti eðlilegrar pólitískrar umræðu í lýðræðiþjóðfélagi. Með yfirlýsingu sinni um Björn Bjarnason verður gengi eða gengisleysi Björns í prófkjörinu mál formannsins. Mikilvægasta niðurstaða prófkjörsins gæti þá orðið sú hvort Sjálfstæðisfólk hlustar yfirleitt á formann sinn og tekur tillit til áskorana hans."
25. október 2006
Einar K. Guðfinnsson steig nokkuð sérstök spor þegar hann ákvað að heimila hvalveiðar að nýju. Í fyrsta lagi er merkilegur aðdragandinn að veiðunum. Ráðherrann ákvað að láta hvalfangarann Kristján Loftsson vita af væntanlegri ákvörðun sinni með þokkalegum fyrirvara svo fangarinn gæti gert allt klárt, bæði til sjós og lands. Sennilega hefur Kristján fengið að vita af ákvörðuninni á undan samstarfsráðherrum Einars sjávarútvegsráðherra. Eins getur það ekki talist merkilegt skref að heimila aðeins veiðar á fáum hvölum og með svo litlu skrefi kalla yfir okkur öll þau óþægindi sem Einar ráðherra hefur gert með ákvörðun sinni. Það sem ráðherrann hefur gert með þessu er að upplýsa hvalfangarann um ætlun sína áður en aðrir fengu að vita hvað til stóð, þora ekki alla leið og heimila aðeins veiðar á fáum dýrum og með þessu hænufeti hefur hann kallað yfir óþægindi sem jafnvel geta skaðað Íslendinga hér og þar um heiminn. Hagsmunirnir af veiðunum eru svo litlir miðað við gusuganginn sem fylgir þeim að betur hefði verið heima setið en af stað farið.Þessar sýndarhvalveiðar hafa ekkert með stolt okkar og ákvörðunarrétt yfir eigin auðlindum að gera. Þær eru púkalegar, vanhugsaðar og þjóna engum. Ef það er eindreginn vilji ráðherrans og ríkisstjórnarinnar að heimila hvalveiðar þá ber að gera það almennilega. Ekki þetta hálfkák sem enginn græðir á. Kannski þorði ráðherrann ekki lengra og ákvað að svo takmarkaðar veiðar, sem raun er á, séu fínn prófsteinn á viðbrögð alþjóðasamfélagsins og með þessu litla skrefi sé hægt að forða okkur til baka, gefa ekki út frekari heimildir í von um fyrirgefningu umheimsins.Aðdragandi ákvörðunarinnar hlýtur að færast í sögubækur fyrir einstaka stjórnsýslu. Hvaða vit er í því að uppfræða þann sem hefur mestan fjárhagslegan ávinning af veiðunum um hvað standi til langt á undan öllum öðrum? Kann að vera að fleiri hefðu viljað nýta sér veiðiheimildirnar en Kristján Loftsson? Er það hægt á okkar tímum að vinna með þeim hætti að opna veiðar úr auðlindinni og gera það í samstarfi við einn útgerðarmann, jafnvel þó hann hafi einn staðið að hvalveiðum á sínum tíma, fyrir um tuttugu árum? Getur ekki verið að fullvinnsluskip hefðu getað stundað veiðar og vinnslu með allt öðrum hætti og nútímalegri en Hvalur hf. gerir á minjasafninu Hval 9?Vegna hlerunarmála er talsvert talað um jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Nær hún ekki út á sjó og getur ráðherra heimilað einum veiðar, og það með löngum fyrirvara, án þess að gefa öðrum kost á að nýta sér sameiginlegar auðlindir okkar?Þeir sem eru hvað mest meðmæltir hvalveiðum eru þess fullvissir að markaðir fyrir hvalkjöt séu til staðar, þó þess sjáist ekki merki enn. Ríkið hefur varið tvö hundrað milljónum króna í áróður fyrir hvalveiðum og ómögulegt er að vita hvort þeir peningar hafi með einhverjum hætti dregið úr þeirri óánægju sem Einar K. Guðfinnsson hefur vakið með ákvörðun sinni. Ákvörðun hans er ekki til þess fallin að efla samstöðu þjóðarinnar gegn erlendum óvinum. Frekar verður hún til að skipta þjóðinni í fylkingar. Það sem er verst er að þeir sem eru meðmæltir hvalveiðum geta ekki hrósað sigri. Til þess er skref ráðherrans of stutt, of púkalegt.24. október 2006
Í langan tíma hefur það verið á vitorði margra innan lögreglunnar í Reykjavík að símar fólks hafa verið hleraðir. Og jafnvel í meira mæli en haldið hefur verið fram. Heimildarmenn Blaðsins fullyrða að svo sé, en ábyrgðarmenn lögreglunnar bera af sér sakir. Það er alsiða við vinnslu afhjúpandi frétta, að heimildarmenn sem oftast eru knúnir áfram af réttlætiskennd, staðfesta mál meðan þeir sem ábyrgðina bera gera allt sem þeir geta til að kæfa mál, til að hrekja blaðamenn af leið eða til að koma með einhverjum hætti í veg fyrir að óþægilegar fréttir rati á prent.Við vinnslu frétta um símahleranir í lögreglustöðinni við Hverfisgötu kom svo margt fram sem kemur á óvart. Þeir sem voru fúsir til að ræða við blaðamenn höfðu frá mörgu að segja. Næturvöktum í símstöðinni, sem köllluð var hótel helvíti, og skráningum á félagsmönnum ýmissa félaga og samtaka. Embættismenn sem rætt var við geta ekki útilokað að enn sé fylgst með fólki sem ekki getur talist til afbrotamanna, svo sem eins og mótmælendum hinna ýmsu mála. Þar voru nefnd Falun Gong og mótmæli vegna Kárahnjúka. Einn þeirra sem starfar við að fylgjast með fólki segir ekki rétt að til séu skrár um félagatöl, segir að það myndi stangast á við lög um persónuvernd, meðan aðrir viðmælendur eru sannfærðir að slíkar skrár séu til og þær uppfærðar reglulega.Ég vann í mörg ár við að hlera í fíkniefnamálum. Við fengum afhentar spólur með samtölum í þeim málum sem við vorum að vinna í. Að samtölunum loknum leyndust alls konar samtöl þar fyrir aftan. Samtöl sem við áttum alls ekki að heyra, segir einn heimildarmanna Blaðsins við vinnslu fréttarinnar. Einn þeirra sem starfaði í dularfulla símaherberginu neitar þessu ákveðið: Ég kannast ekki við þessar frásagnir. Hér er einhver misskilningur á ferðinni, segir hann.Þar sem heimildirnar eru traustar og ásakanir þeirra manna, sem rætt er við, eru alvarlegar verður lögreglan að gera betur en neita málinu í einu handtaki. Það er ákvörðun að birta frétt gegn neitun þeirra sem eiga best að þekkja til. Neitunin má þó aldrei verða til þess að frétt birtist ekki, einungis neitunarinnar vegna. Þá verður fjölmiðill að vega og meta fyrirliggjandi gögn, framkomnar fullyrðingar, þá sem tala eða annað sem styður fréttina. Þegar það hefur verið gert er fyrst hægt að taka ákvörðun um birtingu fréttar. Það er þetta sem ábyrgðarmenn fjölmiðla meta hverju sinni.Hleranir á lögreglustöðinni við Hverfisgötu eru staðreyndir. Fullyrt er að oft hafi verið hlerað án dómsúrskurða, að lögreglan hafi brotið lög. Í allri þeirri umræðu sem verið hefur um hleranir og persónunjósnir er hlerunarstöðin við Hverfisgötu sennilega ekki veigaminnsti þátturinn og hlýtur að verðskulda athygli.22. október 2006
Sá Amadeus í Borgarleikhúsinu í gær. Fannst sýningin fín, leikurinn almennt góður og Hilmir Snær er á sviðinu allan tímann og leikur sannfærandi. Sýningin var svo fín að ég var alveg gáttaður þegar ég kom út að henni lokinni og sá að klukkan var að verða hálf tólf. Sýningin hafði sem sagt staðið í meira en þrjá tíma og allan tímann var ég hugfanginn.
Bloggar | 22.10.2006 | 09:57 (breytt kl. 09:58) | Slóð | Facebook
21. október 2006
Blaðið sagði frá í sínum helstu fréttum að kona var bjargarlaus í Hvalfirði meðan eiginmaðurinn hennar lést af áverkum eftir hörmulegt bílslys. Hún gat ekki hringt eftir hjálp þar sem ekkert símasamband var á slysstaðnum. Blaðið sagði frá fjölskyldu með sjónskert börn sem verður að flytja til annars lands svo börnin fái menntun.
Hin blöðin hafa af sama áhuga sagt frá hvalveiðum og breytingum á friðargæslu íslenskri.
Bloggar | 21.10.2006 | 09:18 (breytt kl. 09:44) | Slóð | Facebook